Meðal fyrstu Vesturlandabúa sem settust að í Kína var ítalski jesúítinn Matteo Ricci, sem þangað kom í lok 16. aldar. Hann kynnti bæði vísindi og trúarbrögð Vesturlanda við keisarahirðina. Að tillögu Wanlis keisara teiknaði Ricci árið 1602 landakort, hið fyrsta í Kína sem sýndi bæði austrið og vestrið. Á meira en 5 fermetra blað úr viðkvæmum ríspappír teiknaði Ricci öll heimsins lönd. Hann bæði teiknaði einkenni landa og lýsti þeim með orðum og skorti greinilega ekki hugmyndaflug.
T.d. kvað hann stórt hérað í Norður-Rússlandi vera byggt dvergum sem ekki væru nema fet á hæð. „Trönur veiða dvergana og þeir þurfa sífellt að leita skjóls í holum“, skrifaði Ricci. En það kom líka fyrir að dvergarnir færu „ríðandi á geitum til að brjóta egg óvinanna“.
Samkvæmt korti Riccis voru vesturlandabúar vel að sér í stjörnuspeki og heimspeki og ekki þarf að koma á óvart að Kínverjar væru „frægir fyrir glæsilega menningu“. Auk þess að kunna að sigla milli skers og báru var Ricci dugnaðarforkur og gaf bæði út vísindarit og boðorðin tíu á kínversku. Stofnun keypti hið einstæða heimskort hans fyrir milljón dollara árið 2009.