Tölur sýna að í Ástralíu lifa alls 66 ólíkar tegundir af eiturslöngum. Fjöldi slöngutegunda er einungis meiri í Brasilíu, þar sem lifa 79 tegundir, og í Mexíkó sem skartar af alls 80 tegundum.
Ástralía hýsir hins vegar margar af allra hættulegustu tegundunum, en þar lifir m.a. smáhreistursnaðran. Eitt einasta bit hennar felur í sér nægilegt eitur til að deyða 250.000 mýs.
Hættulegasta bit Ástralíu
Grænbrúna smáhreistursnaðran er eitraðasta skriðdýr heims. Hún felur í sér nægilega mikið taugaeitur til að deyða eitt hundrað manns eða 250.000 mýs.
Brúni ástralski snákurinn vermir annað sætið hvað eitraðar slöngur áhrærir. Hann lifir í námunda við menn og á fyrir vikið sök á flestum banvænum slöngubitum í Ástralíu.
Tígrisdýrasnákurinn er enn ein af eitruðustu slöngum heims. Þegar hún bítur skilur hún eftir sig allt að 65 mg af eitrinu, sem nægir til að deyða 20 fullorðna menn.
Ástæða þess að svo margar eiturslöngur fyrirfinnast í Ástralíu er sú að margar af slöngutegundunum í landinu heyra undir eitursnákaættina, Elapidae.
Ástralir komast hjá dauðsföllum
Ef marka má skýrslu í læknatímaritinu The Lancet frá árinu 2019 eiga slöngubit sök á 81.000 til 138.000 dauðsföllum árlega. Langflest eiga þau sér stað í Suðaustur-Asíu og Suður-Ameríku.
Í Ástralíu látast að meðaltali einungis tveir á ári af völdum slöngubits. Vísindamenn skýra þessa lágu tölu á þann veg að íbúar í Ástralíu séu mjög meðvitaðir um hvernig beri að forðast slöngubit og að heilbrigðiskerfið bjóði upp á áhrifaríka meðhöndlun gegn slöngubitum, m.a. með móteitri.