Hinn vinsæli þýski kappakstursökumaður, Bernd Rosemeyer, þekktur sem Silfurrakettan, er allur eftir kappakstur við landa sinn Rudolf Caracciola.
Ríkiskanslari Þýskalands, Adolf Hitler, orðaði fyrr um árið ósk um að hraðametið á landi skyldi sett af þýskum manni í þýskum bíl á þýskri hraðbraut. Fremstu kappakstursmenn okkar tíma létu í gær draum Hitlers rætast þegar þeir – til að slá heimsmetið – keyrðu eftir afgirtum kafla á mótorveginum milli Frankfurts og Darnstadts.
Rudolf Caracciola ræsti fyrstur í Mercedes Benz bifreið sinni. Hann sló fyrra met með hraða sem nam 432,69 km/klst.
Áður en Silfurrakettan hélt af stað varaði Caracciola hann við um mikinn hliðarvind á brautinni – en án árangurs. Þessir tveir hæfileikaríku ökumenn hafa verið keppinautar um áraraðir og skipst á nýjum hraðametum á bæði lokuðum brautum og afgirtum opinberum vegum. Silfurrakettan hundsaði viðvörunina, settist á bak við stýrið í Autounion-kappakstursbíl sínum og rauk af stað.
9,2 km síðar missti hann stjórn á ökutækinu sem fór margar veltur og endaði utan vegar. Þegar aðstoð barst á slysstað fannst Bernd Rosemeyer látinn í meira en 100 m fjarlægð frá bílflakinu.
Rétt fyrir slysið var hraðinn meira en 433 km/klst. – nýtt hraðamet á opinberum vegi. Afrekið reyndist Rosemeyers síðasta.