Tækið er á stærð við tannbursta og lætur lítið yfir sér við fyrstu sýn.
En látum það ekki plata okkur, því þetta nýja áhald – iKnife – gæti gjörbylt aðferðum okkar við að greina krabbamein.
Hnífurinn greinir krabbafrumur á örfáum sekúndum með tækni sem sameinar rafskurðlækningar og massarófsmælingar.
Hnífurinn iKnife notar rafstraum til að hita vef og skera í hann. Við uppgufunina myndast reykur sem svo er greindur.
Hingað til hefur tækið verið notað til að finna krabbafrumur í sýnum úr brjóstum og heila en nýjar rannsóknir benda til að tæknin geti haft afgerandi þýðingu við að greina krabbamein í legi sem árlega greinist hjá fjölmörgum konum.
Þetta er niðurstaða vísindamanna sem birtu grein sína í vísindatímaritinu Cancer. Þar kemur fram að nákvæmni tækisins sé 89%.
Reykur afhjúpar krabbafrumur
Hnífurinn sendir lítil rafstuð í vefsýni sem tekið hefur verið og hitinn veldur uppgufun.
Reykurinn sem myndast er greindur í rófsjá sem sker úr um það hvort krabbafrumur sé að finna í sýninu.
Vísindamennirnir segja tækið gera kleift að greina krabbamein á örfáum sekúndum.
Sjáðu hvernig tæknin virkar:
Rannsóknin byggir á sýnum úr 150 konum þar sem grunur lék á legkrabbameini. Slíkur grunur getur vaknað við óreglubundnar blæðingar á breytingaskeiðinu.
Niðurstöðurnar voru bornar saman við niðurstöður hefðbundinna greiningaraðferða en þegar þeim er beitt þarf oft að bíða vikum saman eftir niðurstöðunum.