Tíu mánaða leiðangur rannsóknamiðstöðvarinnar Gran Acuífero Maya á hellakerfi í austurhluta Mexíkó, undir stjórn Roberts Schmittner, hefur nú skilað árangri.
Markmið kafaranna var að finna tengingu milli stóra hellakerfisins Sac Actun og smærri hella, Dos Ojos, og það hefur nú tekist.
Gríðarstórt hellakerfi
Þessi tvö hellakerfi hafa hingað til verið álitin alveg aðskilin, þótt margir hafi leitað að tengingum milli þeirra, þar á meðal Robert Schmittner sjálfur. Hann hefur rannsakað Sac Actun í 14 ár og áður fundið staði þar sem minna en metri skildi hellakerfin að.
Samkvæmt eldri mælingum voru Sac Actun-hellarnir alls ríflega 263 km að lengd, en þegar unnt er að bæta Dos Ojos-hellunum við, verður heildarlengdin 347 km og þetta þar með lengsta vatnshellakerfi heims.
Gnótt fjársjóða
Hellarnir greinast til allra átta og meðal þeirra eru hellar sem vatnið fyllir ekki til lofts.
Fyrir fornleifafræðinga er þetta hellakerfi í austurhluta Mexíkó nánast ótæmandi fjársjóður. Þarna er að finna ótal muni frá tímum Maya, eða frá því fyrir kringum 3.000 árum. Nefna má bæði leirmuni og guðagrímur.
Vatn hefur í tímans rás grafið undan sumum af borgum Maya og þær orðið jarðföllum að bráð og leifar þeirra því að finna í hellunum.
Auk menningarleifa hafa kafararnir fundið bein útdauðra dýra sem uppi voru á síðustu ísöld.
Mexíkó sundurgrafið af vatnshellum
347 krókótt göng gera Sac Actun að lengsta vatnshellakerfi heim.
358 hellakerfi, alls 1.400 km, er að finna bara í Austur-Mexíkó.