Lifandi Saga

Oppenheimer: Hönnuður fyrstu kjarnorkusprengjunnar

Það var viðkvæmur eðlisfræðingur sem varð faðir kjarnorkusprengjunnar. Við rýnum í líðan Oppenheimers og samviskubit í sprengjukapphlaupinu gegn Hitler og þegar sveppaskýin risu til himins á eftirstríðsárunum.

BIRT: 29/07/2023

Vísifingurinn benti óhjákvæmilega beint á J. Robert Oppenheimer (1904-1967) þegar vinna þurfti sigur á nasistum í kapphlaupinu um fyrstu kjarnorkusprengjuna.

 

Oppenheimer varð leiðtogi kjarnorkuverkefnis Bandaríkjamanna, hins svonefnda Manhattanverkefnis, og um leið drifkrafturinn að smíði fyrstu kjarnorkusprengnanna.

 

Næsta skref á eftir sprengjunum sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki var vetnissprengjan, sem var enn óhugnanlegri. Þar sagði Oppenheimer stopp og var um leið settur út í kuldann og lendi líka kastljósi kommúnistaveiðara samtímans.

 

Hér fjöllum við um Oppenheimer, allt frá efnafræðistofunni í barnaskóla til kjarnorkusprengjunnar, ásamt því hvernig friðarsinninn í honum varð ofan á – en líka örlítið um Þjóðverjann Werner Heisenberg og Danann Niels Bohr.

Yfirlit

1. Undrabarnið sem hreifst af vísindum og skáldskap

 

2. Daðrið við kommúnismann

 

3. Oppenheimer í kastljósi FBI

 

4. Þess vegna hrundi kjarorkuáætlun Þjóðverja

 

5. Niels Bohr ruddi brautina fyrir kjarnorku

 

6. Manhattanverkefnið í tölum

 

7. Samviska Oppenheimers

 

8. Veröldin aldrei söm

 

9. Þetta skolast af

 

10. Fórnarlamb nornaveiðanna

Snemma morguns 16. júlí 1945 lá J. Robert Oppenheimer marflatur í byrgi í eyðimörkinni Jornada del Muerto (Dauðs manns ferð á spænsku) í New Mexico.

 

Þar starði þessi  41 árs Bandaríkjamaður í eftirvæntingu á tilraunasprengjuna, sem stóð á 20 metra háum stálturni um 9 km í suðaustri.

 

Síðustu tvö árin hafði Oppenheimer stjórnað liði um 3.500 vísindamanna í vinnunni við að smíða fyrstu kjarnorkusprengju sögunnar. Höfuðstöðvarnar voru í smábænum Los Alamos um 330 km norðan við tilraunasvæðið.

 

Undrabarnið sem hreifst af vísindum og skáldskap

Oppenheimer var í allra fremstu röð á sviði fræðilegrar eðlisfræði og þar í hópi með snillingum á borð við Albert Einstein, Niels Bohr og svo „kolleganum“ í herbúðum nasista, Werner Heisenberg.

Julius Robert Oppenheimer fæddist 22. apríl 1904 inn í gyðingafjölskyldu sem átti sér þýskar rætur.

 

Hann var óvenjugáfað barn, sem las Plató og Hómer á forn-grísku, fékkst við ljóðasmíð og var byrjaður að gera eðlis- og efnafræðitilraunir í efnafræðistofu skólans aðeins 10 ára gamall.

 

Árið 1922 fékk Oppenheimer inngöngu í Harvardháskóla. Auk efnafræðinnar, sem var hans aðalgrein, lagði þessi 17 ára fróðleiksþyrsti unglingur líka stund á heimspeki, franskar og enskar bókmenntir og sögu.

 

Eftir að hafa útskrifast frá Harvard, hellti Oppenheimer sér út í eðlisfræðina. Árið 1925 fór hann til Englands í nám við hina virtu eðlisfræðstofnum Cambridgeháskóla, Cavendish Laboratory.

 

Hann þótti skara fram í náminu, en átti öllu erfiðara uppdráttar í félagslífinu.

