George Washington var ekki fyrsti forseti Bandaríkjanna og í raun réttri höfðu margir forsetar verið við völd í Bandaríkjunum áður en hann kom til sögunnar. Árið 1781 var John Hanson frá Maryland kjörinn forseti þegar hið svonefnda meginlandsþing lýsti Bandaríkin sem fullvalda þjóðríki. Á þjóðþinginu áttu sæti fulltrúar 13 ríkja og þegar þeir samþykktu fyrstu stjórnarskrá landsins, Sambandsskrána, var jafnframt samþykkt að forsetinn skyldi vera æðri öllum öðrum mönnum í Bandaríkjunum. Stjórnarskráin var í raun eins konar vináttuyfirlýsing milli þessara þrettán fyrrum bresku nýlendna sem sameinuðust um utanríkismálastefnu, indíánastefnu og fjármálakerfi.
Í Sambandsskránni var Bandaríkjunum þó ekki lýst sem einni þjóð, heldur var talað um samband sjálfstæðra ríkja, sem hvert um sig hefði víðtækt sjálfræði og samkvæmt skránni átti hvert ríki að varðveita „fullveldi sitt, frelsi og sjálfstæði“.
Hanson og næstu sex eftirmenn hans, sem allir voru kjörnir til eins árs í senn, voru því ekki nærri því eins voldugir og áhrifamiklir og seinni tíma forsetar. Forsetinn var fyrst og fremst eins konar sameiningartákn þingsins. Það var hins vegar ekki fyrr en árið 1789 sem Bandaríkin eignuðust raunverulegan þjóðhöfðingja, George Washington, en það ár eignuðust þeir stjórnarskrána, sem enn er í gildi í dag.