Tími stórra sólfangara sem lagðir eru á þök eða veggi gæti senn verið á enda. Vísindamenn við Efna- og verkfræðideild Georgia-tækniháskólans hafa nefnilega þróað tækni til að nota ljóstrefjar, eins og þær sem við þekkjum nú í ljósleiðurum, til að fanga sólarljósið og umbreyta í orku. Þar með verður unnt að minnka sólfangara til mikilla muna.
Ljóstrefjarnar eru þaktar nanólagi úr zínkoxíði og þar yfir kemur litnæmt ljósfangaraefni. Þegar sólargeislarnir skella á ljóstrefjunum eru þeir leiddir áfram inn í hárfínan streng þar sem áhrif þeirra á litasameindir valda efnaferli sem myndar rafstraum. Ljóstrefjarnar eru um sexfalt afkastameiri við að framleiða rafmagn en þeir sólfangarar sem nú eru í notkun. Trefjarnar eru að auki einkar ódýrar í framleiðslu, mjög sveigjanlegar og sé þeim komið fyrir strax við byggingu húss, mega þær heita ósjáanlegar.