LED-ljós sundra kórónuveirum
Úti við sjóndeildarhring má nú greina nýtt og haldgott vopn í baráttunni við kórónuveiruna. Rannsóknir á útfjólublárri geislun vísa veg að nýrri tækni sem drepur kórónuveirur í lofti, á yfirborði og húð af öryggi og án hættu.
Þegar sólin skín í heiði vita flestir að sólböð eru best í hófi. Í sólargeislunum er nefnilega útfjólublátt ljós sem getur bæði valdið bruna á húðinni og leitt af sér húðkrabbamein.
En í baráttunni við kórónuveiruna geta skaðleg áhrif líka verið jákvæð.
Nýlega uppgötvuðu vísindamenn að geislun á hluta útfjólubláa ljósrófsins, nefnt „far-UVC“ (þar sem UV stendur fyrir Ultra Violet), drepur örverur án þess að skaða húð eða augu manna. Og nú hafa menn þróað LED-díóður sem drepa örverur með útfjólubláu ljósi á þessu tíðnisviði.
Þar með er brautin rudd fyrir nýtt og haldgott vopn gegn kórónuveirunni.
Sjáðu hvernig far-UVC drepur bakteríur og veirur án þess að skaða húðina:
Eyðileggur DNA á leið sinni
Útfjólublátt ljós (UV) skiptist gróflega í þrjá flokka eftir tíðnisviðum: UVA, UVB og UVC.
A- og B-flokkarnir eru á lengri bylgjulengdum, geislar sem komast í gegnum húð og geta skaddað erfðaefnið (DNA) og til lengri tíma litið valdið krabbameini.
Útfjólublátt ljós í C-flokknum getur skaðbrennt húð á fáeinum sekúndum en til allrar lukku hindra ósonsameindir í gufuhvolfinu einmitt þessa geislun og hún nær ekki til jarðar.
Manngert UVC-ljós er nú þegar notað til að sótthreinsa fleti, t.d. á sjúkrahúsum og þá notuð sjálfkeyrandi tæki.
Aðferðin er líka vel þekkt í vatnsveitum enda hefur víða þurft að bana örverum í drykkjarvatni allt síðan upp úr 1950. Þessi tækni hefur hins vegar hingað til verið of hættuleg fyrir fólk og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin varaði nýlega við því að nota útfjólublátt ljós gegn kórónuveirunni.
En alveg á enda útfjólubláa ljósrófsins, á bylgjulengdum sem eru ekki nema 208-230 nanómetrar, eru geislar sem ekki komast gegnum efsta lag húðarinnar. Það er þetta sem kallast far-UVC. Þetta ljós nær hins vegar auðveldlega að bora sig í gegnum hinar örsmáu kórónuveirur og sundra erfðaefninu sem þar liggur.
Rannsóknir hafa líka sýnt að far-UVC ræður við að drepa bæði hinar hættulegu MRSA-bakteríur sem eru lyfjaþolnir staffýlókokkar og inflúensuveirur í lofti.
LED-ljós drepa veirur á 30 sekúndum
Jafnframt hefur bandarískum vísindamönnum tekist að þróa LED-díóður sem gefa frá sér dauðhreinsandi UVC-ljós og kóreskum samstarfsaðila þeirra tókst að sanna að LED-díóður geti drepið 99,9% af kórónuveirum á 30 sekúndum. Útfjólublátt ljós hafði áður reynst áhrifaríkt gagnvart kórónuveirunni sem olli SARS.
Í LED-díóðum er straumur leiddur í gegnum mismunandi efni. Í nýju UVC-díóðurnar notuðu vísindamennirnir hjá Kaliforníuháskóla í Santa Barbara álgallíumnítríð (AlGaN) ásamt kísilkarbíði (SiC) sem myndar svipaða kristallabyggingu frumeinda. Því líkari sem uppbygging efnanna er, því afkastameiri verður díóðan.
Díóðurnar eru ekki aðeins smærri, traustari og endingarbetri en hefðbundir kvikasilfurs-UVC-lampar, heldur líka mun ódýrari.
Það á þó óhjákvæmilega eftir að líða talsverður tími áður en við getum farið að ganga með t.d. far-UVC-vasaljós sem gæti komið í staðinn fyrir handspritt. En til að byrja með hafa vísindamennirnir stungið upp á að nýju LED-ljósin mætti setja t.d. í deilibíla, þar sem sjálfkrafa kviknaði á þeim þegar bíllinn stæði tómur.