Þegar fyrstu stríðsmennirnir brutust þann 13. september 2005 inn á torsótta svæðið Zul´Gurub mættu þeir risastórri veru er líktist dreka. Þetta var hinn skelfilegi fjandi Hakkar, sem auk ógnarlegra krafta bar smitsjúkdóm sem dró hratt allan lífskraft úr stríðsmönnunum. Einungis hinir sterkustu gátu lifað af smitið af sjúkdómnum „spillt blóð“, en áður en þeir náðu sér að fullu báru þeir enn með sér smitið og því stafaði öðrum hópum ógn af návist þeirra.
Þetta var upphafið að faraldri sem fór eldskjótt úr böndunum. Líkin hrönnuðust upp á götunum í borgunum, samfélagið leystist upp, fólk flúði í skelfingu, aðgerðir yfirvalda við að einangra hina sjúku mistókust og á fáeinum dögum höfðu fjórar milljónir orðið fyrir harmleiknum.
Þetta dramatíska sjónarspil fór fram á netinu í tölvuleiknum World of Warcraft. En samt sem áður eru læknar og aðrir fræðimenn ekki í vafa um að raunheimur megi læra margt af framvindu mála þar.
Langflestir íbúar í sýndarheiminum eru undir stjórn raunverulegra manna eða spilara sem sitja á bak við tölvur og stjórna mönnum sínum. Sumir spila marga klukkutíma á dag og marga daga á viku og þannig verða fígúrur þeirra eins konar alter-egó, sem spilarar tengjast og stýra með eigin gildismati og tilfinningum.
Með fígúrum sínum geta spilararnir öðlast vináttu annarra og oft geta vinirnir unnið saman í viku- eða mánaðartíma að sameiginlegum verkefnum. Þannig bregðast spilarar á netinu við á mun trúverðugri máta við sjúkdómum og öðrum uppákomum heldur en fræðileg tölvulíkön sem vísindamenn nota til að segja fyrir um framrás sjúkdómsfaraldurs.
Höfundarnir misstu stjórnina
Það er bandaríska fyrirtækið Blizzard Entertainment, sem á og stjórnar World of Warcraft, sem skapaði sjálft „spillt blóð“ og kom faraldrinum af stað. En enginn hafði ímyndað sér að svo margt gæti farið úrskeiðis eins og raun bar vitni.
Fimm til tíu sinnum á ári er leikurinn betrumbættur og ný svæði opnuð í sýndarheimum hans svo spilarar fái kost að takast á við ný ævintýri. Zul´Gurub var einungis aðgengilegt allra fremstu fígúrum í spilinu og þar áttu þeir að spreyta sig á Hakkar og hinu spillta blóði hans. Sjúkdómurinn var forritaður þannig að fígúrur misstu um 100 „lífsstig“ hverja sekúndu í nærveru Hakkars eða annarrar smitaðrar persónu. Meðalmaður í leiknum myndi þannig skjótt missa öll sín stig og deyja, meðan sterkustu leikmennirnir hefðu nægan lífkraft til að sigrast á Hakkar og jafna sig síðan. Vissulega yrðu þeir örmagna en ef enginn annar var smitaður í nágrenninu gátu þeir skjótt náð sér aftur. Sjúkdómurinn var þannig hannaður til að veita hinum sterkustu öfluga en yfirstíganlega andspyrnu.
Fjarflutningur dreifði smitinu
Forriturum við Blizzard hafði þó yfirsést einn þáttur. Í World of Warcraft geta sumir leikmenn fjarflutt sig á sekúndubroti milli staða. Þennan hæfileika nýttu sumir hermennirnir sér þegar þeir gáfust upp í bardaganum við Hakkar. Þannig voru þeir skyndilega komnir inn í þéttbýli ennþá smitaðir af sjúkdómnum. Mikill fjöldi lét strax líf sitt gegn þessum sjúkdómi og fjölmargir bæir víðsfjarri Zul´Gurub lögðust skjótt í eyði.
Þrátt fyrir að einstaka fígúrur hafi skjótt verið bornar ofurliði eftir smit barst sjúkdómurinn áfram með örvæntingarfullu flóttafólki. Atferli hjá fígúrum spilaranna minnir að miklu leiti á viðbrögð raunverulegra manna. Erik Lofgrin og Nina Feffermann sem eru bæði vísindamenn í faraldsfræði, annars vegar við Tafts University í Boston og hins vegar við Rutgers University í New Jersey, eru sammála. Þrátt fyrir að við getum ekki fjarflutt okkur erum við fær um að setjast upp í flugvél og getum þannig á nokkrum klukkustundum stigið út í öðrum heimshluta.
Þannig geta framandi sjúkdómar dreifst yfir miklar fjarlægðir á skömmum tíma og mörg fordæmi eru fyrir því í sögunni. Síðast gerðist þetta í febrúar 2003 þegar bandarískur viðskiptamaður í Kína smitaðist af sjúkdómi þar sem síðar varð alræmdur undir nafninu SARS. Á leiðinni í flugvélinni varð hann svo veikur að flugvélin þurfti að lenda í höfuðborg Víetnam, Hanoi, þar sem hann lést síðar. Áður en sumarið var úti hafði sjúkdómurinn borist til 27 landa með flugi.
