Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Sérsveitarhermaðurinn Ehud Barak barðist með hnífum, hríðskotaskammbyssu og í kvenklæðum gegn fjandmönnum Ísraela um áratugaskeið en þrátt fyrir þessa fortíð reyndi hann að skapa varanlegan frið við Palestínumenn þegar hann varð forsætisráðherra.

BIRT: 15/07/2024

Þann 9. maí 1972 bíða fjórir palestínskir flugræningjar eftir gíslaskiptum. Óttinn og hitinn eru að yfirbuga farþegana sem nú eru fangar flugræningjanna um borð í Boeing 707-þotunni.

 

Vélin er frá belgíska flugfélaginu Sabena og stendur nú afsíðis á lendingarbraut í Lod í Ísrael.

 

Flugræningjarnir eru meðlimir hryðjuverkasamtakanna Svarta september og eftir sólarhringsbið eiga þeir nú loksins að fá fangelsaða félaga sína um borð – halda þeir.

 

Flugræningjarnir kröfðust þess að tæknimenn flugvallarins notuðu biðtímann til að búa þotuna undir flug til Kaíró.

 

Skyndilega birtast rútur sem ekið er að vélinni og út stíga fjölmargir palestínskir fangar. Sumir þeirra veifa sigri hrósandi þar sem þeir ganga að flugvélinni.

 

Það sem flugræningjarnir vita ekki er að fangarnir eru dulbúnir ísraelskir hermenn og tæknimenn flugvallarins sem eru að störfum við vélina eru allir sérsveitarmenn í svonefndri Sayeret Matkal-deild hersins.

 

Sú stund nálgast nú óðfluga að yfirmaður þeirra, Ehud Barak, þrítugur að aldri, gefi skipun um árás. Hér fáum við nú innsýn í æviferil eins merkasta leiðtoga ísraelska hersins ásamt skýringum á ástæðum þess að hann telur Ísraelsríki verða að gera friðarsamninga við Palestínumenn.

 

Barak tekinn til fanga

Ehud Barak fæddist 1942 og upplifði hina blóðugu fæðingu Ísraelsríkis. Hann ólst upp á samyrkjubúi gyðinga um 40 km norður af Tel Aviv og var ekki nema sex ára þegar gyðingar í Palestínu unnu sigur á aröbum í skammvinnu stríði við stofnun Ísraelsríkis 1948.

 

Afleiðingar þessa stríðs urðu þær að um 700.000 af arabískumælandi íbúum landsins – Palestínumönnum – flýðu til Gazastrandarinnar, Líbanons, Sýrlands og Jórdaníu.

 

Þaðan héldu vopnaðir hópar áfram árásum gegn nýstofnuðum ísraelskum her og ekki leið á löngu áður en hryðjuverkastarfsemi gegn almennum borgurum fylgdi í kjölfarið.

 

Þetta kann að hafa verið ástæða þess að strax á unglingsárum fann Ehud Barak sterka þörf fyrir að geta varið sig sjálfur – svo sterka reyndar að hann lærði á eigin spýtur að stinga upp lásinn á vopnageymslu samyrkjubúsins og líka að vopnageymslu hersins í nágrenninu.

 

Ásamt nokkrum skólafélögum kom hann sér upp litlum vopnalager og minnstu munaði að hann væri rekinn úr skóla þegar upp komst.

Hermennska var sett á stundaskrána

Föðuramma og afi Baraks voru myrt í gyðingaofsóknum í Litháen 1912. Eins og margir aðrir gyðingar á flótta undan trúarofstæki settist faðir hans að í Palestínu árið 1932, landsvæði í Miðausturlöndum sem Bretar tóku á sitt vald eftir upplausn Ottómanveldisins. En gyðingar gátu ekki verið öruggir þar heldur.

 

Þorp þeirra lentu stundum í árásum arabískra nágranna sem óttuðust að gyðingar myndu smám saman taka völdin í Palestínu. Í seinni heimsstyrjöldinni missti Barak líka móðurafa og ömmu sem lentu í gasklefum Þjóðverja í Treblinka.

 

Þessi áföll lituðu barnæsku Baraks. Strax á barnsaldri hreifst hann af Palmach-varðliðunum sem vörðu samyrkjubú gyðinga.

 

„Ég var nýlega orðinn fimm ára þegar ég sá stóran hóp Palmach-stráka og stelpna koma niður húshliðina í reipum og sjálfstraustið geislaði af þeim.“

 

Margir kennarar Baraks tóku þátt í bardögunum við stofnun Ísraelsríkis ári 1948. Í skólanum á samyrkjubúinu var honum ekki aðeins kennt að skrifa og reikna, heldur líka að lesa landakort og rata um hæðótt landslag. Það var ekki fyrr en seinna sem hann áttaði sig á því að kennararnir höfðu meðvitað búið börnin undir hermennsku.

Þegar hinn ungi Barak var kvaddur í herinn 1959, var hann kallaður á fund hjá yfirmanni í sérsveitunum. Aftur var tilefnið þessi vafasama fortíð.

