Ástæða þess að vatn myndar dropa er yfirborðsspenna sem stafar af því að vatnssameindirnar dragast hver að annarri. Vatnssameindir eru bæði innan í dropanum og á yfirborði hans. Sameind inni í vatnsdropa verður fyrir aðdráttarafli frá öllum hliðum jafnt. Sameind á yfirborðinu togast hins vegar aðeins inn á við. Þannig er ákveðinn kraftur í yfirborðssameindunum og sá kraftur leitar inn á við. Þessi kraftur heldur dropanum saman, gerir hann kúlulaga og veldur því að auki að yfirborðið er örlítið teygjanlegt.