 

„Ég var stöðugt óánægður og hafði engan skilning á öðru fólki. Ég hafði ekki til að bera neina auðmýkt gagnvart veruleikanum,“ sagði Oppenheimer síðar um þessa ríflega tvítugu útgáfu af sjálfum sér.

 

Robert Oppenheimer lauk doktorsprófi í fræðilegri eðlisfræði við háskólann í Göttingen. Hann varði níu mánuðum í þessum þýska háskóla og sendi á þeim tíma frá sér sjö vísindaritgerðir. Það tók hann aðeins þrjár vikur að skrifa ritgerð sína um ljósröfunaráhrif á vetni og röntgengeisla.

 

Daðrið við kommúnsimann

Á ungdómsárum Oppenheimers voru hugmyndir um kommúnískt samfélag mikið ræddar. Heimskreppan upp úr 1930 lék fólk grátt og neyð fátæks fólks gríðarleg. Kommúnisminn var því ekki sú fjarlæga útópía sem hann varð á dögum kalda stríðsins eftir seinni heimsstyrjöld.

23 ára gamall sneri Oppenheimer heim til Bandaríkjanna árið 1928 og fékk stöðu aðjúnkts við tvo kaliforníska háskóla, Caltech í Pasadena og Berkeley í San Francisco.

 

En frítíma sínum varði hann á búgarði í New Mexico. Honum þótti ámóta vænt um eyðimörkina og eðlisfræðirannsóknastofuna. „Stóru ástirnar mínar í lífinu eru New Mexico og eðlisfræðin. Til skammar að ekki skuli hægt að sameina þetta tvennt,“ sagði hann.

 

Árið 1936 bættist þriðja ástin við í gervi hinnar fallegu Jean Tatlock. Hún var meðlimur í Kommúnistaflokki Bandaríkjanna (CPUSA) og ekki leið á löngu þar til vinstripólitíkin var líka orðin snar þáttur í lífi Oppenheimers.

 

Sambandið við Jean Tatlock stóð ekki lengi, þótt þau héldu vináttu allt til 1944 þegar hún svipti sig lífi. Árið 1939 kynntist Oppenheimer þýsk-bandaríska líffræðingnum Katherine „Kitty“ Vissering Puening, sem líka var meðlimur í kommúnistaflokknum. Þau giftu sig 1940.

 

Oppenheimer í kastljósi FBI

Fyrstu línurnar í yfirliti safnmöppu FBI um Oppenheimer ná aftur á fjórða áratuginn. Síðar tútnaði eftirlit FBI með honum svo ofboðslega út að heita mátti að fylgst væri með hverju skrefi.

Að því er Oppenheimer sagði sjálfur stóð daður hans við kommúnismann stutt yfir en var á hinn bóginn mjög ákaft og hann gekk aldrei í Kommúnistaflokk Bandaríkjanna.

 

Tengsl hans við vinstrið sköpuðust bæði gegnum eiginkonuna Kitty og bróður hans, Frank Oppenheimer og urðu til þess að FBI fylgdist vel með þessum eðlisfræðingi sem nú var orðinn prófessor við háskólann í Berkeley.

 

Frá árinu 1941 var heimilið hlerað. Skjalasafn FBI um Oppenheimer varð mörg þúsund síður og niðurstaðan sú að hann hefði samúð með málstað kommúnista.

 

Innihald safnmöppunnar dugði þó ekki til að fá þennan snjalla vísindamann rekinn úr starfi.

 

Fáeinum mánuðum eftir að árás Japana á Pearl Harbor þann 7. desember 1941, sem leiddi til þátttöku Bandaríkjanna í styrjöldinni var Oppenheimer ráðinn sem tæknilegur yfirmaður stærsta vísindaverkefnis sem nokkru sinni hafði verið ráðist í.

 

Það var Franklin D Roosevelt sem ýtti hinu svokallaða Manhattanverkefni úr vör og samhæfing þess fór fram með leynd á Manhattan í New York – þannig kom nafnið til sögunnar.

 

Markmiðið var að þróa fyrstu kjarnorkusprengju sögunnar áður en Þjóðverjum tækist það.

 

Þess vegna hrundi kjarorkuáætlun Þjóðverja

Bandamenn taka niður þýskan kjarnakljúf árið 1945. Hann var falinn í helli við bæinn Haigerloch í suðvesturhluta Þýskalands.