 

Yfirmaðurinn þekkti einn af kennurum Baraks og spurði hranalega:

 

„Er það satt að þú getir stungið upp lása og kunnir líka að lesa kort og rata út frá þeim?“

 

Barak svaraði hvoru tveggja játandi og skömmu síðar var hann tekinn inn í sérstaka deild sem aðeins fáeinir hershöfðingjar þekktu til: Sayeret Matkal. Þar var fingralipurð talin geta komið sér vel.

 

Líkt og SAS-sveitir Breta, átti þessi sérsveit að vera fær um að leysa verkefni við erfiðustu mögulegu aðstæður og þjálfunin var hörð í samræmi við það – ekki aðeins líkamlega heldur líka andlega. Eldsnemma að morgni vaknaði Ehud Barak við hróp á arabísku.

 

„Yfir mér stóð strákur sem hafði hulið andlit sitt,“ skrifaði Barak síðar í endurminningum sínum.

 

Örskömmu síðar stóð hann, ásamt öllum félögum sínum, handjárnaður og kominn með poka yfir höfuðið.

 

Hjartað hamaðist í brjóstinu þegar þeir voru fluttir í bíl að byggingu þar sem þeir voru yfirheyrðir sólarhringum saman af mönnum sem höfðu áberandi arabískan hreim.

 

„Þú svarar á endanum, það gerið þið allir,“ hrópaði einn þeirra og kýldi Barak í andlitið. Fangarnir fengu ekki að sofa og voru pyntaðir reglubundið en enginn nýliðanna í Sayeret Matkal fékkst til að gefa upp neitt annað en nafn og herþjónustunúmer.

 

Á endanum tóku fangaverðirnir af sér grímurnar og þá kom í ljós að það voru yfirmenn deildarinnar sem höfðu haldið nýliðunum föngnum – og að pyntingarnar voru lokaprófið í þjálfuninni. Ehud Barak og félagar hans höfðu staðist prófið með glans.

Ungur Ehud Barak í heimsókn hjá fjölskyldunni í leyfi frá hernum.

Sabena-aðgerðin hefst

Minnstu munaði að fyrsta aðgerðin undir stjórn Baraks endaði með skelfingu. Hann fór þá ásamt fáeinum öðrum yfir landamærin að Sýrlandi í skjóli nætur til að setja upp hlerunarbúnað við sýrlenska herstöð.

 

En þegar mennirnir nálguðust herstöðina rákust þeir óvænt á þrjá varðmenn sem þó reyndust allir vera sofandi. Einmitt þá var kallað á einn þeirra í talstöðinni. En heppnin var með og enginn varðanna vaknaði. Barak skipaði mönnum sínum að halda áfram og við heimkomuna var honum hrósað í hástert fyrir forystuhæfni sína.

 

Sayeret Matkal var fyrst beitt í stríði í sex daga stríðinu 1967 og í einum leiðangri sínum náðu Barak og menn hans að taka egypskan hershöfðingja til fanga. Þessu stríði lauk með yfirburðasigri Ísraels yfir bandalagi Egypta, Sýrlendinga og Jórdana – en friður var þó síður en svo tryggður.

 

Undir forystu Yassers Arafat óx styrkur Frelsishreyfingar Palestínu, Fatah, óðfluga. Fatah tók að þjálfa herskáa múslima víðs vegar að frá Mið-Austurlöndum og undirbúa þá fyrir hryðjuverkaárásir á Ísrael.

 

Ísrael brást við með því að senda sveitir Sayeret Matkal til að eyðileggja þjálfunarbúðir Fatah. Þann 1. apríl 1971 var Barak verðlaunaður fyrir frammistöðu sína. Hann fékk titilinn undirofursti og var gerður að æðsta yfirmanni sérsveitarinnar.

 

Þess vegna var það Ehud Barak sem 8. maí 1972 fékk boð um að Sabena 571 hefði verið rænt. Undirofurstinn hófst strax handa við að gera áætlun um djarfmannlega björgunaraðgerð.

 

„Við vissum einungis að það væru um 100 farþegar um borð,“ skrifaði Barak síðar.

 

Hryðjuverkamennirnir kröfðust frelsunar 300 arabískra fanga ásamt því að fá að flytja þá til Kaíró í Sabena-vélinni.

 

Barak skipti föngunum út fyrir ísraelska hermenn í fangabúningum og ætlunin var að koma þeirra á flugvöllinn nægði til að dreifa athygli flugræningjanna nógu lengi til að Sayeret Matkal og sérþjálfaðir lögreglumenn næðu að komast inn í vélina.

 

Barak og hans menn höfðu klæðst þeim hvítu búningum sem tæknimenn á flugvellinum báru almennt og gengið í átt að vélinni. Áður en hópurinn kom of nálægt, fóru tveir flugræningjanna út á flugbrautina og skipuðu svo fyrir að leitað yrði að vopnum á öllum.

