Lifandi Saga

Palestínumenn misstu allt: Hörmungarnar miklu

U.þ.b. 750.000 Palestínumenn flúðu þegar stríð Araba og Ísraela braust út árið 1948. Von flóttamannanna var að þeir gætu snúið fljótt aftur. Þess í stað enduðu þeir líf sitt í hráslagalegum búðum þar sem afkomendur þeirra halda áfram að bíða.

BIRT: 10/10/2024

Al Nakba – Hörmungarnar – kalla Palestínumenn árið 1948 vegna þess að 14. maí það ár lýstu gyðingar yfir stofnun Ísraelsríkis. Og þegar Arabaríkin gerðu árás á Ísrael daginn eftir flúðu þúsundir Palestínumanna. Þeir sáu aldrei heimaland sitt aftur.

 

Árið áður höfðu SÞ samþykkt áætlun um stofnun gyðingaríkis og arabaríkis í Palestínu. Ekkert Arabalandanna vildi þó samþykkja þá áætlun, svo í staðinn lýstu Gyðingar einhliða yfir stofnun Ísraelsríkis.

 

Á þeim tíma bjuggu í Palestínu u.þ.b. 1,4 milljónir Araba sem voru því tveir þriðju hlutar íbúanna. Nokkrir Palestínumenn höfðu þegar flúið þegar nágrannaríkin réðust á Ísrael 15. maí 1948. Þegar átökin fjöruðu út árið eftir höfðu yfir 700.000 flúið.

 

Ísraelar höfðu þá lagt undir sig meira en helming landsvæðisins sem SÞ höfðu skilgreint sem Palestínskt. Í Ísrael urðu aðeins eftir um 165.000 Palestínumenn.

 

Fyrir stríðið bjuggu 70.000 arabar í borginni Jaffa – nú Tel Aviv. Árið 1949 var fjöldinn 3.600.

 

Flóttamannahamfarirnar urðu meðal annars til þess að Truman Bandaríkjaforseti hótaði að afturkalla stuðning við Ísrael. Því svaraði Ben-Gurion, forsætisráðherra Ísraels þannig:

 

„Sjálfsbjargarviðleitni okkar er okkur mikilvægari en hlýðni við Bandaríkin“.

Árásir koma harmleiknum af stað

Þann 15. maí 1948 réðust egypskar, jórdanskar og sýrlenskar hersveitir á Ísrael. Árásin var illa skipulögð og ísraelski herinn reyndist sterkari. Kjarni ísraelska herliðsins var vígasveitin Haganah sem var vel þjálfuð og vel skipulögð.

 

Ísraelum tókst því að leggja undir sig hluta þeirra svæða sem SÞ höfðu tilnefnt Palestínumönnum árið 1947. Á móti hertóku jórdanskir ​​hermenn svæðið vestan við Jórdanána (Vesturbakkann) og Austur-Jerúsalem á meðan Egyptar náðu Gaza á sitt vald.

Meðal öflugustu hersveita Ísraels var úrvalsdeild Haganah, Palmach en meðlimir þeirra sjást hér á leið í bardaga árið 1948.

Palestínumenn eru á flótta

Að sögn sagnfræðingsins Benny Morris tæmdust um 400 palestínsk þorp á tímanum fyrir og á meðan á stríðinu milli Araba og Ísraels stóð. Í hafnarborgunum Jaffa og Haifa flúðu 95 prósent arabísku íbúanna.

 

„Eins og allir aðrir var ég sannfærður um að ef við yrðum þar áfram væri dauðinn vís,“ útskýrði hinn 15 ára Abu Iyad en fjölskylda hans flúði Jaffa í maí 1948.

Þúsundir Palestínumanna annað hvort flúðu eða voru hraktir frá heimilum sínum í stríðinu 1948.