Óttinn við að Þjóðverjar kæmu sér upp dómsdagssprengju var drifkrafturinn að baki Manhattanverkefnisins í Bandaríkjunum. Bandarísku vísindamennirnir áttu að ná því markmiði á undan Þjóðverjum. Orðrómurinn að Þjóðverjar væru á endasprettinum reyndist hins vegar mjög fjarri sanni.

 

1. Mikilvægt mannvirki eyðilagt

Þýsku vísindamennirniri – undir forystu Werners Heisenberg – réðu yfir kjarnakljúf, sem varðveittur var í klettabyrgi og notaði þungt vatn (D2O). Það var framleitt í Vemork-verinu í Noregi, sem hersetinn var af Þjóðverjum, en 28. febrúar 1943, tókst norskum hermönnum, sem sendir voru frá Bretlandi, að vinna á því næg skemmdarverk til að gera það óstarfhæft.

 

2. Þýsku vísindamennirnir hikuðu

Þjóðverjum tókst að kljúfa frumeindir strax árið 1938, en 1942 voru þeir orðnir langt á eftir Bandaríkjamönnum í kapphlaupinu. Þýsku vísindamennirnir höfðu meiri áhuga á að nýta kjarnorku til uppbyggingar Þýskalands að stríðinu loknu.

 

3. Fjárveitingar voru allt of litlar

Bandaríkjamenn vörðu milljörðum dollara í þróun kjarnorkusprengjunnar og alls störfuðu um 130 þúsund manns að verkinu. Þýsku vísindamennirnir voru ekki nema rúmlega 100 talsins. Fjárveitingar voru líka hégómi í samanburði við þær bandarísku. Reiknað í dollurum veittu Þjóðverjar aðeins um milljón dollurum til kjarnorkurannsókna í stríðinu.

Niels Bohr ruddi brautina fyrir kjarnorku

Oppenheimer ásamt æðsta yfirmanni Manhattanverkefnisins, Leslie Grove hershöfðingja. Vinnan lagðist þungt á þennan grannvaxna vísindamann og um tíma var hann kominn niður í 52 kg.

Fræðilega séð byggðist tilurð kjarnorkusprengjunnar á vísindagrein sem danski eðlisfræðingurinn Niels Bohr skrifaði árið 1939.

 

Í grein sinn hélt Bohr því fram að unnt væri að framleiða nánast óskiljanlega mikla orku með réttu magni af ísótópinu úran-235, sem er fremur sjaldgæf útgáfa úrans.

 

Spurningin var hversu mikið þyrfti til og það hafði Oppenheimer reiknað út. Niðurstaða hans var sú að 100 kg af úran-235 dygðu til að valda keðjuverkun, sem væri nógu öflug til að valda sprengingu. Síðar kom í ljós að til að sprengja kjarnorkusprengju með úrankjarna þarf ekki nema 64 kg.

 

Í huga Leslies Grove, æðsta yfirmanns Manhattanverkefnisins, komst enginn efi að. Hvort heldur Oppenheimer væri nú hliðhollur kommúnistum eða ekki, þá gætu Bandaríkjamenn ekki smíðað kjarnorkusprengju án hans.

 

Manhattanverkefnið í tölum

Prufusprengjan „The Gagdet“ skömmu fyrir sprengingu.

Manhattanverkefnið stóð yfir frá 1942 til 1945 og að því vann nánast óteljandi fjöldi eðlisfræðinga, efnafræðinga, verkfræðinga og stúdenta, sem ráðnir voru til leynilegra stöðva víðs vegar um Bandaríkin.

 

Bestu verkfræðingarnir og eðlisfræðingarnir héldu til í leynilegum búðum utan við Los Alamos í eyðimörkinni í New Mexico. Þar stýrði Oppenheimer gangverkinu sem vísindalegur leiðtogi.

 

Búðirnar voru teknar í notkun í mars 1943 og á einu og hálfu ári fjölgaði starfsmönnum þar úr um 100 í um 3.500.

 

  • 2,2 milljarðar dollara var sú upphæð sem bandaríska alríkisstjórnin setti í þróun kjarnorkusprengjunnar.

