Lifandi Saga

Kynlífsfíklar fortíðarinnar voru hömlulausir

Lostafullir læknar, kvensamir prestar og graðir keisarar hafa beitt konur og börn kynferðislegu ofbeldi öldum saman. Yfirgangur þeirra hafði sjaldnast nokkrar afleiðingar, heldur státuðu ofbeldismennirnir gjarnan af ódæði sínu.

BIRT: 05/10/2023

Kynferðislegt ofbeldi hafði átt sér stað árþúsundum saman áður en það sem kallað hefur verið MeToo-bylgjan fór af stað sem varpaði m.a. ljósi á ofbeldi af hálfu kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinsteins.

 

Allt aftur til barnaníðingsins Tíberíusar keisara Rómarríkis hafa valdamiklir karlar svalað kynlífslöngun sinni með því að ráðast á þá sem minna máttu sín.

 

Yfirgangurinn var að öllu jöfnu látinn óáreittur sökum þess að kynferðisglæpamenn fortíðarinnar tilheyrðu efsta þrepi þjóðfélagsins.

 

Ef réttarkerfið samt sem áður greip í taumana gegn kynferðisglæpamönnum var það af allt öðrum ástæðum en af tillitssemi við fórnarlömbin.

 

Kvikmyndaframleiðandinn Darryl F. Zanuck (1902-1979)

Allir í kvikmyndaverinu vissu að Zanuck tók sér hlé frá störfum milli kl. 16.00 og 16.30 en þá átti hann samverustundir með ungum leikkonum.

Kvikmyndaframleiðandi fór fram á kynlíf á sófanum

Fallegar leikkonur í Hollywood á sjötta áratug 20. aldar áttu erfitt með að forðast einn tiltekinn stað í leit þeirra að áhugaverðum kvikmyndahlutverkum en með því er átt við sófann inni á skrifstofu hins valdamikla kvikmyndaframleiðanda Darryls F. Zanucks.

 

Nokkrum sinnum í viku voru efnilegar fegurðardísir boðaðar á skrifstofu Zanucks hjá kvikmyndaframleiðslufyrirtækinu 20th Century Fox í það sem þær töldu vera prufuupptöku fyrir væntanlegt hlutverk.

 

„Prufuupptakan“ fólst í að veita Zanuck munngælur á svokölluðum „hlutverkasófa“ mannsins. Þær leikkonur sem neituðu að verða við bón hans gengu út hlutverkslausar.

 

„Allir í kvikmyndaverinu vissu um þessar „síðdegisprufur“. Hann hafði engan áhuga á konunum. Í hans augum var aðeins um að ræða þægilegt hvíldarhlé í amstri dagsins“, ritaði höfundurinn Marlys Harris í ævisögu sinni um Zanuck.

 

Zanuck kallaði konurnar „kvikmyndaversmellurnar“ sínar en í þeirra hópi voru meðal annars stjörnur á borð við Marilyn Monroe og Jayne Mansfield.

 

Vildi kona ekki þóknast honum breiddi hann út óhróður um hana en sem dæmi má nefna leikkonuna Carole Landis sem hann sagði hafa stundað vændi áður fyrr.

 

Kvikmyndaferill konunnar var þar með að engu gerður á augabragði. Zanuck hélt áfram leit sinni að kynlífi, allt þar til hann lést af völdum lungnabólgu árið 1979, þá 77 að aldri. Hann hafði verið keðjureykingamaður.

 

Tíberíus keisari (42 f.Kr.-37 e.Kr.)

Þegar keisarinn var 66 ára gamall settist hann að í höll á eynni Capri þar sem hann bjó í ellefu ár, umkringdur berum konum og ungum drengjum.

Barnaníðingur hélt kynlífsþræla

Rómverjar höfðu vanist mergjuðu slúðri um yfirstéttina en hneykslissögurnar náðu nýjum hæðum í tíð keisarans Tíberíusar.

