Ennþá leynist svo ótrúlega margt alveg óþekkt í sjávardjúpunum. Nýjar tegundir eru stöðugt að finnast og ný tækni afhjúpar stór neðansjávarfjöll með einstæðum vistkerfum.
Meðal nýrra tegunda eru ýmsir kynjafiskar og meðal þeirra er heil ætt svonefndra draugaháfa eða hámúsa. Draugaháfarnir lifa gjarnan á 500 metra dýpi eða meira og eru reyndar alls ekki háfar en hins vegar brjóskfiskar eins og háfarnir.
Vísindamenn við Kyrrahafsháfarannsóknadeild San Hose-háskóla í Bandaríkjunum leiða fjölþjóðlegan vísindahóp sem nú hefur uppgötvað nýja tegund þessara fiska.
Tegundin hefur hlotið nafnið Chimarea supapae til heiðurs sjávarlíffræðingnum Supap Monkolprasit sem lést 2013 en hafði varið allri starfsæfinni í rannsóknir á brjóskfiskum við Taíland.
Fiskurinn fannst árið 2018 við djúphafsrannsókn á 772-775 metra dýpi í Andamanhafi við Taíland.
Héldu að þau hefðu fundið óþekkta tegund
Í fyrstu var álitið að fiskurinn væri af áður þekktri tegund, Chimarea macrospina.
Það kom vísindamönnunum þó nokkuð spánskt fyrir sjónir að finna þessa tegund við Taíland, þar eð hún heldur sig aðallega undan ströndum Ástralíu. Og í þokkabót var fiskurinn örlítið öðruvísi útlits.
Vísindamennirnir tóku því allmörg sýni úr fiskinum og settu í DNA-greiningu. Eftir samanburð við skyldar tegundir, kom í ljós að um var að ræða alveg nýja tegund.
Chimera supapae hefur stærra höfuð og styttri trjónu en aðrir draugaháfar. Augun eru ávöl að lögun og skínandi græn.
Tegundin Chimera supapae fannst á meira en 770 metra dýpi undan strönd Taílands. Aðeins hefur fundist eitt eintak sem virðist vera ungur hængur.
Alls var Chimera supapae borinn saman við ellefu tegundir sem virtust skyldar og í ljós kom að ekki aðeins var munur á höfði og augum, heldur var brún áferð hans dekkri en annarra skyldra tegunda.
Þetta er eina eintakið sem fundist hefur og virðist vera ungur hængur. Heildarlengdin er 50,8 sentimetrar og fiskurinn getur því væntanlega orðið lengri.
Þegar Chimera supapae hefur bæst við, eru hinir svonefndu draugaháfar orðnir 54 alls.