Það urðu tímamót í lækningasögunni þann 23. september 1998 þegar Nýsjálendingurinn Clint Hallam vaknaði upp með ágrædda hönd eftir 13,5 tíma aðgerð.
Þetta var sannkölluð tímamótaaðgerð þar sem læknar frá fjórum löndum voru samankomnir í Lyon í Frakklandi og lögðu saman krafta sína og þekkingu við að tengja smásæjar taugar, vöðva, sinar og æðar í eina heild þannig að ágrædda höndin gæti virkað sem best.
Hönd hafði reyndar verið grædd á sjúkling í Ekvador árið 1964, en ónæmiskerfið hafnaði henni eftir aðeins 3 vikur, þar eð ekki voru til nægilega öflug ónæmisbælandi lyf. Þegar kom fram undir aldamót hafði gerð slíkra lyfja tekið stórstígum framförum og höfnun líkamans orðin tiltölulega fátíð. Þannig hafði nú skapast grundvöllur fyrir vel heppnaðri ágræðslu og endurhæfingin sem fylgdi í kjölfarið tryggði líka að að nýja höndin næði þeirri virkni sem til var ætlast.
Eftir tæpa tvo mánuði gat Clint Hallam tekið að beygja fingurna lítils háttar og snúa úlnliðnum. Hann fékk líka smám saman tilfinningu í höndina eftir því sem taugar hans sjálfs uxu út í hana. Þegar höndin náði bestri virkni um ári eftir aðgerðina, fann Hallam fyrir snertingu og sársauka bæði á handarbaki og í lófa. Hann gat tekið upp farsímann sinn, haldið á glasi, skrifað með kúlupenna og notað hníf og gaffal.
En það eru tvær hliðar á hverjum peningi. Nýja höndin var lengri og stærri en hin og að auki með öðrum húðlit. Hún vakti Hallam því smám saman óhugnað og á endanum hætti hann að taka hin rándýru lyf reglubundið. Þegar líkaminn tók að hafna höndinni varð hún rauðflekkótt og húðin tók að flagna.
Hallam skammaðist sín nú fyrir hana og forðaðist að láta hana sjást. Á endanum var svo komið að hann þoldi nýju höndina ekki lengur. Hann mætti á sjúkrahúsið með nýju höndina stokkbólgna og ókræsilega og að kröfu hans sjálfs var hún fjarlægð þann 2. febrúar 2001. Það var sami læknirinn, dr. Nadey Hakim, sem hafð grætt höndina á og neyddist nú til að fjarlægja hana aftur.
Þótt þannig tækist verr til en þurft hefði að vera, útvíkkaði ágræðslan landamæri hins mögulega og ruddi brautina fyrir fleiri handágræðslur. Síðan hafa skurðlæknar komist enn lengra og árið 2008 fékk Þjóðverjinn Karl Merk grædda á sig tvo nýja handleggi.