 

Þótt allir Ísraelsmennirnir 16 bæru á sér Beretta-skammbyssur duldust þær allar þeim starfsmanni Rauða-krossins sem framkvæmdi vopnaleitina. Þegar hryðjuverkamennirnir voru aftur komnir inn í flugvélina og höfðu lokað á eftir sér, gat árásin hafist.

 

Hvítir englar frelsa gísla

Barak skipti mönnum sínum í fimm hópa. Einn stakur sérsveitarmaður átti að fara inn um lúgu við nefhjól vélarinnar og komast þannig upp í flugstjórnarklefann, einn hópur átti að fara upp að framdyrum flugvélarinnar í stiga en annar hópur að ráðast inn um aftari dyrnar.

 

Til viðbótar áttu svo tveir hópar að brjótast inn um neyðarútgangana ofan á vængjunum. Þegar rúturnar með fangaklæddu mönnunum námu staðar á flugbrautinni, blés Barak til atlögu. Hann stóð sjálfur undir öðrum vængnum og sá þaðan menn sína brjótast inn um bæði fram- og afturdyr.

 

En við neyðarútganginn yfir öðrum vængnum gerðist ekkert.

 

„Maðurinn stóð kyrr við útganginn og titraði. Ég barði fast í bakið á honum og öskraði „áfram með þig“,“ sagði Barak síðar.

 

Sekúndurnar gátu virst klukkutímar en svo réðist maðurinn til inngöngu. Ísraelsmennirnir flæddu inn í flugvélina og stóðu strax augliti til auglitis við fyrsta flugræningjann sem lögreglumaður skaut til bana. Leiðtogi þeirra var í flugstjórnarklefanum og hermaðurinn sem kom þar upp, særði hann.

 

Hinum særða tókst að komast inn á salernið áður en hann var skotinn til bana gegnum hurðina. Ísraelskur hermaður sá að kona í hópi flugræningjanna var með sjálfsmorðssprengjubelti.

 

Hann kastaði sér á hana og greip með annarri hendi yfir sprengibúnaðinn en greip hinni aftur fyrir bak konunnar og losaði rafhlöðuna.

 

Fjórði flugræninginn var kona sem nú lá í ganginum milli sætanna og hélt fast um handsprengju. Einn mannanna í Sayeret Matkal náði að rífa sprengjuna af henni og hélt pinnanum inni með fingrinum til að koma í veg fyrir að hún springi. Aðgerðinni var lokið á augnabliki. Þrír gíslanna höfðu særst og einn þeirra lést síðar af sárum sínum.

 

Einn af mönnum Baraks særðist á handlegg. Það var reyndar enginn annar en Benjamin Netanyahu, síðar forsætisráðherra.

 

Daginn eftir skýrðu ísraelsk dagblöð frá því að „hvítklæddir englar“ hefðu frelsað farþega og áhöfn vélarinnar. Um tilvist leynideildarinnar sem framkvæmdi aðgerðina, vissu aðeins fáir.

Vopnaður skammbyssu stendur Ehud Barak hjá líki fallins flugræningja meðan gíslarnir í Sabena 571 eru leiddir frá borði.

Barak í kvenklæðum

Sayeret Matkal gat ekki komið í veg fyrir öll hryðjuverk. Sama ár tókst öðrum meðlimum Svarta september að taka 12 íþróttamenn og konur ásamt þjálfurum í gíslingu á Ólympíuleikunum í München.

 

Ísraelar buðust til að senda Barak og Sayered Matkal til München en vestur-þýsk stjórnvöld kusu að láta sína eigin lögreglu sjá um frelsunaraðgerðina. Þýsku lögreglumennirnir voru hins vegar ekki þjálfaðir í aðgerðum gegn hryðjuverkamönnum og allir 12 gíslarnir létu lífið í skotbardögum í flugstöðinni.

 

Ekki löngu síðar sneri ísraelska leyniþjónustan Mossad sér til Baraks og spurði: Gæti Sayered Matkal ráðist til atlögu í þremur íbúðum í Beirút, höfuðborg Líbanons? Þar höfðust við þrír leiðtogar Svarta september og þeir höfðu allir komið að skipulagningu gíslatökunnar í München. Svarið var einfalt já.

 

Barak varð strax ljóst að ekki kæmi til greina að sprengja byggingarnar í loft upp, þar eð það myndi kosta of marga óbreytta borgara lífið. Hann fór sjálfur með hóp hermanna úr Sayered Matkal til Líbanons. Hermennirnir, 16 að tölu, bjuggust sem ferðamenn og þeir voru fluttir á gúmmíbátum inn að strönd Líbanons í skjóli nætur.

 

Í landi tóku útsendarar Mossad á móti þeim og keyrðu þá að íbúðunum þremur sem Mossadmenn fylgdust með.

 

Barak sem ekki er hávaxinn var í kvenklæðum. Með höndina á handlegg liðsfélaga síns gengu þeir í áttina að einni íbúðinni en gengu þá beint í flasið á tveimur lögreglumönnum.

