Napóleon hafði svo sannarlega ástæðu til að fagna sumarið 1807. Þessi keisari Frakklands og mesti herforingi allra tíma hafði þá nýverið borið sigur úr býtum gagnvart bæði Rússlandi og Prússlandi og í júlí þvingað bæði löndin til að undirrita niðurlægjandi friðarsáttmála sem gekk undir heitinu „Friðurinn í Tilsit“.
Napóleon fyrirskipaði þess vegna yfirmanni herráðsins að skipuleggja meiriháttar kanínuveiðar í suðurhluta Litháens fyrir sjálfan sig og æðstu hershöfðingja sína. Í stað þess að eyða óheyrilegum tíma í að setja upp gildrur til að veiða villtar kanínur bað Berthier menn sína um að kaupa tamdar kanínur hjá baltneskum bændum.
Ef marka má heimildir þess tíma tókst yfirmanni herráðsins að útvega hvorki meira né minna en 3.000 kanínur með þessu móti. Einn góðan veðurdag í júlí árið 1807 söfnuðust keisarinn og liðsforingjar hans saman á akri einum þar sem ætlunin var að skjóta dýrin.
Berthier fyrirskipaði mönnum sínum að opna búrin sem hýstu kanínurnar og vonaðist auðvitað til að þær hlypu í skelfingu í allar áttir til þess að keisarinn gæti skotið á þær.
Til eru heimildir sem herma að hundruð kanína hafi ráðist á Napóleon. Aðrir staðhæfa að þær hafi verið mörg þúsund talsins.
Kanínurnar með öllu óttalausar
Kanínurnar í búrunum voru vanar mönnum og tengdu þá við fæðu, svo í stað þess að stökkva á brott, hlupu þær rakleitt í átt að veiðimönnunum. Kanínurnar skiptu sér í tvær fylkingar, líkt og þær lytu stjórn smávaxinna hershöfðingja og hlupu til hliðanna, þannig að segja má að ráðist hafi verið á Napóleon og liðsforingja hans úr öllum áttum.
Frakkarnir fóru fyrst í stað að hlæja en þegar urmull af kanínum stökk í átt að keisaranum, líkt og feldi klædd flóðbylgja og byrjuðu að klifra upp eftir honum til að sníkja fæðu, hætti mönnunum að lítast á blikuna.
Napóleon sló til þeirra með písk sínum á meðan þeir sem fengnir höfðu verið til að flæma dýrin reyndu að gera gagnárás með prikum sínum. Allt kom fyrir ekki. Þessi valdamesti maður Evrópu stökk upp í hestakerru með kanínurnar á hælunum og það var ekki fyrr en hestarnir hlupu af stað sem Napóleon tókst að flýja af vígvellinum. Kanínunum tókst það sem bæði konungum og keisurum hafði mistekist til þessa.
Gæti dregið úr mesta sársauka legslímuflakks
Sjúkdómurinn hrjáir um 10% allra kvenna á barneignaraldri. Í mörg ár hafa milljónir kallað eftir árangursríkri meðferð.