Flestir hafa heyrt á þær minnst: 5:2-föstuna, 16:8-föstuna og 12-klukkustunda föstuna.
Fyrirkomulagið á þessum föstum er sagt hafa góð áhrif á þyngdartap, bætt efnaskipti og vænlegra blóðsykurgildi.
Nú hafa vísindamenn við Westlake háskólann í Zhejiang í Kína engu að síður komið auga á sennilega aukaverkun af föstu sem vekur undrun þeirra en um er að ræða hárið á okkur.
Vísindamennirnir hafa gert margar tilraunir sem leitt hafa í ljós að fasta virðist hafa neikvæð áhrif á hárvöxt.
Fyrst í stað gerðu vísindamennirnir ýmsar tilraunir með mýs sem allur feldurinn hafði verið rakaður af.
Músunum í tilrauninni var skipt í þrjá hópa og fékk einn hópurinn aðgang að fæðu í átta tíma og voru síðan látnar fasta í 16 klukkustundir.
Í hópi tvö voru mýsnar fóðraðar annan hvern dag, þannig að þær föstuðu í 24 stundir en voru fóðraðar reglulega næstu 24 tímana.
Þriðji hópurinn samanstóð af samanburðarhópi þar sem mýsnar fengu óheft aðgengi að fæðu alla daga.
Nýtt hár óx þrisvar sinnum hægar
Mýsnar í samanburðarhópnum endurheimtu mestallan feldinn eftir 30 daga en dýrin í hópunum tveimur sem látnir voru fasta byrjuðu hins vegar smám saman að fá nýjan feld að 96 dögum liðnum.
Þegar vísindamennirnir rannsökuðu mýsnar nánar komust þeir að raun um að stofnfrumurnar í hárfrumum dýranna brugðust neikvætt við ójafnvæginu milli sindurefna og andoxunarefna líkamans.
Ójafnvægið mátti rekja til þess langa tímabils sem mýsnar voru án sykurs og fitu.
![](https://vefbordar.ams3.cdn.digitaloceanspaces.com/visindi/wp-content/uploads/2025/01/18233541/mus-faste-haar.jpg)
Efst er hópur músa sem hafði frjálsan aðgang að mat dag hvern en tveir neðstu hóparnir eru fastandi mýs. Hér má greinilega sjá hægari hárvöxt.
Stofnfrumurnar í hársekkjunum skipta stöðugt á milli sofandi og virks fasa – nýtt hár myndast þegar stofnfrumurnar skipta yfir í virka fasa.
Á meðan stofnfrumurnar í samanburðarhópnum urðu virkar eftir 20 daga eyðilögðust frumur í fastandi músum því fituvefurinn gaf frá sér frjálsar fitusýrur sem gerðu stofnfrumurnar hvarfgjarnar.
Í annarri rannsókn gerði teymið svipaða tilraun með 49 heilbrigðum fullorðnum. Hér gátu rannsakendur séð að jafnvel fastandi fólk endurheimtir ljóma hársins hægar ef það fastar.
![](https://vefbordar.ams3.cdn.digitaloceanspaces.com/visindi/wp-content/uploads/2025/01/18233545/faste-top-haar.jpg)
Þó svo að fasta geti gagnast efnaskiptunum og þyngdinni, þykir sennilegt að hún geri síður en svo gagn fyrir hárið.
Vísindamennirnir halda þó alveg ró sinni því þeir vita að þeir þurfa að gera langtum fleiri tilraunir áður en hægt verði að sannreyna nokkuð um áhrif föstu á hárvöxt í mönnum.
Vísindamennirnir hyggjast eiga samstarf við nokkur sjúkrahús á svæðinu til þess að komast yfir stærra gagnamagn sem unnt verður að vinna úr. Ætlun þeirra er jafnframt að kanna áhrif föstu á húðina og önnur líffæri líkamans.
Rannsóknarniðurstöðurnar birtust í tímaritinu Cell.