Flóttamenn flykkjast til Vesturbakkans

Meirihluti flóttamannanna – u.þ.b. 276.000 – flykktust til Vesturbakkans sem jórdanskir hermenn höfðu lagt undir sig. Hér var þeim komið fyrir í búðum eða hjá Palestínumönnum sem þar bjuggu. Í fyrstu stóðu Rauði krossinn og önnur alþjóðleg hjálparsamtök fyrir aðstoð við hina fjölmörgu flóttamenn.

 

Í maí 1950 tók hjálparstofnun Sameinuðu þjóðanna við hjálparstarfinu fyrir palestínska flóttamenn í Miðausturlöndum, UNRWA sem hún hefur staðið fyrir síðan.

Palestínsku flóttamennirnir voru vistaðir í tjaldbúðum eins og þessum nálægt Trípólí í norður Líbanon.

Palestínsk flóttabörn bíða í biðröð eftir mat í flóttamannabúðum í borginni Betlehem á Vesturbakkanum árið 1956.

Flóttamenn flæða yfir Gaza

Allt að 200.000 Palestínumenn flúðu til u.þ.b. 45 km langrar og átta km breiðrar landræmu við strönd Miðjarðarhafsins: Gaza.

 

Íbúafjöldi landræmunnar sem egypskir hermenn náðu á sitt vald í upphafi stríðsins árið 1948, þrefaldaðist á aðeins 10 mánuðum. Gaza varð því eitt þéttbýlasta svæði heims.

Flóttamennirnir á Gaza nutu verndar egypskra hermanna. Hér eru flóttamannabúðir nálægt bænum Khan Younis árið 1948.

100.000 flóttamenn í Líbanon

Líbanon sem hafði u.þ.b. eina milljón íbúa, tók árið 1948 á móti u.þ.b. 100.000 Palestínumönnum. Fyrir íbúa þessa litla lands varð það þung byrði, ekki síst vegna þess að flóttamennirnir ógnuðu jafnvægi milli kristinna manna og múslima í Líbanon.

 

Af sömu ástæðu var Palestínumönnum komið fyrir í 15 tímabundnum tjaldbúðum. Fyrst í lok fimmta áratugarins var þeim skipt út fyrir frumstæð fjölbýlishús úr steinsteypu með þök úr tini eða asbestplötum.

Stríðið milli Araba og Ísraela leiddi til þess að þúsundir Palestínumanna enduðu í flóttamannabúðum eins og þessum við Dauðahafið í Jórdaníu.

Svona mun gervigreind auðvelda þér lífið

Heilbrigði, öryggi, samskipti og flutningar eru bara fáein þeirra sviða þar sem gervigreind skiptir máli í lífi þínu í 

Lesa grein

Eyðimerkurríkið veitti flóttamönnum ríkisborgararétt

Jórdanía kaus aðra nálgun á flóttamenn Palestínu en nágrannaríkin. Árið 1948 tók konungsríkið á móti u.þ.b. 100.000 palestínskum ​​flóttamönnum.

 

Að auki voru tæplega 300.000 sem höfðu flúið til Vesturbakkans sem var undir stjórn Jórdaníu. Árið 1950 innlimaði Jórdanía Vesturbakkann og fjórum árum síðar var Jórdanía eina nágrannalandið sem veitti flóttamönnum ríkisborgararétt.

Einnig í Jórdaníu var flóttafólkinu komið fyrir í stórum búðum eins og þessum í Zarqa, u.þ.b. 20 km frá Amman.

Leifturstríð breytir öllu

Árið 1967 óttuðust Ísraelar árás frá arabískum nágrönnum sínum og gerðu því fyrirbyggjandi skyndiárás á Egyptaland og Sýrland. Á sex dögum tókst Ísraelsmönnum að leggja undir sig Sínaí-skagann, Gaza og hluta af Gólanhæðum. Þegar Jórdanía blandaði sér í stríðið hertóku Ísraelar einnig Vesturbakkann.

