Menn hafa ræktað silkiorma í mörg þúsund ár og vafið utan af þeim þræðina til að nota í klæði.
Silkið er hins vegar ekki sterkt.
Vandamálið snýst við þegar köngulær eru annars vegar.
Spuni þeirra er gríðarsterkur. Hins vegar er unnt að hafa silkiorma hangandi hundruðum saman í litlu rými en ef reynt væri að setja 100 köngulær í sama rými upphæfist blóðugur bardagi þar til ekki stæðu eftir nema ein eða tvær.
Kínverskum vísindamönnum hefur tekist að sameina kostina með genagræðslu silkiorma sem nú geta spunnið eins konar köngulóasilki sem er þolnara en kevlar, efnið sem notað er í skotheld vesti.
Vísindamennirnir græddu köngulóagen í silkiormana með þeim árangri að þeir tóku að spinna köngulóasilki.
Þennan níðsterka og sveiganlega þráð spunnu genagræddir silkiormar
„Trefjar silkiormanna reyndust hafa mikinn styrk – og þá er átt við hve mikið álag efni þolir án þess að aflagast – og jafnframt mikla seiglu – varðandi getu efnis til að draga í sig orku án þess að bresta,“ segir Junpeng Mi sem rannsakar líftækni við Donghua-háskóla og er aðalhöfundur niðurstöðuskýrslunnar.
Vísindamennirnir eru sannfærðir um að unnt verði að framleiða efnið í miklu magni.
Bjöllur geta ýtt 1.141-faldri þyngd sinni, söngtifur stökkva 116-falda líkamslengd sína og getnaðarlimur skordýrs framleiðir meiri hávaða en mótorhjól.
Þeir leggja áherslu á hæfni efnisins til að koma í stað gerviefna á borð við pólýester og nælon sem er mikið notað í klæðnað.
„Nýju trefjarnar hafa góða eiginleika á mörgum sviðum og má m.a. nota í efni fyrir hernað, geimferðir, lífefnalækningatækni og í textíliðnaði,“ segir Junpeng Mi.