Allt að 300 milljónir stöðugilda um heim allan mun gervigreind taka yfir nálægðri framtíð. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs.
En atvinnumissir bitnar ekki jafn hart á öllum atvinnugreinum og í sumum tilfellum geta starfsfólk hlakkað til þess að gervigreind muni gera starf þeirra auðveldara og skemmtilegra.
Þjónusta
Spjallmennin eru sköpuð til að svara spurningum
Fólk sem starfar við þjónustu gæti í ýmsum tilvikum þurft að hafa áhyggjur af því að missa vinnuna, því á þessu sviði mun gervigreindin án vafa hrifsa til sín mörg störf.
Hæfnin til að svara spurningum er einmitt aðalsmerki spjallmennanna og þau verða ekki í neinum vandræðum með að upplýsa viðskiptavini t.d. um gæði vöru, hvar í versluninni hana er að finna eða möguleg afsláttarkjör.
En þótt þjónustufólki fækki, verður áfram þörf fyrir fólk af holdi og blóði til að leysa flóknari vandamál.
Fjölmiðlar
ChatGPT skrifar fréttir og veðurspár
Spjallmenni á borð við ChatGPT eru einkar hæf til að skrifa texta sem byggjast á upplýsingum og eru nú þegar notuð til að skrifa t.d. veðurspár og fréttir af íþróttaviðburðum.
Fréttamiðillinn NewsGPT hefur gengið skrefinu lengra og sérhæft sig í stuttum fréttum sem einvörðungu eru skrifaðar af spjallmenni.
Enn eru spjallmennin ekki fær um að skrifa langar og frumlegri greinar en þau læra í hvert einasta sinn sem þau eru notuð.
Fjármál
Bankastarfsmenn fá hjálp við erfið viðfangsefni
Í fjármálafyrirtækjum starfar fólk m.a. við að greina lykiltölur í bókhaldi og finna fjárfestingarleiðir.
Gervigreind hentar vel til slíkra starfa þar eð tölvan er fljót að finna flókin mynstur í tölulegum upplýsingum og greina um leið ummerki þess hvernig fyrirtæki eða markaðir muni þróast.
Tæknin mun því vafalítið taka við ýmis konar rútínubundinni vinnu en getur um leið orðið mikil hjálparhella starfsmanna við mjög krefjandi verkefni.
Framleiðsla
Vélarnar taka við vinnunni í verksmiðjum
Hérlend fiskvinnsla er nærtækt dæmi um það hvernig vélasamstæður hafa þegar leyst mannshöndina af hólmi á ýmsum sviðum. Þetta hefur þegar gerst í margvíslegum iðnaði.
Gervigreindarþróunin verður fyrirsjáanlega enn öflugri á komandi tímum og ný tæki geta annast sífellt flóknari vinnu.
Innan mjög skamms tíma verður nær öll hefðbundin verksmiðjuvinna unnin af vélum og ekki þörf fyrir starfsmenn nema til að fylgjast með því að ekkert fari úrskeiðis.
Heilbrigði
Gervigreind greinir sjúkdóma
Á lækningasviðinu getur gervigreind hjálpað læknum við að greina sjúkdóma og ákvarða bestu mögulegu meðferðarúrræði fyrir einstaka sjúklinga. Áfram verður þó í höndum læknisins að meta tillögur gervigreindartækjanna og samþykkja þær eða hafna.
Gervigreind mun heldur ekki taka yfir mikið af starfi hjúkrunarfræðinga en hún getur auðveldað þeim vinnuna og létt undir með því að frumvinna skýrslur, fylgjast með lyfjagjöf og sjúkraskrám og tryggja að sjúklingnum sé sinnt í samræmi við fyrirmæli lækna.