Heilasjúkdómurinn alsheimer er algengasti heilabilunarsjúkdómur sem um getur en vísindamönnum hefur enn sem komið er ekki tekist að þróa rétta bóluefnið.
Nú eru í þann veg að hefjast fyrstu tilraunirnar á mönnum en þeim er ætlað að sannreyna öryggi og áhrif væntanlegs nefúða gegn þessum taugahrörnunarsjúkdómi.
Tilraunirnar marka tímamót
Vísindamenn við Brigham and Women sjúkrahúsið í Boston í Bandaríkjunum hyggjast gera tilraunir með bóluefnið á 16 sjúklingum á aldrinum 60-85 ára, eftir 20 ára tilraunir með bóluefnið.
Ef marka má fremsta vísindamanninn í þessu tilraunastarfi, dr. Howard L. Weiner, markar þetta skref tímamót í viðleitni manna til að uppræta þennan sjúkdóm.
Sjúklingarnir höfðu allir fengið einhver einkenni um alsheimer snemma á lífsleiðinni og er hverjum þeirra gefnir tveir skammtar af nefúðabóluefninu með einnar viku millibili.
Jákvæðar niðurstöður í músum
Í bóluefninu er stuðst við burðarefnið prótóllín sem vísindamenn binda vonir við að muni virkja ónæmisviðbrögð líkamans með hvítu blóðkornunum sem er að finna í eitlum á hliðum hnakkans og á honum aftanverðum.
Þaðan er blóðkornunum svo ætlað að ferðast upp í heila til að ráðast til atlögu við svonefndar beta-amýlóíð-skellur sem vísindamenn álíta vera helstu orsök alsheimers.
Aðferðin sem stuðst er við í þessari tilraun hefur verið rannsökuð í þaula undanfarna tvo áratugi. Rannsóknirnar leiddu í ljós að aðferðin gat bæði komið í veg fyrir og læknað alsheimer í músum.
Vísindamenn benda hins vegar á að grundvallarmunur sé á músum og mönnum. Þegar alsheimer á í hlut, hefur fyrri reynsla leitt í ljós að jákvæðar niðurstöður hvað mýs snertir þurfa ekki endilega að eiga við um menn.
Taugasérfræðingurinn og stjórnandi tilraunarinnar, dr. Howard L. Weiner.
Búist við gífurlegri alsheimer-aukningu
Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO, þjást um 55 milljónir manna um gjörvallan heim af heilabilun og gert er ráð fyrir að fjöldinn aukist upp í 78 milljónir árið 2030 og alls 139 milljónir árið 2050.
Vísindamannateymið sem stendur fyrir rannsókninni í Brigham and Women sjúkrahúsinu, gerir ráð fyrir að koma megi í veg fyrir 40 hundraðshluta allra tilfella með breyttum lifnaðarháttum.
Meðal þeirra breytinga sem læknar leggja til eru hreyfing, heilnæm fæða, svo og aukin andleg og félagsleg virkni.
Vísindamenn eru byrjaðir á þessum fyrsta hluta tilraunarinnar til þess að tryggja að bóluefnið sé hættulaust fólki. Ef allt fer að óskum mun næsta stig rannsóknarinnar felast í mati á áhrifum þess.