Langtímaáhrif Covid-19

Vísindamenn þekkja nú Covid-19 talsvert betur en í upphafi: Margir óttast hins vegar langtímaveikindi í kjölfarið og þau eru enn ekki þekkt nema að takmörkuðu leyti. Hér kemur það sem nú er vitað um þessi langtímaáhrif.

BIRT: 25/11/2020

LESTÍMI:

4 mínútur

Hve margir verða fyrir langtímaáhrifum?

Samkvæmt einni þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið finna 10-20% fyrir langtímaáhrifum mánuði eftir veikindin og 1 af hverjum 45 finnur enn fyrir þeim eftir þrjá mánuði.

 

Tölurnar geta þó verið miklu hærri séu langtímaáhrifin rannsökuð í heild. Í rannsókn sem náði til 110 enskra Covid-sjúklinga sögðust 74% finna fyrir áhrifum sem ekki voru beinlínis mælanleg, svo sem óeðlilegri þreytu, andnauð eða vöðvaverkjum en slík einkenni eru erfið viðfangsefni í vísindarannsókn.

Jafnvel sex vikum frá upphafi geta sést ummerki eftir veiruna í lungum

Sjálft fyrirbrigðið „eftirköst“ eða „langtímaáhrif“ er skilgreint sem viðvarandi áhrif sem halda sér eftir sýkingu af völdum veirunnar SARS-CoV-2. Eftirköstin geta gengið yfir eða orðið langvarandi, eins og þekkt er eftir t.d. heilahimnubólgu og kossageit sem geta leitt til ólæknandi síþreytu.

 

Fólki með langtímaáhrif má skipta í tvennt:

 

 • Fólk sem finnur langvarandi og mælanlega sköddun á lungum, hjarta, nýrum eða heila.

 

 • Fólk sem finnur til mjög hamlandi einkenna án mælanlegrar sköddunar á líffærum.

 

Það er einkum síðarnefndi hópurinn sem veldur vísindamönnum heilabrotum. Margir sjúklingar lýsa breytingunum frá veikindum yfir í langtímaáhrif þannig að það dragi úr verstu einkennunum en þau hverfi ekki alveg. Aðrir sjúklingar lýsa nýjum einkennum sem ekki voru til staðar meðan veikindin gengu yfir.

Hvaða eftirköstum get ég búist við eftir Covid-19?

Glatað lyktarskyn er áberandi sem langtímaáhrif eftir Covid-19.

Stuttir göngutúrar soga alla orku úr líkamanum og heilinn gefst upp við að leysa úr jafnvel einföldum viðfangsefnum. Þetta hefur reynst veruleiki margra löngu eftir greiningu.

 

Samkvæmt rannsóknum koma algengustu eftirköstin fram sem:

 

 • Hósti
 • Öndunarerfiðleikar
 • Mikil þreyta
 • Eymsli í liðum og vöðvum
 • Höfuðverkur

 

En listinn yfir skrásett langtímaáhrif er langur og þar má m.a. finna einbeitingarörðugleika og svefnleysi en líka atriði á borð við hárlos, húðertingu og jafnvel sykursýki.

 

Vísindamenn hafa sérstaklega fylgst með truflunum á bragð- og lyktarskyni sem talið er að allt að 87% Covid-sjúklinga finni fyrir og gætir enn hjá 10% sjúklinga fjórum vikum eftir greiningu samkvæmt nýrri rannsókn.

 

Þessar tölur fela ekki aðeins í sér missi bragð- eða lyktarskyns, heldur líka brenglun en það felur m.a. í sér að fólk finnur lykt af einhverju sem ekki er til staðar, t.d. sígarettureyk eða holræsa- eða rotnunarlykt.

Hver er ástæða langtímaveikinda eftir Covid-19?

Ástæða heimsfaraldursins, veiran SARS-CoV-2, hefur lengi verið þekkt fyrir margvíslegar og alvarlegar birtingarmyndir í sjúkdómsferlinu. En ástæður langtímaveikinda í kjölfarið hafa ekki verið rannsakaðar að fullu.

 

Að líkindum eru orsakavaldarnir margvíslegir varðandi lyktarskynið og telja bandarískir vísindamenn sig hafa fundið ástæðuna, samkvæmt nýrri rannsókn.

Kórónuveiran sýkir vef umhverfis taugafrumur.

 1. Í lyktarkólfinum komast veirur inn í nærfrumur 
 2. Veirurnar leggjast harkalega á þekjustoðfrumuverur í nefholinu 
 3. Í öndunarveginum ræðst veiran inn í svonefndar grunnfrumur 

 

Þessar frumur bólgna og klemma að taugabrautunum sem fyrir bragðið ná ekki að bera ilmboð til heilans. Í sumum tilvikum skaddast taugafrumurnar svo mikið að nýjar þurfa að myndast og tengjast til að lyktarskynið endurheimtist.

