Uppfinningar sem auðvelduðu lífið
Tækni þróaðist nokkuð hratt í Evrópu á miðöldum.
Ein mikilvægasta uppfinningin var hjólplógurinn sem gerði bændum kleift að plægja stærri akra á skemmri tíma.
Fyrir bragðið varð uppskera mun meiri en áður hafði tíðkast.
Meðal annarra merkra uppfinninga má nefna spunarokkinn, klukkuna, aktygi fyrir dráttardýr, ístaðið, miklar endurbætur á vindmyllum og svo auðvitað prentlist Johanns Gutenberg 1450.
Landbúnaðurinn gaf meiri uppskeru
Það var reyndar ekki bara tæknin sem var bændum hliðholl á miðöldum.
Í Norður-Evrópu hafði loftslag lengi verið kalt og rakt en hitastig hækkaði á tímabilinu 950-1250 og ásamt betri tækni jókst landbúnaðarframleiðsla því mikið.
Aukið magn matvæla gerði fólksfjölgun mögulega og á árabilinu 1100-1348 tvö- eða þrefaldaðist íbúafjöldi álfunnar.
Íbúum Englands fjölgaði úr tveimur milljónum eða svo 1086 upp í 3,8-7,2 milljónir um 1300.
Hjólin gerðu plóginn stöðugri og hann lét betur að stjórn.
Verslun opnaði veröldina
Þótt landafundir tilheyri nýöldinni voru forvitnir ævintýramenn á ferð og flugi um ókunn lönd.
Krydd og silki frá Austurlöndum urðu vinsælar lúxusvörur í Evrópu og verslunarleiðir opnuðust og eftir þeim bárust bæði vörur og ný þekking.
Ítalskir kaupmenn lærðu t.d. verslunarlög, bókfærslu og bankastarfsemi af arabískum kaupmönum sem voru langt á undan evrópskum í þróun.
Byggingarlistin opnaði fyrir ljósið
Kirkjugestir í Saint-Denis kirkjunni hljóta að hafa orðið undrandi þegar þeir sáu litríkt ljós skína í gegnum 10 metra háa glugga í kórnum.
Um miðja 12. öld var þessari kirkju, skammt frá París, breytt og hún umbyggð í gotneskum stíl. Hún hefur síðan talist marka tímamót í byggingarsögu Evrópu.
Byggingameistarar miðalda hurfu frá litlum gluggum og dimmum kirkjum fyrri tíma.
Í staðinn gnæfðu byggingar til himins og margar standa enn.
Með Saint-Denis kirkjunni var rómverski stíllinn yfirgefinn og gotneskur stíll tók við.
Hreinlæti var í hávegum haft
Fram eftir 14. öld var almennt hreinlæti nokkuð gott.
Fólk þvoði sér daglega um hendur og ekki var óalgengt að fara í bað tvisvar í mánuði.
Þetta breyttist undir lok miðalda, þegar kirkjan lagðist gegn hreinlæti á þeim forsendum að það gæti auðveldlega leitt til syndugs lífernis.
Réttaröryggi var bætt – fyrir suma
Eftir margra ára togstreitu við aðalinn, neyddist konungur Englendinga til að skrifa undir réttindaskjalið Magna Carta árið 1215.
Magna Carta takmarkaði m.a. rétt konungs til að leggja geðþóttaskatta á þá sem áttu miklar jarðeignir og tryggði líka rétt allra „frjálsborinna“ manna til réttarhalda og dóms áður en til refsingar kæmi.
Þótt Magna Carta tryggði í rauninni aðeins rétt þeirra sem áttu stærstar landareignir, telst skjalið nú ein af undirstöðum almenns réttaröryggis.
Fyrstu háskólarnir
Fyrsti háskóli sögunnar var stofnaður í Bologna á Ítalíu árið 1088. Á næstu öldum risu háskólar víða í Evrópu.
Þessar nýju menntastofnanir áttu það sameiginlegt að vera stofnaðar af kennurum og nemendum í sameiningu. Stofnendurnir vildu öðlast frelsi frá klaustrunum sem fram að því höfðu verið miðstöðvar allrar þekkingar.
Aðalfagið var eftir sem áður guðfræði en í háskólunum var líka kennd heimspeki ásamt lögfræði og læknisfræði.
Það leið því ekki á löngu áður en konungar gátu skipað vel lærða embættismenn sem sótt höfðu þekkingu utan klaustranna. Vissulega hafði páfinn lagt blessun sína yfir skólana en þeir voru þó ekki eign kirkjunnar.
Í evrópskum háskólum var alls staðar talað sama tungumál: latína.
Lestu meira:
Jeffrey L. Singman: The Middle Ages, Sterling New York, 2013.
Chris Wickham: Medieval Europe, Yale University Press, 2016