Læknisfræði – Lyf
Lestími: 2 mínútur
Lyfjafyrirtækið Novo Nordisk fékk fyrir skemmstu leyfi fyrir nýju lyfi sem talið er geta valdið straumhvörfum í baráttunni við offitu.
Vikulegur skammtur af stungulyfinu Wegovy dregur úr matarlyst sjúklinganna og niðurstöðurnar lofa góðu:
Tilraunaþátttakendurnir misstu í heildina 17-18 hundraðshluta líkamsþyngdar sinnar og þyngdartapið entist allt tímabilið sem tilraunin stóð yfir, þ.e. í 68 vikur alls.
Leyfi hefur fengist fyrir Wegovy í Bandaríkjum fyrir alla offitusjúklinga sem þjást af sykursýki 2 eða eru með of háan blóðþrýsting.
Leyfisveitingin í Bandaríkjunum er talin munu greiða götu lyfsins til annarra hluta heimsins, þar sem mikill heilsufarsvandi stafar af offitu.
Um 650 milljónir manna þjást af alvarlegri offitu. Þegar á heildina er litið þjást fleiri af offitu en vannæringu í heiminum.
Í Bandaríkjunum einum er rösklega þriðjungur íbúanna með líkamsþyngdarstuðul yfir 30 og teljast fyrir vikið haldnir „alvarlegri offitu“. Í Evrópu er „aðeins“ um að ræða 15% íbúanna en hlutfallið hækkar stöðugt.
Með því að lækka líkamsþyngdarstuðulinn um 5-10% meðal þeirra sem skilgreindir eru með offitu eða alvarlega offitu, mætti minnka til muna hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum og það er í þessu sambandi sem miklar vonir eru bundnar við nýja lyfið.
Wegovy virkar á þann hátt að það líkir eftir hormóninu GLP-1 sem hefur áhrif á þær stöðvar heilans sem stjórna matarlystinni. Miðað við önnur lyf á markaðinum, leiðir Wegovy af sér tvöfalt til þrefalt meira þyngdartap og þess má geta að þyngdartapið virðist vara meðan á lyfjameðferðinni stendur.
Líkt og við á um lyf sem vinna bug á of háum blóðþrýstingi er ætlunin að meðferðin með Wegovy sé viðvarandi.
Þetta „nýja“ lyf er í raun alls ekki alveg nýtt. Virka efnið í Wegovy kallast semaglútíð en árið 2017 var veitt leyfi fyrir notkun þess gegn sykursýki 2. Sem stendur standa yfir tilraunir með lyfið í meðhöndlun á heilahrörnunarsjúkdóminum alzheimer.
Birt 24.08.2021
Nanna Andersen