 

Árið 26 e.Kr. flutti keisarinn, þá 66 ára að aldri, inn í íburðarmiklu höllina Villa Júpíter á eynni Capri.

 

Hann lét Sejanusi yfirmanni í lífvarðasveit keisarans eftir öll leiðigjörnu stjórnarstörfin. Höll Tíberíusar var afskekkt á eynni en hún stóð efst uppi á 330 metra háum kletti, þar sem keisarinn gat iðkað ólifnað sinn víðs fjarri gagnrýnisröddunum í Róm.

 

Veggina prýddu klámfengin málverk og þjónarnir gengu um beina allsberir. Kornungir drengir sem nefndust „stæltu bossarnir“ stunduðu hópkynlíf frammi fyrir keisaranum og gestum hans.

 

Í sundlaug hallarinnar var að finna litla drengi, svokallaða „smáfiska“ sem voru þjálfaðir í að synda milli fóta Tíberíusar og narta þar í keisaraleg kynfærin.

 

„Glæpsamlegar fýsnir hans voru skammarlegar“, ritaði sagnfræðingurinn Tacitus.

 

Þeir drengir sem kvörtuðu voru fótbrotnir eða þeim kastað í sjóinn af varnarveggjum hallarinnar. Ofbeldinu lauk ekki fyrr en Tíberíus lést í höll sinni árið 37 e.Kr. og er jafnvel talið að það hafi verið að skipun arftaka hans, Caligula.

 

Jóhannes 12. páfi (937-964 e.Kr.)

Jóhannes 12. er álitinn hafa verið einn versti páfi gjörvallrar sögunnar.

Táningspáfi breytti Vatíkaninu í hóruhús

Hluti af pólitískri refskák þess tíma var að láta 18 ára gamlan ítalskan furstason, að nafni Octavian, taka við páfatign árið 955, þá einungis 18 ára að aldri.

 

Pilturinn tók sér páfatitilinn Jóhannes 12. Ekki leið á löngu áður en páfinn ungi hafði breytt Vatíkaninu í spilavíti og hóruhús til eigin nota.

 

Kynlífslöngun páfans kunni sér engin mörk. Konur og menn sem páfinn kærðu sig lítt um áttu á hættu að páfinn nauðgaði þeim.

 

Nauðganirnar áttu sér oftar en ekki stað í kapellum sem helgaðar voru þekktum dýrlingum eða frammi fyrir kirkjualtörum. Slíka staði valdi páfinn til að undirstrika ósvífni sína.

 

Páfinn lét heldur ekki sifjaspjöll aftra sér. Ef marka má sögusagnir þess tíma sængaði Jóhannes einnig með tveimur ungum frænkum sínum og tveimur systra sinna.

 

Hirð páfans samanstóð af smeðjulegum undirlægjum og öðrum þeim sem ekki þorðu að andmæla páfanum. Enginn greip í taumana svo fremi páfinn héldi áfram að launa þeim með eigum kirkjunnar og háum titlum.

 

Eftir níu ára stjórnartíð fór hins vegar að halla undan fæti hjá páfanum. Páfinn lést á meðan hann sængaði með giftri aðalskonu.

 

Ef marka má heimildir samtímasagnfræðingsins Liutprands af Cremona var hugsanlega um að ræða hjartaáfall en einnig hefur verið talið líklegt að afbrýðissamur eiginmaður konunnar hafi ruðst inn í svefnherbergið og hent páfanum ósvífna út um gluggann.

 

Embættismaðurinn Samuel Pepys (1633-1703)

Samuel Pepys eignaðist ekki börn. Hann hefur hugsanlega verið ófrjór vegna blöðrusteina sem hrjáðu hann stóran hluta ævinnar.

Ofurkáfari gortaði af afrekum sínum

Í Lundúnum á 17. öld máttu konur eiga von á að á þeim væri káfað, ekki hvað síst af hálfu hins virta embættismanns Samuels Pepys við flotamálaráðuneytið.

