Í fjórða leiðangri sínum til Norður- og Suður-Ameríku var siglingamaðurinn Kristófer Kólumbus óheppinn. Í júní 1503 varð hann að fara í land á eyjunni Jamaíka með spænska áhöfn sína vegna þess að skip þeirra fór að leka.
Frumbyggjar eyjarinnar sáu hinum strönduðu mönnunum fyrir mat og drykk en þegar hópur Spánverja sem höfðu yfirgefið Kólumbus réðist á þorp frumbyggjanna dvínaði gestrisni þeirra við Kólumbus og trygga menn hans.
„Þeir fóru að gefa okkur minna af mat en við þurftum,“ skrifaði Ferdinand sonur Kólumbusar sem ferðaðist með honum.
Hinn reyndi landkönnuður Kólumbus lagði því upp lúmska áætlun. Með Guðs hjálp myndi hann lita tunglið blóðrautt ef indíánarnir hlýddu ekki.
Blóðtunglið var refsing Drottins
Af almanaki sem Kólumbus hafði meðferðis vissi hann að tunglmyrkvi yrði þann 29. febrúar á hlaupárinu 1504. Myrkvinn myndi skapa svokallaðan blóðmána.
Í slíku tilviki gengur tunglið inn í skugga jarðarinnar en er samt upplýst af sólarljósi sem brotnar í gegnum lofthjúp jarðar sem gerir tunglið rautt.
Þremur dögum áður varaði Kólumbus innfædda íbúana við því að kristni guðinn myndi refsa þeim með því að lita tunglið rautt af reiði. Þeir voru ekki sannfærðir fyrr en blóðrautt tungl birtist á himni 29. febrúar.
„Fólkið kom æpandi úr öllum áttum að skipinu með vistir og þeir báðu aðmírálinn að biðja Guð fyrir sig,“ skrifaði Ferdinand.
Lífshættir frumbyggja Ameríku hafa verið goðsagnakennt viðfangsefni allt frá því að nýlenduherrar Evrópu stigu fæti á meginland Norður-Ameríku.
Þegar tunglið fór aftur í eðlilegt horf eftir um klukkustund sagði Kólumbus indíánunum að Guð hefði fyrirgefið þeim. Indíánarnir féllu þakklátir á hnén fyrir Kólumbusi og þökkuðu honum fyrir.
„Frá þeirri stundu útveguðu þeir okkur af kostgæfni allt sem við þurftum,“ rifjar Ferdinand upp.
Kólumbus og menn hans fóru frá Jamaíka í júní 1504 þegar annað spænskt skip birtist og tók þá með sér.