Með því að mata tölvu á upplýsingum um heilavirkni tókst hópi kanadískra vísindamanna að greina hvenær þátttakendur í tilraun horfðu á andlit og hvenær ekki.
Rafboðavirkni í heilanum breytist örsnöggt, þegar við sjáum mennskt andlit, samkvæmt þessum tilraunum við Toronto Scarborough-háskólann í Kanada.
Tölvan þekkti heilabylgjumynstur
Í einni tilrauninni voru þátttakendur látnir horfa á flöktandi skjá og heilabylgjur þeirra mældar með svonefndri EEG-tækni.
Skyndilega birtist svo andlitsmynd á skjánum í stað flöktsins og samstundis breyttust heilabylgjurnar og mynduðu nýtt mynstur. Um leið og andlitið hvarf af skjánum færðist heilavirknin í sama horf og áður.
Nærmynd af EEG-skanna með rafóðum.
Vísindamennirnir endurtóku tilraunina og mötuðu nú tölvu á EEG-mynstrunum ásamt þeim andlitsmyndum sem sýndar höfðu verið.
Á grundvelli þessara upplýsinga lærði tölvan að þekkja heilabylgjumynstrið sem myndaðist þegar andlit birtist á skjánum.
Lesa hugsanir
Vísindamennirnir gátu nú snúið tilrauninni við og látið tölvuna greina hvenær þátttakendur sáu andlit og hvenær ekki. Þetta er í fyrsta sinn sem tekist hefur að ná þeim árangri með EEG-tækninni.
Til lengri tíma litið vonast vísindamennirnir til að geta fínslípað tæknina, þannig að úr heilabylgjunum megi lesa hvað verið er að hugsa, muna eða ímynda sér. Það kynni að veita fólki, sem ekki getur tjáð sig með neinu móti, ómetanlegt tækifæri til að hafa tjáskipti við umheiminn.
Örsnögg greining andlits
Tilraunaþátttakendur voru aðeins 0,17 sekúndur að uppgötva að flöktið á skjánum hafði breyst í þekkjanlega mynd – hér andlit.