 

„Láttu sem ekkert sé,“ hvíslaði Barak. Á eftir fylgdu nokkrar taugatrekkjandi sekúndur í skini götuljósanna.

 

„Við gengum bara rétt fram hjá þeim,“ skrifaði Barak síðar. Hvorugur lögreglumaðurinn sá nokkuð athugavert við þessa túrista.

 

Með vélbyssur innanklæða

Loks voru sérsveitarmennirnir tilbúnir að ráðast inn í íbúðirnar. Sumir þeirra fóru upp að íbúðunum þar sem ráðast átti til atlögu en Barak hélt vörð á gangstéttinni ásamt öðrum. Báðir voru klæddir sem konur og þeir reyndu að láta líta svo út að þær stæðu þarna og biðu eftir eiginmönnum sínum.

 

Mossad hafði varað við því að vopnaðir verðir myndu gæta hryðjuverkaleiðtoganna en þessa nótt var engan að sjá. Meðan Barak beið eftir boðum um að menn hans væru tilbúnir við allar íbúðirnar gerðist óvænt atvik.

 

Rauður Renault nam staðar fyrir utan og út steig dökkhærður maður.

 

„Hann dró upp skammbyssu og lagði af stað í áttina til okkar. Ég man enn undrunarsvipinn á honum, þegar við, tvær ungar konur, flettum frá okkur kápunum og brugðum upp uzi-vélbyssunum.“

 

Þeir skutu úr þessum smágerðu vélbyssum og særðu manninn en honum tókst að fleygja sér í skjól bak við bílinn. Árásin sem hafði átt að koma algerlega á óvart var nú á góðri leið með að mistakast.

 

Neðan af götunni sá Barak ljósin kvikna í öllum þremur íbúðunum sem til stóð að ráðast inn.

 

„Hryðjuverkamennirnir eru alla vega heima,“ hugsaði hann með sjálfum sér.

 

Um leið heyrði hann í það minnsta eina sprengingu frá íbúðardyrum ofar í blokkinni og á eftir fylgdi skothríð í íbúðinni. Árásin var hafin. Nú kom líka líbanskur lögreglubíll á miklum hraða niður götuna. Barak og félagi hans skutu á bílinn og það gerðu líka nokkrir Sayeret Matkal-liðar sem höfðu verið í varðstöðum niðri á götunni.

 

Lögreglubíllinn skall á rauða Renault-bílnum og lögreglumennirnir skriðu í skjól við hliðina á særða manninum. Meðan á þessu stóð höfðu árásarhóparnir þrír náð að ráðast inn í allar íbúðirnar þrjár og skjóta alla þrjá hryðjuverkaleiðtogana til bana.

 

Nú reið á að koma sér burtu áður en vopnaðir Palestínumenn og líbanska lögreglan skærust í leikinn.

 

Annar lögreglubíll nálgaðist meðan sérsveitarmennirnir voru að koma sér út úr húsinu. Félagar þeirra á götunni mættu þeim bíl líka með skothríð. Skammt frá húsinu biðu Mossad-menn með bíla og fluttu þá til baka niður á ströndina. Þar tóku þeir gúmmíbátana og náðu heilu og höldnu út í herskipið sem hafði flutt þá upp að strönd Líbanons.

 

Heim í stríð

Morguninn eftir vaknaði Barak heima hjá sér – enn með andlitsfarða næturinnar framan í sér. Konan hans hristi höfuðið þegar hún sá hann en vissi betur en svo að spyrja nánar um ástæðuna.

 

Fáeinum vikum síðar var Barak, nú orðinn 31 árs, leystur af sem yfirmaður Sayeret Matkal. Reyndustu sérsveitarmenn deildarinnar skiptust á um að gegna þeirri stöðu. Barak sótti um leyfi frá störfum til að lesa hagfræði við Stanfordháskóla í Kaliforníu og fékk leyfið snemma árs 1973.

 

Námsdvölin varð þó stutt. Tæpum sex vikum eftir komuna til Bandaríkjanna héldu gyðingar mikilvægustu trúarhátíð ársins, Yom kippur. Hátíðahöld Baraks enduðu þó snögglega þegar síminn hringdi.

 

„Það er komið stríð hérna heima,“ sagði röddin í símanum. Bandalag Egypta, Sýrlendinga og fleiri múslimaríkja hafði ráðist á Ísrael og Barak þurfti nú í skyndi að finna sér flug með stefnu á Miðjarðarhafssvæðið.

 

Á leiðinni náði hann sambandi við einn af félögum sínum í Sayeret Matkal og fékk þannig nánari skýringar á atburðunum.

 

„Þetta er gríðarlega alvarlegt, Ehud. Sýrlenskir skriðdrekar nálgast óðfluga ytri varnir okkar við Nafakh,“ útskýrði félagi hans og átti þar við ísraelskar varðstöðvar á Gólanhæðum sem hafa mikla hernaðarlega þýðingu.

Ehud Barak með sérsveit sína.

