Geimfararnir þrír, Thomas P. Stafford, John W. Young og Eugene Cernan, settu hraðamet þegar þeir fóru í gegnum gufuhvolf jarðar á 11.107 metra hraða á sekúndu – eða næstum 40.000 km hraða – árið 1969 í Apollo 10. eftir að hafa verið á braut um tunglið.
Mennirnir þrír biðu engan skaða af og í sjálfu sér eru engin takmörk fyrir því hve hratt er hægt að fara.
Hraðaaukingin getur valdið vandræðum vegna G-kraftsins, en hraðinn sjálfur gerir það ekki. Ef tíminn er nægur og – ekki síður – nóg af eldsneyti mætti fræðilega séð koma eldflaug upp undir ljóshraðann sem er tæplega 300.000 km á sekúndu.
Slíkum hraða væri þó aldrei unnt að ná á jörðu niðri. Að hluta til hefur loftmótstaðan hamlandi áhrif og að hluta yrði líka erfiðleikum bundið að hafa stjórn á farartækinu.
Hraðametið á landi er þannig “aðeins” 1.228 km/klst. Þetta met var sett 1997 á eldflaugabílnum Thrust SSC sem knúinn var tveimur Rolls Royce-þotuhreyflum. Enn erfiðara er að ná miklum hraða á vatni. Spirit of Australia setti hraðamet á vatni 1978 þegar þessi hraðbátur náði 511 km hraða.
Tvisvar hefur verið reynt að slá þetta met en báðar tilraunirnar urðu stýrimanninum að bana.