SARS-CoV-2 kemst inn í líkamann í nefi og munnholi. Nánar tiltekið kemst veiran inn í frumu með því að tengjast tilteknum prótínum á yfirborði frumnanna, svonefndum ACE2-viðtökum. Bandarísku vísindamennirnir komust að því að einmitt þessi prótín eru algeng á þeim frumugerðum sem mynda vefi umhverfis lyktartaugar.

 

Mögulega getur veiran valdið varanlegum skaða í þessum tilvikum, jafnvel þótt hún hafi ekki ráðist á sjálfar taugafrumurnar.

 

Á jákvæðu hliðinni er þó sú staðreynd að þessar frumugerðir jafna sig en það getur tekið allt upp í tvö ár.

 

Á ferli eru líka hugmyndir um að ónæmiskerfið haldi hernaði sínum áfram vegna þess að veiran hafi skilið eftir sig ummerki í frumum líkamans. Skannamyndir hafa líka afhjúpað varanlega sköddun í lungum hjá þeim sjúklingum sem harðast urðu úti og það getur valdið langvarandi veikindum.

Hverjir eiga helst á hættu að fá langtímaveikindi?

https://www.youtube.com/watch?v=ulJSEo2fWvA&feature=emb_title

Læknavísindin hafa öðlast nógu góðan skilning á eftirköstum Covid-19 til að geta nú þegar, tiltölulega snemma á faraldursskeiðinu, sagt fyrir um hverjir eigi líklegast á hættu að fá langvinn eftirköst.

 

Eftir stóra rannsókn, þar sem 4.000 sjúklingar í ýmsum löndum hafa greint frá eftirköstum í gegnum símaapp, hafa vísindamennirnir getað bent á fimm einkenni sem tiltölulega snemma virðast geta bent til langvarandi eftirkasta eftir Covid-19:

 

 1. Þreyta – 97,7% sjúklinga sem glíma við eftirköst.
 2. Höfuðverkur – 91,2%.
 3. Öndunarörðugleikar – 70,8%.
 4. Vöðva- og liðverkir – 64,0%.
 5. Hæsi – 53,0%.

 

Í niðurstöðunum kemur einnig fram að tilteknir hópar séu í meiri áhættu gagnvart langtímaáhrifum en aðrir.

 • Fólk yfir sjötugu.
 • Fólk í ofþyngd.
 • Yngri konur í samanburði við yngri karla.
 • Sjúklingar sem innan viku frá sýkingu sýna fimm eða fleiri einkenni.
 • Astma-sjúklingar.

 

22% sjúklinga yfir sjötugu fundu fyrir langtímaeftirköstum og 10% sjúklinga á aldrinum 18-49 ára.

 

Það þótti sérstaklega athyglisvert að yngri konur urðu fyrir alvarlegri eftirköstum en yngri karlar. Þetta er þveröfugt við niðurstöður rannsókna sem hafa sýnt að Covid-19 sé almennt hættulegri sjúkdómur fyrir karla.

 

Þessu til viðbótar getur fólk orðið fyrir eftirköstum þótt það hafi ekki veikst meira en svo að það tók varla eftir því.

 

Meginatriðið hér er það að vísindamönnum hefur tekist að benda á einkenni sem tiltölulega snemma geta bent til langvarandi eftirkasta.

Hvað vita vísindamenn enn ekki um langtímaáhrifin?

Enn sem komið er hafa vísindamenn auðvitað ekki gert öllu meira en að hefjast handa við að rannsaka möguleg eftirköst og langtímaáhrif veikinnar.

 

Í Bretlandi hyggjast menn nú t.d. safna gögnum og sýnum úr 10.000 sjúklingum í eitt ár í því augnamiði að öðlast skilning á því hvers kyns ummerki veiran skilur eftir sig í líkamanum.

 

Með því móti er vonast til að læra hvernig meðhöndla megi langtímaeftirköstin og koma í veg fyrir að veiran haldi áfram að hafa áhrif löngu eftir að veikindin eru yfirstaðin.

 

Síðast en ekki síst vilja læknar afhjúpa allt sjúkdómsferlið frá upphafi til enda og fá að vita hve lengi leifar veirunnar er að finna í líkamanum. Eftir SARS-farsóttina 2003 hafði ríflega helmingur af 55 rannsökuðum sjúklingum enn ekki náð aftur fullri hæfni til að koma súrefni úr lungunum út í blóðið heilum tveimur árum eftir innlögn á sjúkrahús.

BIRT: 25/11/2020

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is