Hefðbundin tölvulíkön sem leitast við að líkja eftir útbreiðslu faralds taka vissulega ferðamynstur fólks með í reikninginn og nýta sér enn fremur raunverulegar farþegatölur, en þessi líkön eiga hins vegar erfitt með að takast á við mannlega þáttinn sem skiptir jú sköpum um hvort hinn sjúki kjósi að ferðast eður ei. Þegar menn sýkjast í raunveruleikanum í ferðalögum eru það fjölmargar persónulegar ástæður sem ráða um úrslit ákvarðana hans. Við bætist að þegar miklir sjúkdómsfaraldar eiga í hlut, getur gripið um sig örvænting og fólk bregður á ráð, sem eru nær óútreiknanleg fyrir tölvur.
Sjúkir spilarar héldu heim til að deyja
Þvílíkt ófyrirsegjanlegt atferilsmynstur kom oft fyrir þegar sjúkdómurinn breiddist út í World of Warcraft. Til dæmis áttu sýktir hermenn hreint ekki að yfirgefa Zul´Gurub fyrr en þeir höfðu náð sér af sýkingunni, enda máttu þeir segja sér sjálfir að öðrum stafaði ógn af þeim. En kannski var það einmitt óttinn við að deyja aleinn sem fékk manneskjuna að baki fígúrunni til að leita heim til ástvina og þannig hugsunarlaust koma öðrum í hættu. Ennfremur var annar þáttur sem forriturum hafði yfirsést þegar þeir slepptu sjúkdómnum lausum. Í World of Warcraft geta leikendur haft tölvustýrt gæludýr sem aðstoðar þá við ýmis verkefni. Gæludýrin gátu smitast af spilltu blóði og þrátt fyrir að veikjast sjaldan, gátu þau smitað aðrar fígúrur og þannig dreift sjúkdómnum.
Hið sama átti við tölvustýrða leikendur, svonefnd NPC (Non Playing Character), sem sinna ýmsum störfum eins og löggæslu, iðnum ýmis konar og verslun í sýndarheimi. Ótal gæludýr smituðust og nánast allir NPC-leikendur án þess þó að veikjast. Og þannig öðlaðist sjúkdómurinn athvarf sem gerði enn örðugara að ráða niðurlögum hans.
Viðlíka aðstæður gegna mikilvægu hlutverki við þróun faraldurs í raunheimi. Faraldsfræðingurinn Ran Balizer við Ben Gurion-háskólann í Ísrael líkir gæludýrum í leiknum við endur raunveruleikans, sem geta verið einkennalausar þrátt fyrir að vera smitaðar af fuglaflensu. Hið hættulega afbrigði fuglaflensu H5N1 sem herjaði víðsvegar um heim árið 2004 var ennþá banvænni gagnvart öðrum fuglum en fyrirrennarinn þrátt fyrir að hafa nánast engin áhrif á endur. Vírusinn gat hins vegar dafnað í öndunum sem gegndu því mikilvæga hlutverki við dreifingu fuglaflensunnar. Balizer telur ennfremur að árangurslausar aðgerðir forritaranna við Blizzard við að hamla útbreiðslu faraldursins megi líkja við viðleitni yfirvalda til að hefta raunverulegan faraldur. Forritararnir leituðust þannig við að einangra hina sjúku og smitaða bæi með því að takmarka hreyfigetu fígúranna, en án árangurs. Ferðamátarnir voru of margir og þar sem sjúkdómurinn smitaðist einnig með NPC-leikendum og gæludýrum reyndist ógjörningur að hefta hann.
Leikir verða sýndarrannsóknarstofur
William Bainbridge sem rannsakar gervigreind við National Science Foundation í BNA ætlar að forritarar og vísindamenn muni í framtíðinni sameinast í að þróa nýjar leiðir til að reyna viðbúnað yfirvalda við slíkri vá.
Í fyrstu geta netleikir eins og World of Warcraft og Second Life, sem um þessar mundir hafa annars vegar 8,5 og hins vegar 6,5 milljón íbúa, komið að gagni og rétt eins og „spillt blóð“ var sett inn í leikinn af forriturum, geta spilahönnuðir í samvinnu við lækna búið til aðra sýndarsjúkdóma sem líkjast t.d. SARS, alnæmi eða fuglaflensu og sleppt þeim lausum í leiknum.
Best væri ef læknar gætu því næst tengst miðlægri tölvu leiksins og sótt þangað upplýsingar um útbreiðslu sjúkdómsins og smitleiðir ásamt atferli fígúra fyrir og eftir mögulegt smit. Slíkt yrði afar öflugt verkfæri ekki aðeins til að skoða hvernig sjúkdómurinn breiðist út heldur einnig til að prófa áhrif á mismunandi inngrip í varnaðarskyni, t.d. einangrun eða „meðferð“.
Kostnirnir við að rannsaka hnattræna faraldra í sýndarheimi eru margir. Helstir þeirra eru vafalaust að læknar geta hvenær sem er útrýmt plágunni og banvænum afleiðingum hennar með því að endurræsa tölvuna.