 

Þessi skyndisigur Ísraels þýddi að mörg hundruð þúsund Palestínumenn til viðbótar þurftu að flýja til nágrannalandanna.

Meðal landvinninga Ísraela í sexdaga stríðinu voru hinar hernaðarlega mikilvægu Gólanhæðir í Sýrlandi.

Örvæntingarfullur flótti frá Vesturbakkanum

Landvinningar Ísraela á Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem árið 1967 leiddu til þess að 300.000 Palestínumenn til viðbótar flúðu yfir Jórdanána til Jórdaníu.

 

Hins vegar urðu um 600.000 Palestínumenn eftir á Vesturbakkanum en u.þ.b. 300.000 völdu að vera áfram á Gaza. Sigurinn þýddu að Ísraelar réðu nú landi þar sem u.þ.b. 1,2 milljónir Palestínumanna bjuggu.

Palestínumenn frá Vesturbakkanum flýja til Jórdaníu yfir Allenby-brúna sem hafði skemmst í sprengjuárás.

Flóttamenn valda hörmungum í Líbanon

Ósigurinn árið 1967 þýddi að enn fleiri Palestínumenn flúðu til Líbanon. Þaðan gerðu Frelsissamtök Palestínu, PLO, skæruliðaárásir á Ísrael.

 

Einnig jókst spennan milli kristinna og múslima í Líbanon sem leiddi árið 1975 til blóðugrar borgarastyrjaldar sem Palestínumenn tóku einnig virkan þátt í. Næstu 15 árin var Líbanon tætt í sundur af miskunnarlausum átökum sem kostuðu yfir 150.000 mannslíf.

Borgarastyrjöldin í Líbanon varð bæði líbönum og palestínskum flóttamönnum dýrkeypt. Hér er mynd frá bardögum í Beirút árið 1976.

Palestínumenn bíða enn í búðum sínum

Í dag er fjöldi palestínskra flóttamanna u.þ.b. 5,9 milljónir. Af þeim búa u.þ.b. 1,5 milljónir í 58 opinberum flóttamannabúðum á svæðinu.

 

Flestir upprunalegu  flóttamannanna frá 1948 eru nú látnir en afkomendur þeirra bíða enn í yfirfullum búðunum sem allir héldu að yrðu bara tímabundnar. Hjá þeim eru „Hörmungarnar“ alveg jafn raunverulegar í dag og þær voru fyrir tæpum 80 árum.

Margir Palestínumenn geyma ennþá skjöl sem sýna að fjölskylda þeirra hafi átt eignir þar sem Ísrael er í dag.

HÖFUNDUR: NIELS-PETER GRANZOW BUSCH

© A03/Zuma/Ritzau Scanpix/Bettmann/Getty Images. © Universal History Archive/Getty Images. © Pictures From History/Akg-Images/Ritzau Scanpix. © John Chillingworth/Stringer/Getty Images. © Bettmann/Getty Images. © Hulton Deutsch/Getty Images. © Terry Fincher/Stringer/Getty Images. © Francoise De Mulder/Getty Images.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Gallerí: Baráttan við náttúruöflin

Lifandi Saga

Miðaldir voru tími svikahrappanna: Sérfróðir í svikum og prettum 

Lifandi Saga

Hversu margir bjuggu í Ameríku þegar Kólumbus bar að garði?

Lifandi Saga

Öll von slokknaði í fangelsum 19. aldarinnar

Maðurinn

Streita veldur ofþyngd

Maðurinn

Svartir punktar afhjúpa getgátur heilans

Alheimurinn

Hvað ef jörðin væri í öðru sólkerfi?

Náttúran

Skoðið myndirnar: Úlfar hegða sér eins og allt önnur dýr

Alheimurinn

Ótrúlegt afrek: Nemendur slá nokkur heimsmet með heimagerðri eldflaug

Náttúran

Hversu stór gátu skorkvikindi orðið?

Lifandi Saga

Olíuborpallur springur: Eldhaf í Norðursjó

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.