 

Pepys átti í mesta basli með að halda höndum sínum í skefjum, jafnvel þótt eiginkona hans, Elísabet, væri nálæg.

 

Eiginkonan sat eitt sinn beint á móti manni sínum í hestvagni þegar hann þvingaði konuna við hlið sér til að stinga hendinni niður á „hlutinn sinn“, líkt og Pepys kallaði getnaðarlim sinn, til þess að konan gæti fullnægt honum.

 

„Að þessari ánægjustund aflokinni fórum við heim og tókum til við kvöldmatinn“, ritaði vélarinn áræðni í dagbók sína.

 

Heima fyrir urðu vinnukonurnar á heimili Samuels Pepys annað hvort að þóknast húsbónda sínum eða eiga á hættu að verða sagt upp störfum.

 

„Ég fitlaði við brjóst hennar“, skrifaði Pepys meðal annars stoltur um eldabuskuna Nell árið 1667. Þegar frú Pepys komst að hinu sanna varð hún öskureið og lét reka Nell.

 

Þegar karlmenn báðu hann um að gera sér greiða krafðist hann þess iðulega að fá að stunda kynlíf með eiginkonum þeirra í staðinn.

 

Pepys lýsti kynlífsbrotum sínum opinskátt í dagbók sinni en notaði til þess dulmál af ótta við afleiðingarnar ef upp kæmist um brotin á meðan hann væri enn á lífi. Það var svo á 19. öld sem tókst að leysa dulmálskóðann og þá var dagbókin gefin út.

 

Málarinn Agostino Tassi (1578-1644)

Artemisia Gentileschi var fyrst og fremst álitin vera furðufugl af samtíma sínum en á 20. öld var hins vegar farið að líta á hana sem einn framsæknasta listmálara 17. aldarinnar.

Fjölskylduvinur braut gegn dóttur vinar síns

Konur geta ekki einu sinni verið öruggar á heimilum sínum, komst hin 17 ára gamla Artemisia Gentileschi að raun um.

 

Árið 1611 kom fjölskylduvinur einn, listmálarinn Agostino Tassi, í heimsókn á heimili fjölskyldu hennar í Róm. Artemisia var ein heima og málarinn leit á það sem kjörið tækifæri til að nauðga stúlkunni.

 

Að nauðguninni lokinni krafðist faðir Artemisiu, Orazio, þess að Tassi gengi að eiga dótturina til þess að varpa ekki rýrð á Gentileschi-fjölskylduna.

 

Þegar Tassi neitaði að verða við þessu kærði faðirinn hann. Í því skyni að sannreyna hvort Artemisia segði sannleikann var hún pyntuð með þumalskrúfum. Hún hrópaði hins vegar í sífellu:

 

„Ég segi satt! Ég segi satt! Ég segi satt!“

 

Réttarhöldin stóðu yfir í sjö mánuði og meðan á þeim stóð lýsti stúlkan nauðguninni.

 

„Hann henti mér á rúmið, þrýsti hönd sinni á brjóst mín og tróð vasaklút upp í munninn á mér með hinni hendinni“, útskýrði stúlkan fyrir réttinum.

 

Meðan á yfirheyrslunum stóð kom einnig fram að Tassi hefði hugsanlega einnig myrt eiginkonu sína og nauðgað mágkonu sinni.

 

Réttarhöldunum lauk þannig að hann var dæmdur til tveggja ára fangavistar en þar sem maðurinn var einn af eftirlætismálurum Páls 5. páfa var dómurinn ógiltur og málarinn laus allra mála.

Fórnarlamb nauðgunar lýsti kvennaveldi

Artemisia Gentileschi hlaut viðurkenningu sem fyrsta flokks listmálari á alþjóðlegum vettvangi. Stíll hennar var undir áhrifum samtímameistaranna í líkingu við Caravaggio. Hún málaði einkum og sér í lagi kraftmiklar konur.

