Charles W. Oldrieve getur gengið á vatni. Það sannaði hann í gær þegar hann kom á land við endann á Canal Street í New Orleans í 130 sm löngum og 13 sm breiðum kanólaga vatnaskóm eftir að hafa gengið alls 2.600 km á vatni.
Þar með hefur hann líka unnið veðmál sitt við auðmanninn Edward Williams í Boston. Til að sigra þurfti Oldrieve að ganga á vatnaskónum sínum eftir fljótaleiðinni frá Cincinnati til New Orleans á 40 dögum. Það hafðist, en mátti ekki tæpara standa.
Oldrieve hóf fljótagöngu sína á nýársdag og fékk einn aukadag vegna óviðráðanlegra tafa. Rétt áður en hann komst í mark missti hann jafnvægið og datt á hausinn í vatnið. Til allrar lukku var kona hans rétt hjá á árabát og hún náði að rétta hann við. Hann komst í mark aðeins 40 mínútum fyrir tilsettan tíma. Áður hefur Oldrieve m.a. gengið þvert yfir höfnina í New York á vatnaskóm sínum.