Gríska hetjan Ódysseifur var þekkt fyrir hugkvæmni sína. Það var þessi konungur frá eyjunni Íþöku sem fékk hugmyndina að Trjójuhestinum, sem réð svo úrslitum Trójustríðsins. Á heimleiðinni þurfti hann að yfirbuga 10 ára margvíslega erfiðleika áður en hann fékk aftur að sjá það ríki sem hann unni svo mjög. Þetta þekkjum við úr skáldskap Hómers, Illionskviðu og Ódysseifskviðu.
Þær voru færðar í letur á 8. – 6. öld f.Kr. og fjalla um viðburði á 12. öld f.Kr. Nú ríkir þó enginn efi um það meðal sérfræðinga að þessar bækur eru báðar skáldskapur. Þær eiga ættir að rekja til munnlegra arfsagna og kvæða sem sungin voru kynslóð eftir kynslóð. Frásagnirnar eru blanda af raunverulegum viðburðum, yfirnáttúrulegum verum og inngripum guðanna í rás viðburða. Þessar sögur hafa verið endursagðar og endurskapaðar ótal sinnum áður þær voru loks skrifaðar. Kviðurnar lýsa því ekki neinu ákveðnu samfélagi, heldur er í þeim að finna sögur margra alda, sem safnað hefur verið saman í eina samfellda sögu.
Frásögnin hefur þó hljómað raunhæf og sennileg í eyrum fólks á þeim tíma þegar kviðurnar voru skrifaðar. Í fornöld nutu kviður Hómers almennrar viðurkenningar og þær taldar sannleikanum samkvæmar. Bæði einstakar ættir og íbúar heilla borga röktu ættir og siði til hetjanna í Hómerskviðum og ferðamenn skoðuðu rústir Tróju. Og fornleifafræðingar telja reyndar að Trója kunni að hafa lagst í eyði af völdum styrjaldar um 1190 f.Kr.