Kvennabósar fengu á baukinn

Eitt elsta þekkta verk Artemisiu Gentileschi er málverk af biblíufrásögninni um Súsönnu sem tveir menn stíga í vænginn við. Þegar hún hafnar áleitni karlmannanna ljúga þeir því upp á hana að hún hafi verið ótrú en málið endar á þann veg að þeir eru dæmdir til dauða fyrir meinsæri.

Stríðsmaður gerður höfðinu styttri

Ekkja að nafni Judith narraði assýríska hershöfðingjann Holofernes á stefnumót í því skyni að bjarga Ísrael frá innrás Assýríumanna. Því næst skera Judith og þjónustustúlka hennar höfuðið af hershöfðingjanum. Þetta tiltekna mótíf var í miklum metum hjá Artemisiu sem málaði margar áþekkar myndir.

Kvennaveldi sýnt á fati

Þegar Heródes konungur Júdeu hugðist launa stúlkunni Salóme fyrir dans hennar krafðist stúlkan þess að fá afhent höfuð Jóhannesar skírara á fati. Andstætt við útgáfur annarra málara af atburði þessum lét Artimisia Salóme horfa sigurvissa beint á afhoggið höfuðið.

Læknirinn Ralph de Worgan (13. öld)

Af réttarskjölum má greina að „dvaladrykkur“ læknisins Ralph de Worgans hafi meðal annars innihaldið hina banvænu náttskuggajurt.

Læknir deyfði og misnotaði sjúkling sinn

Svonefndar „byrlanir“, þar sem fórnarlömbum undir áhrifum lyfja er nauðgað, eru ekki nýjar af nálinni.

 

Fyrir rúmum 700 árum, nánar tiltekið árið 1292, leitaði enska konan Isabella Plomet til læknis síns og kvartaði undan verkjum.

 

Konan hafði enga ástæðu til að gruna lækninn um græsku og drakk heimagerðan drykk hans sem hann sagði myndu lina verkina.

 

Drykkurinn gerði það hins vegar að verkum að Isabella sofnaði fyrirvaralaust og síðan nauðgaði Worgan henni. Isabella varð að vonum öskuill og kærði lækninn. Réttarhöldin hófust það sama ár.

 

„Ralph lét hana drekka mixtúru sem hann nefndi „dvaladrykk“. Síðan hafði hann við hana samfarir gegn vilja hennar“, sagði í ákæruskjalinu.

 

Réttarhöld vegna nauðgana voru einkar sjaldséð á miðöldum og andstætt öllum væntingum hafði Isabella betur gegn lækninum.

 

Worgan var þó ekki dæmdur fyrir nauðgun, heldur fyrir að valda læknastéttinni álitshnekki með mixtúru sinni.

 

Sem bætur fyrir glæp sinn skyldi læknirinn seki greiða sjúklingnum eitt mark í bætur en upphæð sektarinnar samsvaraði verði fyrir eitt naut, svona til að setja upphæðina í samhengi.

 

Tónlistarmaðurinn Chuck Berry (1926-2017)

Chuck Berry var dæmdur árið 1959 eftir að hin 14 ára gamla Janice Escalanti bar vitni um að söngvarinn hefði haft samfarir við hana fjórtán sinnum.

Rokkstjarna á höttunum eftir stúlkubörnum

Unglingastjarnan Chuck Berry öðlaðist m.a. heimsfrægð fyrir lag sitt „Johnny B. Goode“ og þess má geta að hann kom fram á einkatónleikum fyrir Jimmy Carter Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu árið 1979.

 

Tónlistarmaðurinn átti raunar einnig sínar dökku hliðar en með því er átt við áhuga hans á kornungum stúlkum.

 

Árið 1962 var Chuck Berry dæmdur fyrir að ferðast yfir fylkjamörkin í „ósiðlegum tilgangi“ í fylgd með 14 ára stúlkubarni að nafni Janice Escalanti og nauðga henni.

