Sé málið skoðað í sögulegu samhengi hefur F-16 sem einnig kallast F-16 Fighting Falcon, áunnið sér sess sem ein best heppnaða bardagaflugvél heims.
Allt frá árinu 1976 hafa verið framleidd rösklega 4.600 eintök af vélinni og hún hefur sannað gildi sitt á ýmsum vígstöðvum, m.a. í stríðinu milli Afganistan og Rússlands, í Persaflóastríðinu og styrjöldunum í gömlu Júgóslavíu.
Í þessum átökum áttu F-16 vélar þátt í mörgum flugbardögum, þar sem þær hæfðu 76 óvinaflugvélar, á meðan aðeins ein F-16 vél var skotin niður.
Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst að F-16 er ein besta bardagaflugvél heims en þess ber þó að geta að bardagavélin Boeing F-15 Eagle, hefur vinninginn, því hún hefur skotið niður 102 óvinavélar án þess sjálf að hafa nokkru sinni verið hæfð á lofti.
Til samanburðar má geta þess að einn helsti keppinautur F-16, rússneska orrustuflugvélin MiG21, hefur reyndar skotið niður 240 óvinavélar en á sama tíma hafa rösklega 500 vélar þessarar gerðar verið skotnar niður.
Þó svo að fyrirrennarinn F-15 hafi notið meiri velgengni í bardaga nýtur F-16 þó meiri almennrar hylli á Vesturlöndum og meðal bandamanna Vesturlanda.
F-16 flugvélarnar voru m.a. notaðar í Persaflóastríðinu, þar sem þær reyndust vera mjög hittnar á skotmörk, hvort heldur í lofti eða á landi.
F-16 er ódýr og hagkvæm
Vinsældirnar eiga ekki hvað síst því að þakka að vélarnar eru ódýrar, bæði í innkaupum og viðhaldi.
Önnur ástæða er svo sú að F-16 er svokölluð margnotavél sem bæði gefst vel að nota í loftbardögum, svo og í árásum á skotmörk á jörðu niðri. Vélina er fyrir bragðið unnt að nota í fleiri gerðir leiðangra en á við um flestar aðrar orrustuflugvélar.
Með nýrri hönnun taka NASA og Boeing höndum saman um að finna grænni framtíð fyrir flugið sem er loftslagsbaráttunni óhemju þungt í skauti. Sérstök vænghönnun á að spara bensín og draga úr koltvísýringslosun.
Í Persaflóastríðinu á árunum 1990-1991 kom berlega í ljós hvað vélarnar létu vel að stjórn og hve fjölhæfar þær voru en F-16 vélarnar tóku þá þátt í þúsundum flugferða.
F-16 vélarnar skutu þá niður íraskar orrustuflugvélar og voru jafnframt notaðar í mörgum nákvæmnisárásum á skotmörk á jörðu niðri, án þess svo mikið sem ein einasta vél yrði skotin niður, þrátt fyrir hvað flugher Íraka var háþróaður.