Barak réðst ítrekað gegn hryðjuverkamönnum

Frá stofnun Ísraelsríkis 1948 hefur þar ríkt herskylda fyrir bæði kynin. Þegar Barak var kallaður í herinn 1959 var herskyldan 30 mánuðir fyrir karlmenn en hann eyddi næstu 35 árum í hernum.

 

1967: Sex daga stríðið

Í sex daga stríðinu er Barak í forystu fyrir lítilli könnunarsveit. Ísraelsmenn komu fjandmönnum sínum, Egyptum, Sýrlendingum og Jórdönum svo gjörsamlega á óvart að þeir unnu sigur á innan við viku.

 

1972: Gíslataka í Ísrael

Sem yfirmaður Sayeret Matkal stýrir Barak frelsunarinnrásinni í Sabena 571 á flugvellinum í Lod í Ísrael. Hann stóð sjálfur undir öðrum vængnum þegar hann blés til atlögu.

 

1973: Aftökur í Beirút

Sem hefnd fyrir hryðjuverkaárásina á Ólympíufara Ísraels 1972 er Barak sendur með sérsveit sína til Beirút til að taka af lífi nokkra af skipuleggjendunum. Barak klæðist kvenfötum og hylur vélbyssuna undir kápunni.

 

1973: Yom kippur-stríðið

Barak er settur yfir skriðdrekasveit eftir að arabaríki gera óvænta árás á Ísrael. Um tíma virðist Ísraelsríki riða til falls en eftir tæpar þrjár vikur stendur ísraelski herinn uppi sem sigurvegari.

 

1976: Gíslataka í Úganda

Sem yfirmaður sérverkefna ísraelska hersins skipuleggur Barak djarfa frelsunaráætlun til að frelsa gyðingana sem palestínskir hryðjuverkamenn halda í gíslingu á Entebbe-flugvellinum í Úganda.

 

1991: Barak hershöfðingi

Ehud Barak er skipaður yfirmaður herforingjaráðs Ísraelsríkis.

 

1995: Úr hernum

Barak flytur sig yfir í stjórnmálin. Ári síðar verður hann leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Ísraels 1999.

 

Í flugskeytaregni

Kominn heim til Ísraels var Barak settur yfir skriðdrekadeild sem var send á mesta mögulegum hraða út á Sínaí-eyðimörkina sem verið hafði eins konar einskismannsland milli Egyptalands og Ísraels. Þar hafði fjölmennur egypskur her umkringt hóp fallhlífahermanna.

 

Með skriðdrekasveit Baraks fylgdu brynvarðir flutningabílar til að flytja fallhlífahermennina og í næturmyrkrinu reyndi Barak nú að ákvarða staðsetningu landa sinna og ná til þeirra.

 

Hann náði talstöðvarsambandi við yfirmann fallhlífasveitarinnar og sá útskýrði alvöru málsins.

 

„Þeir eru mjög nálægt og farnir að skjóta á okkur, verið eins fljótir og þið getið.“

 

En það var ekki fyrr en skriðdrekarnir voru komnir í nokkur hundruð metra fjarlægð sem Barak koma auga á fallhlífasveitina.

 

„Mennirnir lágu og skýldu sér alls staðar þar sem þeir gátu fundið eitthvert skjól, bak við runna eða litlar sandöldur og Egyptarnir skutu að þeim á allt niður í nokkurra metra færi,“ sagði Barak.

 

Hann skipaði brynvörðu flutningabílunum fram til að bjarga hermönnunum.

 

„Sprengja sprakk allt í einu kannski 18-20 metrum framan við mig, fleiri sprengjum rigndi niður kringum skriðdrekana. Kúlur skullu bæði á hlið skriðdreka míns og turninum.“

 

Skothríðin kom frá þremur sjálfstýrðum fallbyssudrekum. Barak flutti sig upp á skriðdrekann til að öðlast betri yfirsýn.

 

„Samtímis tóku fótgönguliðarnir að skjóta að okkur sjálfstýrðum sprengiflaugum. Minnstu munaði að ein slík hæfði okkur og ég sá þræði úr sjálfstýribúnaðinum sem sátu eftir á turni skriðdrekans,“ skrifaði hann í endurminningum sínum.

 

Á næstu mínútum urðu tveir ísraelskir skriðdrekar fyrir skotum og með nokkurra mínútna millibili fjölgaði þeim brynvörðu farartækjum sem voru úr leik. Þessi blóðugu átök í eyðimörkinni grófu sig í minni Baraks.

 

„Þetta var lykt sem maður gleymir aldrei eftir að hafa fundið hana, fnykurinn af steiktu og brenndu holdi manna.“

 

En þrátt fyrir mikið tjón og mannfall tókst skriðdrekasveit Baraks hægt og sígandi að vinna bug á skriðdrekum andstæðinganna og þar á eftir réðist hann á skotgrafir Egypta. Með því að keyra skriðdrekana fram og aftur yfir skotgrafirnar féllu þær að endingu saman og grófu egypsku fótgönguliðana lifandi.

