Reiðin er tilfinningalegt ástand og eins og aðrar tilfinningar á hún upptök sín í svokölluðu randkerfi heilans (limbic system). Randkerfið tilheyrir að hluta þeim hluta heilans sem er gamall í þróunarsögunni og þess vegna svipaður og í fjölmörgum dýrum.
En til kerfisins teljast einnig svæði í heilaberkinum, sem liggur yst og er um leið nýjasti hluti spendýraheilans.
Í heilaberkinum stjórnast m.a. sjálfsvitund og hömlur á tilfinningar og hvatvísi. Heilabörkurinn er mun þróaðri í mönnum en öðrum spendýrum og hann vantar alveg í margar minna þróaðar dýrategundir.
Heilaskannanir hafa sýnt hvaða heilastöðvar virkjast þegar fólk reiðist.
Þetta eru þær stöðvar í heilaberkinum sem túlka tilfinningaskyn, m.a. með samanburði við minnisstöðvar, svo og ýmsar stöðvar í ennisblaðinu þar sem ákvarðanir eru teknar, hömlur lagðar á skyndihugdettur og einnig ákvarðað hvort tiltekin hegðun teljist félagslega viðurkennd.