Það mætti ætla að aldursgreining á klæðisbút sé nokkuð auðveld. En í margar aldir hefur textíll nokkur heillað og klofið fræðimenn í tvær fylkingar.
Þetta umrædda líkklæði frá Torino er að sögn það klæði sem var sveipað um Jesú eftir krossfestinguna fyrir um 2.000 árum.
Klæðið ber far eftir mannslíkama og sýnir leifar af blóðslettum sem samsvara þeim sárum sem biblían greinir frá að Jesús hafi fengið við aftökuna.
Líkklæðið kemur fyrst fram í rituðum heimildum árið 1354 þegar franskur riddari sýndi það í bænum Lirey.
Ekki er ljóst hvar riddarinn náði í líkklæðið en árið 1389 skrifaði biskupinn af Troyes til páfans að líkklæðið væri falsað af listamanni á staðnum.
Sú kenning virtist vera staðfest árið 1988 með kolefnisgreiningu sem sýndi að klæðið væri upprunnið frá 1260 til 1390.
MYNDSKEIÐ: Sjáðu heimildarmynd um líkklæðið frá Torino
Fræðimenn sá efasemdarfræjum um fræðimenn
En sögunni lauk ekki með því.
Frá 1980 hafa fleiri en 170 vísindalegar greinar um líkklæðið verið gefnar út, m.a. af efnafræðingum, læknum og plöntufræðingum.
Sumir hafa efast um aldursgreininguna frá 1988, m.a. með því að benda á að rannsóknin hafi verið gerð á síðari tíma efnisbútum frá miðöldum.
Aðrir hafa ályktað að fölsun á líkklæðinu hefði krafist tæknilegrar þekkingar sem ekki var að finna á miðöldum.
Enn aðrir hafa að því er virðist fundið frjókorn sem eiga að staðfesta að klæðið er upprunnið í Mið-Austurlöndum.
Eftir stendur að vísindamenn eru ekki ennþá á einu máli um aldur líkklæðisins né heldur um hvernig farið eftir mannslíkamann myndaðist.
Líkklæðið heldur þannig áfram að skipa sér sess á mörkum goðsagnar, sögu, trúar og vísinda.