 

Úgandaleiðangurinn

Yom kippur-stríðinu lauk eftir 19 daga og aftur með sigri Ísraels. Þetta varð síðast stríðið með beinni þátttöku Baraks. Eftir þetta gegndi hann yfirmannsstöðum sínum að mestu við skrifborðið en hann var engu að síður áfram viðriðinn marga af dramatískustu viðburðum í sögu Ísraelsríkis.

 

Árið 1976 átti hann þátt í skipulagningu afar dirfskufullrar björgunaraðgerðar um 3.500 km suður af Ísrael. Ásamt yfirmanni fallhlífasveitanna, Dans Shomoron majór, skipulagði hann frelsunaraðgerð á Entebbe-flugvelli í Úganda.

 

Þar höfðu palestínskir hryðjuverkamenn fundið öruggan stað til að semja um frelsun 53 nafngreindra félaga sinna. Aðgerðin tókst með afbrigðum vel og með henni tókst að bjarga fleiri en 100 ísraelskum gíslum.

 

Aðgerð Entebbe, Úganda, 4. júlí 1976:

Barak skipulagði djarflegasta björgunarleiðangur Ísraela

Hvernig er unnt að drepa 10 flugræningja sem eru í 3.500 km fjarlægð og varðir af heilum her Afríkumanna – án þess að gíslarnir í flugvélinni skaðist. Svarið þurfti Barak að finna í snarhasti, þegar palestínskir hryðjuverkamenn fengu skjól hjá Idi Amin, einræðisherra í Úganda, árið 1976. Niðurstaðan varð sú að seta Mercedes Benz upp í flugvél og skálda upp forsetaheimsókn.

Flugstjórinn slekkur á hreyflum

Ljóslausar og nær hljóðlausar lenda fjórar Hercules-flutningavélar á Entebbe-flugvelli í skjóli myrkurs. Um borð leynast nærri 100 ísraelskir sérsveitarhermenn undir stjórn Dans Shomron.

Bardagi við flugstöðina

Undir skothríð hermanna Úganda skáskutu Ísraelsmennirnir sér inn í flugstöðina og skotbardagi hófst milli þeirra og flugræningjanna. Örskömmu síðar voru sjö þeirra dauðir og gíslarnir frelsaðir.

Bróðir Netanyahu skotinn

Hermennirnir í tveimur síðari flutningavélunum ráðast á nýju flugstöðina og leggja hana undir sig. Í árás á flugturninn fellur eldri bróðir Benjamins Netanyahu, núverandi forsætisráðherra Ísraels.

Orrustuflugvélar Úganda eyðilagðar

Áður en Hercules-vélarnar hófu sig aftur á loft, kveiktu Ísraelsmenn í öllum orrustuflugvélum Úganda til að þær gætu ekki hafið eltingaleik.

 

Árangur

102 af 106 gíslum var bjargað. Þrír létu lífið í skotbardaganum og eina konu varð að skilja eftir þar eð hún hafði verið lögð inn á sjúkrahús. Í reiði sinni lét Idi Amin myrða hana skömmu síðar.

 

Barak skipulagði djarflegasta björgunarleiðangur Ísraela

Hvernig er unnt að drepa 10 flugræningja sem eru í 3.500 km fjarlægð og varðir af heilum her Afríkumanna – án þess að gíslarnir í flugvélinni skaðist. Svarið þurfti Barak að finna í snarhasti, þegar palestínskir hryðjuverkamenn fengu skjól hjá Idi Amin, einræðisherra í Úganda, árið 1976. Niðurstaðan varð sú að seta Mercedes Benz upp í flugvél og skálda upp forsetaheimsókn.

Flugstjórinn slekkur á hreyflum

Ljóslausar og nær hljóðlausar lenda fjórar Hercules-flutningavélar á Entebbe-flugvelli í skjóli myrkurs. Um borð leynast nærri 100 ísraelskir sérsveitarhermenn undir stjórn Dans Shomron.

Refskák: Idi Amin kemur

Í einni flugvélinni er svartur Mercedes Benz af sömu gerð og Idi Amin á sjálfur. Í fylgd jeppa er bílnum ekið í átt að gömlu flugstöðinni, þar sem gíslarnir eru lokaðir inni. En vörður stöðvar bílalestina áður en þangað er komið.

Skotbardagi við flugstöðina

Undir skothríð hermanna Úganda skáskutu Ísraelsmennirnir sér inn í flugstöðina og skotbardagi hófst milli þeirra og flugræningjanna. Örskömmu síðar voru sjö þeirra dauðir og gíslarnir frelsaðir.

Bróðir Netanyahu skotinn

Hermennirnir í tveimur síðari flutningavélunum ráðast á nýju flugstöðina og leggja hana undir sig. Í árás á flugturninn fellur eldri bróðir Benjamins Netanyahu, núverandi forsætisráðherra Ísraels.

