Hláturgas (N2O) er ein öflugasta gróðurhúsalofttegund sem þekkist. Hingað til hafa vísindamenn talið að hláturgas myndaðist lífrænt þegar bakteríur brjóta niður lífrænt efni í sjó eða jarðvegi. En nú hafa bandarískir vísindamenn sér til undrunar uppgötvað að hláturgas getur einnig myndast í sjálfstæðu efnaferli.
Þetta „kemíska“ hláturgas fundu vísindamennirnir þegar þeir rannsökuðu afar salt stöðuvatn, Don Juan, á Suðurskautslandinu. Seltan í vatninu er 40% og þetta litla og grunna stöðuvatn er þar með saltasta vatn heims. Til samanburðar er Dauðahafið „aðeins“ 30% salt. Hláturgasið í Don Juan-vatni myndast í efnahvörfum milli nítrítríks saltvatns og gosbergs sem inniheldur járn. Vísindamennirnir hjá Georgíuháskóla telja þessi einföldu efnahvörf að líkindum eiga sér stað víða annars staðar.
Hláturgas er um 300 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur og þessi nýja þekking gæti leitt til betri skilnings á hinni hnattrænu hlýnun.