Skoska lækninum dr. James Lind hefur tekist að finna lækningu á sjúkdómnum skyrbjúgi, sem talinn hefur verið ólæknandi og leggst á sjómenn í langsiglingum.
Enn þekkir enginn orsakir þessa sjúkdóms sem einkennist af bólgum í tannholdi, tannlosi og blæðingum í húð, ásamt því að sár gróa ekki.
Dr. Lind hefur lengi velt því fyrir sér að fæðan um borð skipti hér öllu máli og árið 1747 gerir hann tilraun til að rökstyðja þessa hugmynd. Hann var á þessum tíma læknir um borð í HMS Salisbury og þegar 12 áhafnarmeðlimir fengu skyrbjúg ákvað hann að gefa þeim mismunandi fæði.
Hann skipti sjúklingunum í sex hópa (2 í hverjum hópi) og hver hópur fékk mismunandi viðbót við venjulegan mat. Einum hópnum gaf hann eplasafa, öðrum hvítlauk og þeim þriðja sinnep. Hinir þrír hóparnir fengu piparrót, edik, appelsínur og sítrónur.
Sítrusávextirnir reyndust best. Þeir tveir menn sem fengu þessa ávexti náðu sér undraskjótt. Annar varð m.a.s. fær um að annast félaga sína.
Síðan hefur dr. Lind unnið að ritsmíð sinni, „A Treaty on the Scuvry“, sem nú er komin út. Hér kafar hann dýpra og útskýrir niðurstöður tilraunar sinnar:
„Hraðasti og sýnilegasti batinn varð af appelsínum og sítrónum, en annar sjúklingurinn var orðinn vinnufær eftir 6 daga. Ummerki hurfu þó ekki af líkamanum á þessum tíma og gómarnir voru ekki orðnir fullkomlega eðlilegir, en án nokkurrar lyfjagjafar var hann orðinn því nær heill heilsu áður en við komum til Plymouth,“ skrifar hann m.a.
Þótt yfirmenn sjóhersins viðurkenni strax niðurstöður læknisins, spá sérfræðingar því að enn muni líða allmörg ár áður en flotinn hafi ráð á því að veita öllum sjómönnum sínum fastan skammt sítrusávaxta.