Orrustuflugvélar Úganda eyðilagðar

Áður en Hercules-vélarnar hófu sig aftur á loft, kveiktu Ísraelsmenn í öllum orrustuflugvélum Úganda til að þær gætu ekki hafið eltingaleik.

 

Árangur

102 af 106 gíslum var bjargað. Þrír létu lífið í skotbardaganum og eina konu varð að skilja eftir þar eð hún hafði verið lögð inn á sjúkrahús. Í reiði sinni lét Idi Amin myrða hana skömmu síðar.

Á næstu árum stakk Barak nokkrum sinnum upp á því að láta myrða leiðtoga PLO, Yasser Arafat sem bar ábyrgð á fjöldamörgum hryðjuverkum gegn Ísrael en þessum tillögum var alltaf hafnað, vegna þess að til lengri tíma litið sáu stjórnvöld fyrir sér að Arafat yrði sá maður sem þyrfti að semja við og töldu engan annan möguleika í sjónmáli.

 

Þessi hófsömu öfl virtust á endanum hafa rétt fyrir sér, því 1988 féllst Arafat á að viðurkenna Ísrael sem ríki.

 

Í kjölfarið sammæltust samninganefndir Ísraels og Palestínumanna um að vinna að friðsamlegri sambúð þessara ólíku þjóða. Barak sem þá var orðinn yfirmaður herráðs Ísraels tók þátt í þessum viðræðum.

 

Eins og margir aðrir foringjar úr hernum fór Barak að taka þátt í stjórnmálum og 1995 skipaði Yitshak Rabin forsætisráðherra hann í stöðu innanríkisráðherra.

 

Þessi fyrrverandi innbrotsþjófur og sérsveitastjórnandi tók nú þátt í samningaviðræðum við marga af þeim leiðtogum PLO sem hann hafði sjálfur reynt að láta taka af lífi. Á fundi í Barcelona þetta ár stóðu Ehud Barak og Yasser Arafat skyndilega augliti til auglitis.

 

„Þjóðir okkar beggja hafa goldið átökin dýru verði. Það er kominn tími til að við finnum lausn á þessu máli,“ sagði Barak. Arafat lýsti sig sammála.

 

Undir stjórn Yitzhaks Rabin gerðu Ísraelsmenn hina svonefndu Oslóarsamninga sem meðal annars fólu í sér að Ísraelsher skyldi yfirgefa Gazaströndina og viðurkenningu á sjálfstjórn Palestínumanna. PLO fékk líka viðurkenningu sem samningsaðili fyrir hönd Palestínumanna.

 

Þessir samningar áttu eftir að kosta Yitzhak Rabin lífið.

 

Palestína skal vera sjálfstæð

Hægri öfgamenn í Ísrael litu nú á Rabin forsætisráðherra sem landráðamann sem ætlaði að selja heilagt land gyðinga með því að semja við hryðjuverkamenn.

 

Benjamin Nethanyahu, núverandi forsætisráðherra Ísraels, var meðal háværustu mótmælenda og gekk m.a. fremstur í táknrænni jarðarför Rabins, þar sem mótmælendur hrópuðu „Rabin skal deyja“.

 

Í nóvember 1995 skaut öfgamaður Rabin til bana þar sem hann hélt ræðu í Tel Aviv. Þar með stöðvuðust friðarviðræður við Palestínumenn.

 

Þegar Ehud Barak varð forsætisráðherra 1999 lofaði hann að halda verki Rabins áfram. Og í hlutverki leiðtoga Ísraels var hann reiðubúinn að veita Arafat miklar tilslakanir í skiptum fyrir frið.

 

Hann varð fyrsti leiðtogi Ísraelsmanna sem bauð Palestínumönnum sjálfstætt ríki á Vesturbakkanum og Gaza.

 

Jafnvel eftir hryðjuverkaárás Hamas 7. október sem kostaði um 1.200 Ísraela lífið, heldur Barak áfram að tala fyrir friði.

 

„Palestínumenn eiga að fá sitt eigið ríki. Við getum ekki innlimað þá í Ísrael, því gæti Ísrael eftir skamman tíma orðið múslimaríki og Ísraelsríki var stofnað til þess að gyðingar hefðu einn tiltekinn stað í veröldinni þar sem þeir gætu lifað í friði,“ sagði Barak nýlega í viðtali við Time Magazine.

Bill Clinton Bandaríkjaforseti stóð fyrir langvinnum friðarviðræðum milli Ehuds Barak (t.v.) og Yassers Arafat (t.h.) árið 2000.

Tóm vonbrigði í stjórnmálum

1999 lofaði nýkjörinn forsætisráðherra, Ehud Barak, að semja um frið við Palestínumenn innan árs. Það mistókst.

 

Sem leiðtogi verkamannaflokksins varð Ehud Barak forsætisráðherra Ísraels 1999. Hann batt enda á 17 ára hersetu í suðurhluta Líbanons og tók aftur upp friðarviðræðurnar sem Yassir Arafat, Shimon Perez og Yitzhak Rabin höfðu fengið Friðarverðlaun Nóbels fyrir.

