Blómsturplöntur hafa stilka sem gerðir eru úr mismunandi vefjum. Yst eru lög sem koma í veg fyrir að plantan tapi vökva og í þeim eru líka trefjar sem gefa plöntunni styrk. Innar er svo sáldvefur (phloem) og viðarvefur (xylem), eins konar æðar sem flytja vatn, steinefni og sykur sem til verður í ljóstillífun. Innst er svo mergurinn sem í mörgum plöntum er mjúkur og svampkenndur. Mergurinn gegnir hlutverki geymslustaðar. Ef plantan framleiðir á einhverju tímaskeiði meiri sykur við ljóstillífun en hún þarf að nota, eru umframbirgðirnar geymdar hér.
En þurfi plantan á hinn bóginn á einhverjum tíma að vaxa svo hratt að til þess þurfi meiri sykur en hún framleiðir jafnóðum, brotna frumurnar í mergnum niður og sykurefnin eru flutt til þeirra plöntuhluta sem vaxa. Þegar plöntur blómstra gerist það oft með hröðum vexti. Þess vegna er algengt að stilkurinn verði holur að innan.
Þetta skiptir nánast engu máli fyrir styrk stilksins og hefur heldur ekki áhrif á hæfnina til að flytja vatn og næringu, þar eð æðavefurinn stendur óhaggaður ásamt ytri lögum stilksins.