 

  • 130.000 manns voru ráðin í vinnu við Manhattanverkefnið á árunum 1942-1945.

 

  • Þrjú aðalsvæði mynduðu rammann um vinnuna að Manhattanverkefninu: Oak Ridge í Tennessee, Hanford í Washington og Los Alamos í New Mexico.

 

  • 64 kg af úran-235 framleiddu risaverksmiðjurnar K-25 og Y-12 í Oak Ridge í Tennessee fyrir kjarnorkusprengjuna „Little Boy“. Í Hanford-verksmiðjunni, sunnan við Seattle í Washingtonríki, var framleitt óþekkt magn í prófsprengjuna „The Gadget“ og kjarnorkusprengjuna „Fat Man“.

 

  • 18.000 kjarnorkuodda áttu Bandaríkjamenn í lok sjötta áratugarins.

Samviska Oppenheimers

Persónuleiki Oppenheimers var ekki þess eðlis að hægt væri að líta á hann sem sjálfkjörinn leiðtoga. Þvert á móti var sagt um hann að hann væri ekki einu sinni fær um að stjórna vinnu og verkaskiptingu í pylsuvagni.

 

Engu að síður minntust margir þeirra eðlisfræðinga, sem áttu náið samstarf við Oppenheimer, hans með hlýju og sögðu hann hafa virst allsstaðar nærverandi og hug hans afar frjóan og gefandi.

 

Oppenheimer hafði á þessum tíma engar efasemdir um kjarnorkuvopn. Á námstíma sínum i Göttingen hafði hann kynnst háu þekkingarstigi og faglegum metnaði þýsku vísindamannanna. Og sem gyðingur þurfti hann ekki eitt augnablik að efast um botnlausa illsku nasistastjórnarinnar.

 

Einn af gömlum skólafélögum Oppenheimers, Isidor Rabi, harðneitaði uppástungu hans um að taka þátt í Manhattanverkefninu. Rabi sagðist hreinlega ekki vilja að þrjú hundruð ára rannsóknir á sviði eðlisfræði enduðu með tilurð gereyðingarvopna. Þessu svaraði Oppenheimer án nokkurs samviskubits:

 

„Frá mínu sjónarhorni snýst þetta fyrst og fremst um geta á stríðstímum þróað nýtt vopn sem geti vegið þungt. Mér sýnist ekki að nasistarnir hafi gefið okkur neinn annan kost en að fylgja þessari þróun allt til enda.“

 

Veröldin aldrei söm

Sjónvarpsklippa frá 1965, þar sem Oppenheimer lýsir tilfinningum sínum og hugsunum eftir hina vel heppnuðu tilraunasprengingu 1945.

Þann 30. apríl 1945 svipti Adolf Hitler sig lífi í byrgi sínu og átta dögum síðar gáfust Þjóðverjar upp. En þótt enginn vafi léki lengur á því að stríðinu yrði senn lokið, hélt bandaríska alríkisstjórnin – nú undir forystu Harrys S. Truman – áfram vinnunni við gerð kjarnorkusprengjunnar.

 

Tveimur og hálfum mánuðum síðar, þann 16. júlí 1945, lá nú Oppenheimer flatur í byrgi sínu í eyðimörkinni í New Mexico beið í ofvæni eftir því hvort tilraunasprengjan hans reyndist óvirk eða myndi sprengja veröldina inn í kjarnorkuöld.

„Ég er orðinn sjálfur Dauðinn, sá sem eyðir veröldum.“
J. Robert Oppenheimer 1965.

Klukkan 05:29:45 sprakk tveggja og hálfs tonns þunga tilraunasprengjann í gereyðileggjandi keðjuverkun.

 

Í kjölfarið reis tröllvaxin eldkúla til himins og lýsti himininn skjannahvítan. Gríðarlegur hitastormur breiddist út til allra átta og 40 sekúndum eftir sprenginguna fylgdi þrýstibylgja og ofboðslegur hvellur sem heyrðist í 320 km fjarlægð.

 

Það var bæði með stolti og skelfingu sem Oppenheimer horfði á 12 km hátt sveppaský sem breiddi úr sér yfir tilraunasvæðinu.

