Menning og saga

Landbúnaður á 30 hæðum

Mannkyni fjölgar hratt og sífellt fleiri flytja til borga. En matvælaframleiðslan hefur ekki fylgt með. Á þessu vill bandarískur sérfræðingur ráða bót. Hugmynd hans er að byggja vitrænan landbúnað, sem teygir sig upp í háloftin. Einn skýjakljúfur getur á 30 hæðum brauðfætt 50 þúsund manns.

BIRT: 04/11/2014

Gúrkur 14. hæð, tómatar 15. hæð og salat 16. hæð. Þannig getur skiltið við lyftuna komið til með að líta út ef bandarískur prófessor nær að raungera þær áætlanir sem hann og nemendur hans hafa þróað. Hugmynd þeirra felst nefnilega í að rækta nytjajurtir í 30 hæða háhýsum. “Vertical Farming”, eða lóðréttur landbúnaður eins og þeir nefna aðferðina, felur í sér möguleika á að umbylta framleiðslu okkar á matvælum.

 

Búist er við að mannfjöldi jarðar verði 9 milljarðar árið 2050. Nú þegar býr um helmingur heimsbúa í borgum en eftir 40 ár er talið að fjórir af hverjum fimm verði borgarbúar eins og raunin er á Vesturlöndum.

 

Það þarf því að hugsa hlutina upp á nýtt að áliti Dickson D. Despommier við Colombia University í New York, sem er örverufræðingur að mennt. Síðustu árin hefur hann einbeitt sér að nýjum aðferðum fyrir landbúnað. Hann vill gera borgirnar sjálfbærari og ein leiðin felst í að færa landbúnað inn í borgirnar – inn þar sem neytendurnir búa.

 

Eigi að vera unnt að brauðfæða borgarbúa með hefðbundinni ræktun er þörf á að stækka landbúnaðarsvæði á heimsvísu með svæði á stærð við Brasilíu. Það verður hægara sagt en gert þar sem við ræktum nú þegar 80% af heppilegri jörð.

 

2.400 km frá akri að borði

 

Drjúgur hluti alls landbúnaðar fer í að sjá borgarbúum fyrir mat og hefur í för með sér mikinn flutningskostnað sem og orkunotkun.

 

Borg eins og London ein og sér þarf á tveim milljónum tonna af matvöru að halda árlega og sum matvælin eru komin langt að. Bandarískir útreikningar sýna að matvörur hafa að meðaltali verið fluttar 2.400 km áður en þær komast á borð neytenda.

 

Í Singapúr er t.d. dag hvern flogið með ávexti og grænmeti frá þremur meginlöndum.

 

Það er ekki sjálfbært. Sérstaklega ekki þar sem nútíma landbúnaður felur í sér margvísleg vandamál. Meginhluti af takmörkuðu ferskvatni jarðar er notaður til vökvunar á nytjaplöntum. Vökvunin leiðir til útþynningar á næringarefnum á ökrunum og veldur miklum vandræðum í ám, vötnum og hafinu. Það er þörf á að endurræsa landbúnaðinn með útgáfu 2.0 og ræktun innanhúss í háhýsum er kannski ein besta lausnin.

 

Með því að flytja ræktunina innanhúss má tryggja að hún eigi sér stað við mun stýrðari aðstæður. Það myndi t.d. fela í sér minni notkun á vatni, en skömmtun á næringarefnum getur verið nákvæmari og verði umframmagn má safna því saman og senda það aftur í hringrás.

 

Landbúnaður dafnar undir þaki

 

Við manneskjur höfum fyrir löngu síðan fundið upp á því að vera innandyra þar sem við getum skapað þægilegar aðstæður fyrir okkur. Mörg okkar halda til 90% sólarhringsins innandyra í umhverfi þar sem rakastig og hitastig er heppilegt.

 

“Við höfum gert það við heimili okkar og skrifstofur. Hvers vegna ekki að gera hið sama fyrir nytjajurtir? Auðvitað er það mögulegt,” segir Dickson Despommier áhugasamur. Hann telur tæknina þegar til staðar og margvíslega reynslu að finna t.d. frá Hollandi, þar sem stór gróðurhús skipta sköpum fyrir landsframleiðslu á grænmeti.

 

Innanhúss má skapa heppilegustu aðstæður fyrir nytjajurtir svo þær dafni sem best. Í “lóðréttum landbúnaði” má stjórna rakastigi, hitastigi og næringu með mikilli nákvæmni sem endurspeglast í afrakstrinum. Einn hektari í ræktun undir þaki getur gefið rétt eins mikið af sér og 4 – 6 hektarar í hefðbundnum landbúnaði.

 

Útreikningar sýna að háhýsi með 13 hæðir getur brauðfætt allt að 50 þúsund manns.

