Frá því NASA skaut geimsjónaukanum TESS á loft 2018 hefur hann uppgötvað mörg hundruð reikistjörnur í öðrum sólkerfum og mörg þúsund mögulegar reikistjörnur.
Sjónaukinn er búinn fjórum ofurnæmum myndavélum sem greina minnstu breytingar á ljósstyrk stjarna en slíkt bendir einmitt til að plánetu beri fyrir stjörnuna.
Einmitt þannig hefur TESS nú fundið fjarplánetu tiltölulega nálægt okkur, a.m.k. á stjarnfræðilegan mælikvarða.
Með aðstoð TESS hefur stjörnufræðingum hjá NASA sem sé lánast að finna svokallaða ofurjörð í 137 ljósára fjarlægð. Þessi fjarpláneta er sem svarar einni og hálfri jörð í þvermál og hún snýst um rauða dvergstjörnu.
Finnst í lífbeltinu
Hugtakið ofurjarðir er notað um plánetur sem eru stærri en jörðin en hins vegar minni en ísrisar á borð við Neptúnus eða Úranus.
Fyrstu ofurjarðirnar fundust á tíunda áratugnum og síðan hafa fundist meira en þúsund slíkar.
Þessi nýjasta hefur fengið heitið TOI-715 b og er sérstök að því leyti að hún er í lífbeltinu við móðurstjörnuna en í lífbeltinu er hitastigið þannig að þar gæti verið að finna vatn í fljótandi formi.
Til að vatn geti verið í fljótandi formi þurfa ýmis skilyrði að vera uppfyllt, t.d. hæfilegt gufuhvolf.
Enn sem komið er sýna mælingar þó ekki annað en það að fjarlægð plánetunnar frá stjörnunni kemur heim við að hún sé á þessu lífvænlega svæði.
Nær móðustjörnunni
Rauði dvergurinn sem plánetan snýst um er bæði massaminni og svalari en sólin okkar og lífbeltið er því miklu nær móðurstjörnunni en við sólina okkar.
Þegar reikistjarna fer fyrir stjörnu sína minnkar ljósstyrkurinn. Þetta greinir TESS sjónaukinn og þannig getur NASA uppgötvað nýjar fjarplánetur. En TESS er ekki nógu öflugur til að sjá t.a.m. upplýsingar um lofthjúp fjarpláneta.
Þegar fjarplánetur ganga á svo nálægum brautum fara þær hraðar kringum stjörnuna og þess vegna er auðveldara að finna þær þegar TESS-sjónaukinn fylgist með breytingum á ljósstyrk.
Árið á ofurjörðinni TOI-715 b er t.d. aðeins 19 dagar en á þeim tíma fer þessi fjarpláneta heilan hring kringum móðurstjörnu sína.
Reyndar álíta stjörnufræðingarnir að við stjörnuna TOI-715 gæti verið að finna eina jarðlíka plánetu til viðbótar.
Rannsóknin að baki uppgötvuninni birtist í vísindatímaritinu Monthly Notices of the Royal Astronomical Society.