 

Mörgum árum seinna minntist þessi bandaríski eðlisfræðingur þess að hafa hugsað: „Veröldin verður aldrei söm aftur,“ á fyrstu augnablikunum eftir sprenginguna. Og jafnskjótt ómaði gamall hindúískur texti í höfði hans:

 

„Ég er orðinn sjálfur Dauðinn, sá sem eyðir veröldum.“

 

Þetta skolast af

Fullkomin leynd hvíldi yfir Manhattanverkefninu. Konan sem hér er í forgrunni, Gladys Owens, hafði t.d. ekki hugmynd um að hún hefði starfað við auðgun úrans á styrjaldarárunum. Það rann upp fyrir henni hálfri öld síðar þegar hún fór í skoðunarferð og þekkti sjálfa sig á þessari mynd.

Eftir þessa fullkomlega heppnuðu tilraun reis Oppenheimer á fætur sem faðir kjarnorkusprengjunnar. Sléttum þremur vikum síðar, 6. ágúst 1945, varpaði bandarísk flugvél sprengjunni „Little Boy“ á japönsku borgina Hírósíma og þremur dögum síðar, 9. ágúst, sprakk „Fat Man“ yfir Nagasaki.

 

Nálægt 250.000 Japanir létu lífið og seinni heimsstyrjöldin fékk þannig voveiflegustu endalok nokkurrar styrjaldar, fyrr eða síðar.

 

„Mér líður eins og ég sé blóðugur á höndunum,“ sagði Oppenheimer við Harry S. Truman forseta, þegar hann fór í heimsókn í Hvíta húsið skömmu síðar. Sagt er að svar voldugasta manns Bandaríkjanna hafi verið ískalt:

 

„Bara rólegur, þetta skolast af undir krananum“.

 

Í barnaskap sínum hafði Oppenheimer vonast til að kjarnorkusprengjan myndi skapa frið á hnettinum

 

En sprengjan skapaði ekki nýja og betri veröld. Þvert á móti varð hún kveikjan að brjálæðislegu vopnakapphlaupi milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og markaði um leið upphafið að löngu og slítandi köldu stríði.

 

Oppenheimer varð formaður ráðgjafanefndar sem heyrði undir Kjarnorkustofnun Bandaríkjanna og beitti sér þar fyrir afvopnun ásamt því að leyndarhúpnum yrði aflétt af kjarnorkuvopnaáætlun Bandaríkjanna.

 

Hann var líka harður andstæðingur vetnissprengjunnar og varð ákafur talsmaður alþjóðaeftirlits með kjarnorkuvopnum.

 

„Án alþjóðslegs vopnaeftirlits er varanlegur friður óhugsandi, og án friðar verður kjarnorkustríð,“ sagði hann.

 

Oppenheimer lést 18. febrúar 1967, tæpra 63 ára að aldrei. Banamein hans var krabbamein í hálsi. Meira en 600 manns fylgdu honum til grafar viku síðar, þeirra á meðal Nóbelsverðlaunahafar, stjórnmálamenn, orðum skrýddir hershöfðingjar og heimsþekktir vísindamenn.

 

Meðal þeirra sem fluttu ávörp við athöfnina var bandaríski diplómatinn George Kennan, aðalhöfundur útilokunarstefnu Bandaríkjanna gagnvart Sovétríkjanna og náinn vinur Oppenheimers.

 

„Þær mótsagnir sem fylgdu stórauknu valdi mannsins yfir náttúrunni, hvíldu ekki jafnþungt á nokkrum manni og honum, valdi sem er langt umfram andlegan styrk mannsins,“ sagði Kennan og bætti við:

 

„En enginn sá heldur jafnskýrt þær hættur, sem að mannkyninu steðja vegna þessa nýja jafnvægisleysis.“

 

Fórnarlamb nornaveiðanna

Yfirheyrslur yfir Oppenheimer endurskapaðar í kvikmynd Christophers Nolan 2023. Öryggisrannsóknin stóð yfir í fjórar vikur og var lokuð almenningi. Í aðalhlutverki sem Oppenheimer er Cillian Murphy (m.a. þekktur úr Peaky Blinders).

