Sumt fólk sækir beinlínis orku í samverustundir með öðrum, en svo er líka til fólk sem kann best við eigin félagsskap.
Sálfræðingar hafa unnið með hugtökin „extróvert“ eða „úthverfur“ og „introvert“ eða „innhverfur“ síðan geðlæknirinn Carl Jung kynnti þessi hugtök til sögunnar á þriðja áratug 20. aldar.
Nú virðast heilarannsóknir staðfesta kenningar hans á taugafræðilegum grunni. Rannsóknir sýna nefnilega að það er mismunandi hvað örvar losun hamingjuhormóna hjá því fólki sem er mannblendið (extróvert) og hinu sem er einrænt (intróvert).
Hér útskýrum við mismuninn.
Mismunandi verðlaunun heilans
Svissneski geðlæknirinn Carl Jung varð fyrstur til að skilgreina hugtök fyrir þau persónuleikaeinkenni sem ákvarða hvort fólk á betur heima í umfangsmiklu félagslífi eða í fámennum hópi traustra vina.
Þýski sálfræðingurinn Hans Eysenck þróaði kenninguna síðar áfram. Hann skýrði muninn með því að mjög mannblendið fólk hefði lægri móttökuþröskuld fyrir tilfinningar og skynhrif.
Það þarf sem sagt einfaldlega meira til að mannblendið fólk njóti ánægju en þegar einrænir eiga í hlut.
Heilaskönnun sýnir hvort þú ert extróvert eða intróvert
Heilarannsóknir nútímans sýna að þýski sálfræðingurinn var á réttri braut – allavega á dópamín, hamingju- eða vellíðunarhormón heilans þátt í mismuninum á þessum tveimur gerðum persónuleikans.
Í rannsókn einni var hópum fólks, sem annaðhvort taldist extróvert eða intróvert, sýndar myndir af náttúru og andlitum.
Með heilaskönnun gátu vísindamennirnir séð að þátttakendur, sem flokkuðust sem extróvert, sýndu sterkari viðbrögð við mannamyndunum en þeir sem töldust til intróverta hópsins.
Þetta bendir til að mannblendið fólk fái meiri örvun af því að sjá ný andlit en einrænt fólk og heilinn losi þá líka fremur dópamín við samneyti við nýja kunningja.
Þetta getur skýrt hvers vegna hinir einrænu geti kunnað ágætlega við sig í einrúmi heima á föstudagskvöldi, þegar hinir mannblendnu vilja út í félagslífið.
Einkenni mannblendinna
Hér er listi yfir einkenni þeirra sem flokkast sem extróvert.
Extróvert fólk er:
- Félagslynt
- Málgefið
- Gefið fyrir að banda höndum
- Leitandi að athygli
- Gefið fyrir að lýsa tilfinningum sínu
Extróvert fólk kann að meta:
- Nýjar áskoranir, nýtt umhverfi, nýjan félagsskap – spennu og tilbreytingu
- Að vera í miðju hringiðunnar, gjarnan í stórum hópi
- Að vera virkt
Extróvert fólk sækir orku í:
- Virkt félagslíf með öðru fólki og gjarnan mörgu fólki samtímis
Enkenni einrænna
Hér er listi yfir einkenni fólks sem flokkast sem intróvert
Intróvert fólk er:
- Langoftast hlédrægt
- Athugult
- Hugsandi
- Með fulla stjórn á tilfinningum sem það sýnir öðrum
Intróvert fólk kann að meta:
- Félagslíf í þröngum hópi eða tveggja manna tali
- Einbeita sér að einu í einu fremur en að hafa mörg járn í eldinum
- Lesa, skrifa og hugsa fremur en að tala
Intróvert fólk sækir orku í:
- Einveru og ró
Einrænir eiga auðveldara með óhlutbundna hugsun
Rannsókn frá árinu 2012 sýndi að einrænt fólk er með þykkri ennisblöð (praefrontal cortex).
Þessi hluti heilans virkjast við óhlutbundna hugsun, áætlanagerð og ákvarðanatöku – hæfni sem intróvert fólk hefur í ríkara mæli en það sem telst extróvert.
Upp í gegnum alla þróunarsöguna hafa bæði þessi persónuleikaeinkenn haft sína kosti og galla. Hinir einrænu hafa trúlega átt auðveldara með að lifa af í náttúrunni, þar eð aðhaldssöm hugsun heldur þeim frá hættulegum aðstæðum.
Hinir mannblendnu hafa á hinn bóginn verið sneggri til aðstoðar við veiðar eða söfnun matvæla þegar hart var í ári hjá ættbálknum.
En það er þó auðvitað alls ekk svo að fólk sé einfaldlega annað hvort einrænt eða mannblendið.
Hvernig fólk ber sig að við mismunandi félagslegar aðstæður ræðst af miklum fjölda mismunandi þátta, auk þess sem fjöldi fólks hefur bæði einræn og mannblendin einkenni.