Í áratugi hefur samband Bandaríkjanna og Írans einkennst af miklu vantrausti og fjandskap.
Ástæðan fyrir hinu spennuþrungna ástandi má rekja allt til ársins 1953, þegar Bandaríkin skipulögðu valdarán þar sem lýðræðislega kjörnum forsætisráðherra Írans var steypt af stóli og við tók einveldisstjórn sem var hliðholl vesturveldunum.
Valdaránið skapaði mikla biturð meðal Írana og ruddi brautina fyrir íslömsku byltinguna árið 1979 þar sem Íranskeisara Mohammad Reza Shah Pahlavi var steypt af stóli og í kjölfarið var stofnað íslamskt lýðveldi.
Byltingin olli þáttaskilum í samskiptum við Bandaríkin því hin nýja klerkastjórn í Íran var mjög andsnúin amerískum áhrifum og Bandaríkin voru í þeirra augum „Hinn stóri Satan“.
Síðan þá hafa Íran og Bandaríkin tekið þátt í ýmsum átökum, þar sem Bandaríkin hafa stutt óvini Írans í átökum og styrjöldum – til dæmis í Íran-Íraksstríðinu á árunum 1980-1988.
Íranar hafa sakað Bandaríkin um að hafa afskipti af innanríkismálum landsins. Spennan jókst enn frekar undir stjórn Donalds Trump forseta, sem dró Bandaríkin úr kjarnorkusamkomulaginu við Íran árið 2018 og beitti hörðum refsiaðgerðum.
MYNDSKEIÐ: Fimm ástæður þess að Íran hefur blandað sér í svo mörg átök:
Í dag eru samskipti Bandaríkjanna og Írans langt undir frostmarki.
Bandaríkin hafa áhyggjur af vaxandi áhrifum Írans í Miðausturlöndum, þar sem þeir styðja ýmsar vígasveitir, þar á meðal Hamas á Gaza, Hezbollah í Líbanon og Húta í Jemen.
Bandaríkjamenn líta á þennan stuðning sem mikla ógn við eigin hagsmuni og öryggi bandamanna þeirra – sérstaklega Ísraels.
Síðast en ekki síst óttast Bandaríkjamenn að kjarnorkuáætlun Írans geti breytt klerkastjórninni í kjarnorkuveldi.
Þrátt fyrir að Íranar neiti öllum áformum um þróun kjarnorkuvopna þýðir riftun kjarnorkusamkomulagsins að Vesturlönd hafa ekki lengur innsýn í hvað Íranar eru að bauka í kjarnorkumálum sínum.