Í flestum frumstæðum samfélögum manna gegna trúarathafnir með söng, dansi og sérstökum búningum veigamiklu hlutverki. En leiklistin, í þeirri merkingu sem við notum orðið nú í hinni vestrænu menningu, varð ekki til fyrr en leikurinn losnaði úr tengslum við trúarbrögðin og fór þess í stað að fjalla um mannleg samskipti af ýmsu tagi, svo sem stjórnmál, siðgæði og ástir. Og þessi tengsl við trúarathöfnina rofnuðu fyrst í Grikklandi á 6. öld f.Kr., þegar Grikkir lögðu til hliðar hinn strangtrúarlega skilning á tilverunni og tóku þess í stað að leggja í hana öllu veraldlegri skilning sem fremur byggði á skynsemi en trú.
Gríska leikhúsið spratt upphaflega út úr árlegri vorhátíð, trúarathöfn, sem helguð var guðinum Dýonýsosi. Leikararnir klæddust dýrabúningum eða voru í gervi skógarpúka, sungu og dönsuðu og sagðar voru goðsögur af afrekum þessa guðs. En smám saman þróaðist þetta fyrirbrigði þannig að tekið var að segja sagnir af fleiri guðum og hetjum og að lokum einnig venjulegu fólki. Leikhúsfræðingar eru ekki alveg vissir um hvernig fyrstu leikritin hafa verið sett á svið, né um hvað þau hafa fjallað, en mikill fjöldi grískra vasa frá þessu tímabili eru skreyttir myndum úr leikritunum og koma sagnfræðingum þannig að miklu haldi. Vasarnir sýna að í upphafi hafa leiksýningarnar tengst frjósemisdýrkun en einmitt á því sviði hafa skógarpúkar gegnt allstóru hlutverki.
En þeir staðir þar sem leiksýningar voru, hafa margir varðveist fram á þennan dag og komið í ljós við uppgröft fornleifa. Það gildir t.d. um hið stóra Epidauros-leikhús frá því um 350 f.Kr. þar sem rými var fyrir 14.000 áhorfendur.