 

Ein aðferðanna til að tryggja hámarksuppskeru innanhúss er ræktun í vatni eða hydroponic eins og það nefnist á enskri tungu. Með því að bæta í vatnið nákvæmlega þeim næringarefnum sem tiltekin jurt þarf á að halda, má ná langtum betri uppskeru en á ökrunum.

 

Miðað við hvern fermetra getur vatnsræktun meira en tvöfaldað uppskeru á salati meðan uppskera á agúrkum gæti fjórfaldast. Útskýringin er sú að planta má mun þéttar og að plönturnar þroskast skjótar en ella, enda fá þær kjöraðstæður.

 

Aðferðin er þegar notuð í mörgum gróðurstöðum en af þeim er sú stærsta Eurofresh Farms í Arizona í BNA. Þar er 1,29 ferkílómetri undir gleri og frá þessum stað einum saman koma 56 þúsund tonn af tómötum.

 

Í Kaliforníu skilar önnur gróðurstöð þrítugfaldri uppskeru jarðarberja miðað við hefðbundna ræktun á landi.

 

Þrátt fyrir að plönturnar vaxi í vatni er vatnsnotkunin þó minni en í hefðbundnum landbúnaði einmitt vegna þess hve nákvæmlega má fylgja þörfum plantnanna. Þessi umhyggjusamlega skömmtun þýðir einnig að oft má forðast eiturefni – plönturnar verða sjaldan fyrir sjúkdómum eða skaðlegum skordýrum og illgresi er nánast óþekkt.

 

Vatnsræktun má nota hvarvetna og með gervilýsingu má jafnvel rækta grænmeti þar sem ekkert sólarljós er að finna.

 

Hrísgrjónaakrar í háhýsum í Tókýó

 

Ef háhýsi eru byggð fyrir landbúnað geta plönturnar fengið allt það ljós sem þær þarfnast. Hanna má háhýsin þannig að þau hleypi sem mestu magni ljóss til plantnanna og í skammdeginu má bæta við gervilýsingu. Sérfræðingar hafa öðlast mikla þekkingu á því hvaða bylgjulengdir ljóss henta hverri plöntutegund fyrir sig og með nýtingu ljósdíóða í staðinn fyrir hefðbundna lýsingu má helminga orkunotkunina samkvæmt nýjustu tilraunum í gróðurhúsum.

 

Passona 02 er gott dæmi um hve vel hefur tekist til með gervilýsingu. Passona 02 er nafn á verkefni í höfuðborg Japans, Tókýó. Í hvelfingum undir háhýsi í Otemachihverfi í miðborginni hefur verið komið á laggirnar ekrum sem eru samtals 1.000 fermetrar. Þar er ræktað allt frá hrísgrjónum til skrautblóma – samtals geta þessar neðanjarðarekrur skilað 100 mismunandi plöntum sem eru allar ræktaðar án sólarljóss. Í stað þess stýrir tölva hitastigi, ljósmagni og vökvun.

 

Engin eiturefni eru notuð í þessari gróðurstöð, þar sem mikilvæg starfsreynsla næst fyrir þá nemendur sem ætla sér að vinna við ræktun.

 

Grænmeti tekur við frárennslisvatni borgarinnar

 

Áveita í lóðréttri ræktun er samkvæmt Dickson Despommier ekki vandamál. Þó sér hann nokkrar áskoranir við að stýra næringarefnum þannig að hringrásin í “lóðréttum landbúnaði” mengi ekki umhverfið. Til þess þarf hreinsunarstöð en hins vegar geta háhýsi til ræktunar einnig nýtt fjölmörg næringarefni í því frárennslisvatni sem kemur frá borgum. Þannig má byggja staðbundna hringrás næringarefna og minnka skólp frá borginni.

 

Einnig má jákvætt teljast að byggingin getur annað orkuþörf sinni með bruna á plöntuleifum. En á veturna þarf háhýsið nokkra orku til hitunar. Stærsta hindrunin er og verður þó kostnaðurinn. 30 hæða háhýsi er dýrt í byggingu óháð því hvort það mun hýsa skrifstofur eða tómata.

 

“Helstu áhyggjur mínar er öflun fjármagns til að byggja frumgerð. Sú gæti kostað um 50 milljón dali,” segir Dickson Despommier sem vonast samt sem áður til að fyrsti “lóðrétti landbúnaðurinn” verði að raunveruleika innan fárra ára.

Fyrst um sinn er raunhæft að prófa hugmyndina í háhýsi sem annars á að rífa, viðurkennir Dickson Despommier en er vongóður um að fá ánafnað byggingu og innrétta hana í miðstöð fyrir sjálfbæran borgarlandbúnað.

