Marshall-áætlunin var bandarískt frumkvæði sem hafði það að leiðarljósi að byggja Vestur-Evrópu upp aftur eftir allar skemmdirnar sem orsökuðust af stríðrekstrinum í heimsstyrjöldinni síðari.
Áætluninni var hrint í framkvæmd árið 1948 og samkvæmt henni skyldi sjá 16 Evrópulöndum fyrir því sem samsvarar 30 billjónum íslenskra króna að núvirði.
Greiðslurnar skyldu dreifast á fjögur ár. Fjármununum var ætlað að standa straum af endurbyggingu og nútímavæðingu borga landanna, svo og innviðum og iðnaði.
Áætlunin var nefnd í höfuðið á utanríkisráðherra Bandaríkjanna, George C. Marshall. Þessi aðstoð Bandaríkjamanna átti þó ekki einungis rætur að rekja til fórnfýsi Bandaríkjamanna því sjálfir sáu þeir einnig fyrir sér að þeir gætu um leið hagnast af þessari rausnarlegu peningagjöf:
Þeir áttu sér nefnilega þá ósk heitasta að stöðva uppgang kommúnismans í Evrópu.
Hluta af fjárhagsaðstoð Bandaríkjanna var varið í að endurnýja dráttarvélaflota franskra bænda.
Mótleikur Bandaríkjamanna
Þegar heimsstyrjöldinni síðari var lokið hafði kommúnistaveldið Sovétríkin nefnilega öðlast yfirráð yfir stórum hluta af Mið- og Austur-Evrópu og komið að ríkisstjórnum sem voru þeim hliðhollar og hlýddu því sem Sovétmenn fóru fram á.
Mótleikur Bandaríkjamanna fólst í hinni svonefndu Marshall-áætlun sem ætlað var að reisa úr rústum efnahag Evrópulandanna. Marshall batt vonir við að áætlun hans gæti aukið velmegun í Vestur-Evrópu og að sama skapi styrkt viðskiptatengslin milli Evrópu og Bandaríkjanna.
Efnahagurinn aldrei sterkari
Áætlun Marshalls tókst jafnvel betur en á horfðist. Þegar svo framlögin hættu að berast frá Bandaríkjunum árið 1952 var efnahagur landanna sem tekið höfðu þátt í samstarfinu orðinn enn styrkari en verið hafði fyrir stríð.
Innleiðing Marshall-áætlunarinnar hefur oft verið sögð hafa markað upphafið að kalda stríðinu, sökum þess að andstæðir hagsmunir Vestur- og Austurveldanna, á stjórnmála- og efnahagssviðinu, hafi þá orðið öllum augljósir í fyrsta sinn.
Sumir sagnfræðingar ganga meira að segja svo langt að halda því fram að Marshall-áætlunin og samstarfið milli Bandaríkjanna og Evrópu hafi orðið kveikjan að stofnun varnarbandalagsins NATO árið 1949.