 

Söngvarinn var dæmdur til að greiða fimm þúsund dollara sekt og hlaut jafnframt eins árs fangelsisdóm.

 

Söngvaranum tókst innan örfárra ára að ná vinsældum á nýjan leik en árið 1990 var hann aftur ákærður.

 

Konur sem störfuðu á veitingahúsi hans, Southern Air, kvörtuðu undan eftirlitsmyndavélum sem komið hafði verið fyrir á salerninu.

 

Þegar lögreglan í kjölfarið leitaði á heimili Berrys fundust ógrynni leynilegra upptakna af konum og ungum stúlkum á salerninu.

 

Berry varði ríflega einni miljón Bandaríkjadala í lögfræðikostnað og tókst að fá málið fellt niður eftir að hafa gert samkomulag við ákæruvaldið. Þess í stað játaði hann að hafa haft í sínum fórum mikið magn af marijúana sem lögreglan hafði lagt hald á.

 

Presturinn Pierre Clerque  (u.þ.b. 1320)

Presturinn Pierre Clerque sakaði konurnar í franska þorpinu Montaillou um villutrú ef þær stunduðu ekki kynlíf með honum.

Kynlífsskrímsli herjaði á þorp

Í áratugi níddist presturinn Pierre Clerque á konum í franska þorpinu Montaillou.

 

Ef konurnar voru ekki samvinnufúsar sakaði hann þær um villutrú. Loks þegar hin 21 árs gamla bóndakona Grazide Rives var yfirheyrð af rannsóknarréttinum um árið 1320 kom í ljós hvað var að gerast í þorpinu.

 

„Presturinn kom heim þegar móður mín var úti við vinnu. Hann var mjög ákafur og sagði:

 

,,Leyfðu mér að kynnast holdinu þínu”. Ég var 14 eða 15 ára og hrein mey… hann tók meydóminn minn í hlöðunni,“ sagði Rives í yfirheyrslunum.

 

Móðirin og síðar eiginmaður Rive samþykktu misnotkunina af ótta við Clergue.

 

„Það er í lagi með prestinum. En þú mátt ekki þýðast aðra menn!“ á eiginmaðurinn að hafa sagt við hana.

 

Presturinn reyndi að verja sig með þeim rökum að „holdlegt samræði væri alltaf rangt, jafnvel á milli hjóna. Og þegar allt er bannað er allt leyfilegt“.

 

Hann endaði þó í fangelsi og lést skömmu síðar af veikindum í óvistlegri prísundinni.

HÖFUNDUR: NATASJA BROSTRÖM , BUE KINDTLER-NIELSEN

© Getty Images,© North Wind Picture Archives/Imageselect,© Franco Cesati/Wikimedia Commons,© John Hayls/Wikimedia Commons,© Artemisia Gentileschi/Wikimedia Commons,© Artemisia Gentileschi/Wikimedia Commons,© Shutterstock,© Universal Attractions/Wikimedia Commons,© Imageselect

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Gallerí: Baráttan við náttúruöflin

Lifandi Saga

Miðaldir voru tími svikahrappanna: Sérfróðir í svikum og prettum 

Lifandi Saga

Hversu margir bjuggu í Ameríku þegar Kólumbus bar að garði?

Lifandi Saga

Öll von slokknaði í fangelsum 19. aldarinnar

Maðurinn

Streita veldur ofþyngd

Maðurinn

Svartir punktar afhjúpa getgátur heilans

Alheimurinn

Hvað ef jörðin væri í öðru sólkerfi?

Náttúran

Skoðið myndirnar: Úlfar hegða sér eins og allt önnur dýr

Alheimurinn

Ótrúlegt afrek: Nemendur slá nokkur heimsmet með heimagerðri eldflaug

Náttúran

Hversu stór gátu skorkvikindi orðið?

Lifandi Saga

Olíuborpallur springur: Eldhaf í Norðursjó

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.