Útreikningar sýna að ef vindur er hvass og sandurinn þurr getur sandburðurinn orðið allt að 30 kg á hvern metra á klukkustund. Þetta þýðir að í miklum sandstormi geta margar milljónir tonna af sandi og ryki flutt sig úr stað.
Upphaf sandstorms
Sandstormur byrjar þegar vindhraði fer yfir 10 m á sekúndu.
Sá vindhraði dugar til að flytja þær agnarsmáu eindir sem eru uppistaðan í sandstormi.
Þessar litlu eindir eru einnig þekktar sem svifryk og eru minni en 0,1 mm í þvermál, margar meira að segja miklu minni. Stór sandkorn geta líka borist til með vindi en þau eru svo þung að þau lyftast sjaldan hærra en 30 sm upp frá jörðu og nánast hoppa eftir yfirborðinu.
Þótt stærri sandkorn flytji sig þannig sjaldnast nema fáeina metra hafa þau engu að síður mikil áhrif á þróun sandstormsins.
Í hvert sinn sem stórt sandkorn skellur niður þyrlar það upp smærri rykögnum og það eru þau sem berast hátt í loft upp og veita sandstorminum hæð sína og ógnvænlegt útlit.
Sandstormur getur varað árum saman
Vegna smæðar sinnar geta rykkornin haldist á lofti dögum eða vikum saman og þau allra smæstu jafnvel árum saman.
Þau geta því komist hátt upp í gufuhvolfið og borist allt að 6.000 km leið. Sahara-eyðimörkin ein og sér “flytur út” 60 – 200 milljónir tonna af fíngerðu sandryki á hverju ári.
Hluti þess berst alla leið til Evrópu eða jafnvel Suður-Ameríku.