Stjörnufræðingar frá NASA og Evrópsku geimferðastofnuninni (ESA) hafa gert stórkostlega uppgötvun í 380 billjón kílómetra fjarlægð.
Þeir hafa komið auga á nýja plánetu sem svipar til jarðar deilir hefur því ýmsar forsendur fyrir því að þar geti hugsanlega hýst líf.
Plánetan er í 40 ljósára fjarlægð. Þetta þýðir að ljósið sem gerir vísindamönnum kleift að fylgjast með plánetunni er frá árinu 1984.
Eins heit og í hitabylgju á jörðinni
Plánetan hefur fengið heitið Gliese 12 b. Hún er á stærð við Venus og þar með einungis örlítið smærri en jörðin. Svo virðist sem hitastigið gæti verið um 42 stig sem vissulega er nokkrum mun hlýrra en hér.
Hjá NASA segja menn plánetuna þar með vera þá fjarplánetu sem mest líkist jörðinni varðandi stærð og hitastig af þeim sem fundist hafa.
Gliese 12 b er „jarðlík“ pláneta en það felur m.a. í sér að þetta er klapparpláneta með fast yfirborð eins og hér er, öfugt við t.d. gasplánetur á borð við Júpíter og Satúrnus.
Vísindamenn NASA og ESA segja fræðilega mögulegt að á plánetunni séu heppilegar aðstæður til að lífverur geti þrifist.
Til þess þarf þó rétta gerð gufuhvolfs og heppilega fjarlægð frá stjörnunni.
Hvort tveggja er óþekkt en gæti leitt til þess að hitastig væri mun hærra eða mun lægra.
Lífvænlegast langt í burtu
Lífsskilyrði eru misjöfn í stjörnuþoku okkar. Líkurnar á að finna líf eru mestar í belti í meira en 7.000 ljósára fjarlægð frá miðju Vetrarbrautarinnar.
1. Sprengistjörnur dauðhreinsa plánetur
Innst í stjörnuþokunni, út að 7.000 ljósára fjarlægð frá miðjunni eru lífskjörin hörð. Stjörnur liggja þétt og lífverur væru stöðugt í hættu fyrir ákafri geislun frá sprengistjörnum.
2. Þung frumefni skapa kjöraðstæður
Í breiðu belti (hér grænleitt) í 7.000 til 26.000 ljósára fjarlægð frá miðju Vetrarbrautarinnar hefur verið nóg af sprengistjörnum til að leggja til þung frumefni í klapparplánetur – en ekki svo mikið að það hafi útrýmt öllu lífi.
3. Við búum í friðsamlegu úthverfi
Sólkerfi okkar er í útjaðri þessa byggilega beltis, 26.000 ljósár frá miðju. Hér getur líf kviknað og dafnað en að líkindum er langt milli lífberandi hnatta á þessu svæði.
4. Skortur á stjörnum í útjaðrinum
Í útjaðri Vetrarbrautarinnar, í meira en 26.000 ljósára fjarlægð frá miðjunni, eru fáar stjörnur og enn færri plánetur. Á þessu svæði hefur verið lítið um sprengistjörnur en þær eru forsenda fyrir myndun klapparplánetna þar sem líf getur kviknað.
Á Gliese 12 b gæti þannig verið að finna heppilegt gufuhvolf, alls ekkert gufuhvolf eða kannski gufuhvolf af allt annarri gerð en þekkist í sólkerfi okkar.
Möguleikar til lífs byggjast líka á fjarlægð frá móðurstjörnunni.
Plánetan má hvorki vera of nálægt né of langt frá henni ef þar eiga að vera möguleikar til lífs. Sé plánetan of nálægt stjörnunni verður of heitt en sé hún í of mikilli fjarlægð verður of kalt, segir í rannsókninni.
Jörðin er einmitt byggileg m.a. vegna þess að hún er í réttri fjarlægð frá sólinni.
Hjá NASA segjast menn nú hafa í hyggju að rannsaka þessa fjarplánetu nánar og nota til þess James Webb-geimsjónaukann.