Fornleifafræði
Fyrir heilum þúsund árum boruðu Suður-Ameríkumenn göt á höfuðkúpuna til að létta þrýstingi af heilanum, t.d. vegna blóðsöfnunar.
Fornleifafræðingar við Suður-Connecticut-háskóla og Tulane-háskóla í New Orleans hafa rannsakað 411 höfuðkúpur sem fundust í grafreitum nálægt Guzco í Perú og í furðu mörgum fundust göt.
Höfuðkúpurnar sem rannsakaðar voru hafa verið opnaðar á árabilinu 1000 – 1400 e.Kr. og greinilegt er að tæknin hefur tekið framförum á þessu tímabili.
Á elstu höfuðkúpunum sáust þess engin merki að sárið hefði tekið að gróa og líklegast að aðgerðin hafi dregið fyrstu sjúklingana til dauða.
En engu að síður hefur aðgerðin verið gerð á furðu mörgum. Af þeim 411 höfuðkúpum sem rannsakaðar voru höfðu verið boruð göt í 66.
Í sumar höfuðkúpur hafði meira að segja verið borað oftar en einu sinni og á einni sáu vísindamennirnir ummerki eftir sjö aðgerðir.
Um 1400 virðast um 90% sjúklinganna hafa lifað af og bólga í sárinu orðin mun sjaldgæfari. Með smyrslum og jurtum sem innihalda efnið saponín, hefur verið unnt að hafa hemil á bólgum. Inkar þekktu líka deyfandi og róandi áhrif kókalaufa og tóbaks og einnig er hugsanlegt að sjúklingarnir hafi verið látnir drekka sig fulla af maísöli fyrir aðgerðina.
Skurðlæknarnir forðuðust að opna höfuðkúpuna þar sem hættan var mest og þeir lærðu líka að skafa beinið í stað þess að höggva.
Sjúklingarnir hafa að líkindum verið stríðsmenn sem orðið höfðu fyrir höfuðhöggum. Gatið var oft á miðju höfði eða vinstra megin, þar sem rétthentur andstæðingur hefði getað komið að höggi.