 

Kannski fara Evrópubúar í millitíðinni fram úr honum því í Hollandi hafa menn lengi unnið með áætlanir um að samþætta allar gerðir landbúnaðarframleiðslu í stóran iðnað, þar sem framleiða má hvaðeina frá svínakjöti til túlípana, og þar sem ólík iðnaðarstarfsemi getur hver nýtt sorpið frá annarri. Hugmyndin hefur dafnað í hollenskum háskóla og stjórnvöld styðja við hana og þrátt fyrir að hlé sé núna á framkvæmdum hafa þeir ekki lagt verkefnið á hilluna.

 

Afríkubúar uppskera drjúgt í borgum

 

Þegar allt kemur til alls eru borgir og landbúnaður engar andstæður. Um fjórðungur landbúnaðarframleiðslu í Afríku á sér t.d. stað í borgum og á drjúgan þátt í að tryggja íbúum nægjanlega fæðu, einkum þegar aðföng bregðast. Margir íbúar í borgum lifa af landbúnaði eða hafa það sem hjáverk og þeir rækta ekki aðeins plöntur, heldur einnig sveppi eða fiska í litlum tjörnum.

 

Hænsnfuglar, geitur og önnur húsdýr eru líka algeng í borgarlandbúnaði þriðja heimsins – þrátt fyrir tíð bönn af heilbrigðisástæðum.

 

Grænmeti er ræktað alls staðar þar sem það er hægt. Það getur verið meðfram vegum, við árbakka eða á ónýttum byggingarreitum.

 

Framleiðslan er afar mikil. Samkvæmt matvælastofnun Sameinuðujóðanna, FAO, má uppskera við heppilegar aðstæður 50 kg grænmetis á einum fermetra – þ.e. fimmtán sinnum meira en við hefðbundinn landbúnað á landi.

 

Í iðnvæddum löndum vex borgarlandbúnaður einnig – á afgirtum landspildum. Þetta eru eins konar mótmæli gegn löngum flutningi á matvöru sem liður í aðgerðum gegn hnattrænni hlýnun eða hreint og beint tilraun til að gera borgirnar grænni og fegurri.

 

Grænmeti ræktað á þökum borgarinnar

 

Í New York einni saman er áætlað að til staðar séu 600 afgirtar spildur á ólíklegustu stöðum – þetta geta verið yfirgefin bílastæði eða svæði við niðurlagðar verksmiðjur. Í San Fransisco komu aðgerðarsinnar fyrir slíkum görðum fyrir framan ráðhús borgarinnar til að vekja athygli á sjálfbærni.

 

Og þrátt fyrir að við bíðum eftir fyrsta eiginlega “lóðrétta landbúnaðinum” er framleiðsla á ávöxtum, grænmeti og kryddjurtum víðsvegar í heiminum farin að aukast mikið. Þökin í borgum hafa reynst vera heppileg til ræktunar, sem skilar ekki aðeins af sér miklu af góðu grænmeti heldur bætir einnig loftið í borgum þar sem garðarnir drekka í sig hita sólarinnar.

 

Á þaki Changi General Hospital í Singapúr rækta menn ógrynni af tómötum. Singapúr reiðir sig nefnilega mikið á þakgarða.

 

Tækniháskólinn þar í borg hefur reiknað út að samanlagður fermetrafjöldi á heppilegum þökum sé um 212 hektarar. Þetta svæði kemur í góðar þarfir þar sem stjórnvöld hafa ákveðið að minnka innflutt grænmeti um 20% með innlendri ræktun. En með 4 milljónum íbúa á svæði sem er minna en Bornholm er ekki mikið um ónýtt jarðnæði. Sum háhýsi borgarinnar verða því tengd með “garðabrúm” til að bæta framleiðsluna.

 

Frá háhýsum til kjallara. Á þökum og úti í vegkanti. Hvarvetna má rækta grænmetið. Í samfélagi framtíðar mun landbúnaður vera náttúrulegur hluti borgarmyndarinnar og bóndinn getur, þegar hann tekur sér hvíld, notið útsýnisins frá 30. hæð.

 

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hvernig gátu riddarar í brynju farið á klóið?

Maðurinn

Ofurörvuð börn læra minna

Alheimurinn

Ráðgátan um dularfullu geimhringana

Maðurinn

8 vísindalegar ástæður þess að þú lyktar

Náttúran

Snjáldurmýs ganga á eigin heila

Náttúran

Háhyrningar réðust á bát og beittu áður óséðri aðferð

Tækni

Lítil kjarnarafhlaða heldur símanum gangandi í 50 ár

Læknisfræði

Kvefast ég frekar ef ég fer út með blautt hár?

Náttúran

Súrefni: Hvað er súrefni – og er hægt að fá of mikið af því?

Náttúran

Nú gætum við fundið leynilegar tímavélar alheimsins

Maðurinn

Heilasérfræðingar: Ástin og vináttan verðlauna heilann

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is