Líffræði
Til hvers að éta bragðvond sníkjudýr þegar nóg er af sætu slími? Þetta virðist einfalt val en málið er þó ekki svo einfalt, því þótt fægifiskunum þyki gott það sykurríka slím sem verndar hreistur sumra kóralfiska, leyfist þeim ekki að éta það nema þeir hreinsi jafnframt í burtu sníkjudýrin.
Kóralfiskarnir fylgjast nefnilega vel með afköstum einstakra fægifiska meðan þeir hreinsa aðra kóralfiska. Þetta sýnir tilraun sem dýrafræðingar við háskólann í Neuchatel í Sviss gerðu á kóralfiskum. Í ljós kom að kóralfiskarnir ráku frá sér fægifiska sem aðeins ætluðu sér slímið. Fægifiskarnir reyndust líka mun duglegri við vinnuna þegar aðrir kóralfiskar horfðu á.