 

Leiðtogi Palestínumanna reyndist þó kröfuharðari en Barak hafði gert ráð fyrir. Eftir á kenndi Bandaríkjaforseti Arafat um að svo fór sem fór.

 

„Það er sorglegt að Arafat skyldi misnota tækifærið til að mynda sjálfstætt ríki Palestínumanna árið 2000,“ skrifaði Bill Clinton í endurminningum sínum.

 

Leynistimpluð skjöl frá þessum viðræðum hafa síðar leitt í ljós að Barak bauð Arafat meira að segja hinn múslimska hluta Jerúsalem í skiptum fyrir frið.

 

Skömmu síðar hófst enn ein palestínsk Intifada (uppreisn) og ný hryðjuverkaalda reið yfir Ísrael og þá var Barak steypt af stóli. En hann gafst ekki upp. Hann sneri aftur í stjórnmálin 2009 sem varnarmálaráðherra í nýrri samsteypustjórn – og enn vildi hann ná friði við Palestínumenn.

 

En rétt eins og fyrr lét árangurinn á sér standa. Árið 2012 lagði hann blessun sína yfir átta daga hernaðaraðgerðir sem fólu í sér loftárásir á Gaza ásamt flugskeytaárásum. Skömmu síðar dró hann sig endanlega út úr stjórnmálum.

Meira um Ehud Barak

Shur & A. Halevi: Sayeret Matkal: The Greatest Operations of Israel’s Elite Commandos, Skyhorse, 2023.

 

Ehud Barak: My Country, My Life: Fighting for Israel, Searching for Peace, Macmillan, 2018.

 

HÖFUNDUR: BENJAMIN ALKAERSIG CHRISTENSEN

© Shutterstock,© Photography department – Government Press Office,© Gpo/AFP/Ritzau Scanpix,© National Archives Catalog, ID 42-WHPO-P77091-17a/Wikipedia

NÝJASTA NÝTT

Lifandi Saga

Hvenær fórum við að kyssast?

Maðurinn

Hvers vegna verður maður þreyttur eftir að hafa borðað?

Lifandi Saga

Hvers vegna eru til herra- og kvenreiðhjól?

Maðurinn

Lítið en mikilvægt atriði í uppeldinu getur haft mikil áhrif seinna á lífsleiðinni

Heilsa

Sérfræðingar í sykursýki: Jafnvel lítið magn af þessari tegund matar getur aukið hættuna um 15 prósent.

Maðurinn

Þú ert tveimur sekúndum frá því að springa úr reiði

Heilsa

Langvinnur hósti er ef til vill arfgengur

Tækni

Þvinguð ófrjósemisaðgerð átti að uppræta heimsk börn

Maðurinn

Hvernig meðhöndla menn kviðslit?

Heilsa

Ef til vill er mjög einföld skýring á svefnleysi þínu

Lifandi Saga

Hvenær fórum við að kyssast?

Maðurinn

Hvers vegna verður maður þreyttur eftir að hafa borðað?

Lifandi Saga

Hvers vegna eru til herra- og kvenreiðhjól?

Maðurinn

Lítið en mikilvægt atriði í uppeldinu getur haft mikil áhrif seinna á lífsleiðinni

Heilsa

Sérfræðingar í sykursýki: Jafnvel lítið magn af þessari tegund matar getur aukið hættuna um 15 prósent.

Maðurinn

Þú ert tveimur sekúndum frá því að springa úr reiði

Heilsa

Langvinnur hósti er ef til vill arfgengur

Tækni

Þvinguð ófrjósemisaðgerð átti að uppræta heimsk börn

Maðurinn

Hvernig meðhöndla menn kviðslit?

Heilsa

Ef til vill er mjög einföld skýring á svefnleysi þínu

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Maðurinn

Gott nám leiðir af sér stærri heila

Maðurinn

Gott nám leiðir af sér stærri heila

Heilsa

Vinsælt megrunarlyf ef til vill í morgunmatnum þínum

Heilsa

Vinsælt megrunarlyf ef til vill í morgunmatnum þínum

Vinsælast

1

Heilsa

Sérfræðingar í sykursýki: Jafnvel lítið magn af þessari tegund matar getur aukið hættuna um 15 prósent.

2

Maðurinn

Lítið en mikilvægt atriði í uppeldinu getur haft mikil áhrif seinna á lífsleiðinni

3

Heilsa

Ef til vill er mjög einföld skýring á svefnleysi þínu

4

Heilsa

Langvinnur hósti er ef til vill arfgengur

5

Maðurinn

Hvernig meðhöndla menn kviðslit?

6

Tækni

Þvinguð ófrjósemisaðgerð átti að uppræta heimsk börn

Lifandi Saga

Morð framin með eitri ýttu undir löglega hjónaskilnaði

Heilsa

Vísindamenn: Þetta er ástæðan fyrir því að líkami þinn verður stöðugt viðkvæmari fyrir húðkrabbameini

Lifandi Saga

Klósett sökkti kafbáti 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.