Óbeinar reykingar eru skilgreindar sem innöndun tóbaksreyks og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að þær eru mjög skaðlegar.
Strax upp úr 1980 sýndu vísindalegar rannsóknir að óbeinum reykingum fylgdi stóraukin hætta á ýmsum gerðum krabbameins. Það er líka greinilegt samhengi milli óbeinna reykinga og annarra sjúkdóma, m.a. hjarta- og æðasjúkdóma.
Áhrif óbeinna reykinga má rannsaka á marga vegu, t.d. með því að bera saman tíðni ákveðins sjúkdóms hjá þeim sem þurfa að anda að sér reykjarlofti og öðrum sem lifa að jafnaði í reyklausu umhverfi.
Það hefur komið í ljós að reyklausir makar reykingafólks eiga 20-30% fremur á hættu að fá lungnakrabba en í þeim tilvikum sem báðir makarnir eru reyklausir. Hætta á lungnakrabba er 15% meiri þar sem reykt er á vinnustað en í reyklausu vinnuumhverfi.
Krabbameinsvaldandi efni í tóbaksreyk eru skaðleg vegna þess að þau binda sig við DNA-sameindir í frumunum, sem sagt við erfðamassann, og geta komið í veg fyrir eðlilega afritun erfðaefnisins þegar fruman skiptir sér. Takist nýju frumunni ekki að gera við skemmdirnar getur hún orðið krabbameinsfruma. Önnur efni í tóbaksreyk leiða til æðakölkunar og auka hættu á blóðtappa.
Í bænum Helena í Bandaríkjunum bannaði bæjarstjórnin reykingar á öllum vinnustöðum og í opinberum byggingum árið 2002 og í kjölfarið fækkaði blóðtappatilvikum í hjarta marktækt. Þegar banninu var aflétt árið eftir fjölgaði blóðtappatilvikum á ný. Aukin hætta á hjartasjúkdómum af óbeinum reykingum samsvarar áhættu þeirra sem reykja allt að 10 sígarettur á dag.
Tóbaksreykur hefur líka áhrif á slímhimnur í nefi og öndunarfærum. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem verða að þola óbeinar reykingar á heimilinu eiga tvöfalt fremur á hættu að fá m.a. eyrnabólgu, astma og lungnabólgu en börn sem ekki dvelja í tóbaksreyk.