Eftir lok seinni heimsstyrjaldar varð Oppenheimer formaður ráðgjafarnefndarinnar „General Advisory Committy“ sem heyrði undir Kjarnorkustofnun Bandaríkjanna (AEC).

 

Oppenheimer var opinskár í andstöðu sinni við þróun vetnissprengjunnar, sem hófst 1949 og var prófuð þremur árum síðar.

 

Þessi afstaða aflaði honum margra fjandmanna og þeirra á meðal var forstjóri AEC, Lewis Strauss, sem taldi vetnissprengjuna skipta höfuðmáli varðandi öryggi Bandaríkjanna.

 

„Ég get ekki unnið vinnuna mína meðan Oppenheimer tengist AEC,“ sagði Strauss við Truman forseta.

 

Árið 1954 létu Strauss og AEC framkvæma sérstaka öryggisrannsókn á Oppenheimer. Nú átti að ganga úr skugga um hvort hann hefði einhverntíma verið meðlimur í Kommúnistaflokki Bandaríkjanna.

 

Við yfirheyrslur var aldrei sannað að Oppenheimer hefði verið meðlimur í flokknum og gæti þar með talist ógna öryggi ríkisins.

 

Engu að síður var faðir kjarnorkusprengjunnar sviptur öryggisheimildum sínum og neyddist þar með til að yfirgefa AEC.

 

Yfirheyrslunum yfir Oppenheimer hefur síðar verið lýst sem farsakenndum og byggðum á tilhæfulausum ásökunum og persónulegu hatri án nokkurs tilefnis í veruleikanum.

 

Oppenheimer varð þannig eitt af fórnarlömbum þeirra nornaveiða McCarthy-tímabilsins sem hófst fyrir 1950 og stóð fram yfir miðjan áratuginn. Tímabilið er kennt er við öldungadeildarþingmanninn og kommúnistahatarann Joseph McCarthy. Meðal fólks sem þurfti að sæta yfirheyrslum eða var svartlistað á einhvern hátt má nefna ekki ómerkari nöfn en Charlie Chaplin, Lucy Ball, Leonard Bernstein og sjálfan Albert Einstein.

 

Þessi smánarblettur var ekki þveginn af minningu Oppenheimers fyrr en 2022, þegar alríkisstjórnin dró formlega til baka þá ákvörðun að svipta hann öryggisheimildum sínum.

Oppenheimer endurlífgaður í Hollywood-sprengju

Kvikmynd Christophers Nolan „Oppenheimer“ var frumsýnd 21. júl 2023.

 

Myndin lýsir keppni Oppenheimers við tímann við smíði fyrstu kjarnorkusprengjunnar.

 

Christopher Nolan hefur getið sér gott orð fyrir önnur þrekvirki í kvikmyndagerð, svo sem Dunkirk, Interstellar og The Dark Knight.

Lestu meira um Oppenheimer

Martin J. Sherwin & Kai Bird: American Prometheus: The Triumph and Tragedy of J. Robert Oppenheimer, Vintage Books, 2006

 

Cynthia C. Kelly: Remembering the Manhattan Project, World Scientific, 2005

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: ANDREAS EBBESEN JENSEN

© Public domain,© Shutterstock,© Wikimedia Commons,© Wikimedia Commons/Ed Westcott,© Landmark Media/Imageselect,© Universal Pictures

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Blóðsugur leggja undir sig stórborgir heimsins

Náttúran

Hvaðan stafar saltið í Dauðahafinu?

Tækni

D-Vítamín er lykillinn að varnarkerfi líkamans

Lifandi Saga

Blóði drifið koffort kom upp um morðingja

Jörðin

Hvaða eldfjall er hættulegast?

Menning

Topp 5 / Hvaða eyjar eru þéttbýlastar?

Maðurinn

Hvað veldur saðningartilfinningunni?

Lifandi Saga

Hve marga Rómana drápu nasistar? 

Maðurinn

Hvaða tilgangi gegna líkamshár mannsins?

Náttúran

Hvernig myndast El Ninjo?

Lifandi Saga

Blóðsúthellingar og kynlíf: Íslendingar skrifuðu ævintýrasagnfræði

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.