Menning og saga

Þegar erkifjendurnir mættust á Sikiley endaði það með blóðbaði

Í fornöld áttu Föníkumenn og Grikkir í stöðugri baráttu um yfirráð við Miðjarðarhaf. Einn margra bardaga var orrustan við Himera á Norður-Sikiley árið 480 f.Kr., þar sem Grikkir unnu blóði drifinn sigur. Fornleifafræðingar uppgötvuðu í fyrra meira en 10.000 beingrindur sem vitna um líf og dauða í þessari umdeildu grísku borg.

BIRT: 04/11/2014

Sem liður í undirbúningi á stækkun járnbrautateina var svæði nokkurt á norðurströnd Sikileyjar rannsakað árið 2008 af fornleifafræðingum frá Palermo. Að sögn forstöðumannsins dr. Stefano Vassallo voru menn ekki í vafa um að þarna væri einhverjar grafir að finna. Rústirnar af hinum forna gríska bæ Himera voru enda skammt undan. En umfang grafreitsins kom á óvart. Fyrstu útreikningar benda til að þarna sé að finna meira en 10.000 beinagrindur. Þetta er því stærsti grafreitur fornaldar á Sikiley.

Þessar fjölmörgu grafir veita fornleifafræðingum tækifæri til að rannsaka greftrunarsiði íbúanna, hvort heldur um er að ræða fallna hermenn eða borgara. Og allar þessar beinagrindur veita mannfræðingum kjörið tækifæri til greininga, sem geta afhjúpað sitthvað um heilsufar og matarvenjur þarlendra. Nú þegar geta þeir ráðið að meðalhæð þessara manna fyrir 2.500 árum var 175 sm, og hafa þeir verið fremur hávaxnir miðað við aðra samtíðarmenn.

Mölbrotnar höfuðkúpur

Grafirnar má tímasetja á 6. og 5. árhundrað f.Kr. og eru það einkum fjöldagrafirnar sem vakið hafa athygli, en þær geyma milli 15 og 25 beinagrindur hver. Vassallo upplýsir að þarna hafi jafnan verið um unga menn að ræða sem létust með voveiflegum hætti.

Höfuðkúpur eru mölbrotnar og stundum finna fornleifafræðingar bein sem örvar hafa laskað. Að öllum líkindum eru fjöldagrafirnar tilkomnar vegna blóðugs stríðs milli Grikkja og Föníkumanna sem átti sér stað við Himera árið 480 f.Kr. En grafirnar vitna einnig um hversdagslegri harmleiki. Einungis fá börn lifðu af fyrsta ár sitt sem endurspeglast í fjölmörgum ungbarnagröfum. Hvítvoðungarnir voru grafnir í stórum leirkrukkum og oft með lítilli leirflösku, eins konar pela.

Afsettir Grikkir snerust í lið með Föníkumönnum

Himera var meðalstór grísk nýlenda stofnuð árið 648 f.Kr., sem vegna staðsetningar sinnar lenti einatt í miðju átaka stríðandi fylkinga. Í upphafi 5. aldar f.Kr. laut Himera stjórn gríska einvaldsins Terillos. Vegna óánægju með stjórn hans hafði hluti yfirstéttar Himera flúið á náðir einvaldsins Þeróns í borginni Akragas á suðurströnd Sikileyjar þar sem þeir brugguðu sín launráð gagnvart Terillosi. Terillos var steypt af stóli án blóðsúthellinga árið 483 f.Kr.

Þar með komst Þerón til valda í Himera en eini möguleiki Terillosar að endurheimta fyrri stöðu var að leita til hins föníska Hamilkars í borginni Karþagó, þar sem Túnis er nú. Föníkumenn höfðu á þessum tíma stofnað fáeinar nýlendur á Sikiley. Vegna legu Sikileyjar í Miðjarðarhafi skipti hún sköpum fyrir verslun bæði Grikkja og Föníkumanna. Þeir sem höfðu undirtökin á Sikiley réðu miklu um verslunarleiðirnar til vesturhluta Miðjarðarhafs. Af þessum sökum voru árekstrar tíðir.

Grikkir lifðu í svonefndum borgríkjum og áttu oft í innbyrðis erjum. En þegar óvinir eins og Föníkumenn eða Persar ógnuðu þeim, tóku þeir höndum saman gegn árásargjörnum nágrannabæjum. Þegar Þerón hrakti Terillos frá Himera hefur varla komið á óvart að Terillos flúði til Hamilkars og eins að yfir Himera vofði nú árás frá Föníkumönnum. En rétt eins og Þerón mátti vænta árásar Hamilkar, gat sá verið öruggur um að mæta mótspyrnu bæði Þeróns og Gelóns, tengdasonar Þeróns, sem réði ríkjum yfir austurhluta Sikileyjar frá bænum Sýrakúsu.

Næstu tvö árin vígbjuggu tengdafeðgarnir sig fyrir væntanlegt stríð. Í millitíðinni undirbjó Persakonungurinn Xerxes sig í austurhluta Miðjarðarhafs fyrir mikla herför gegn Grikkjum. Þetta fór ekki framhjá grískum borgríkjum sem höfðu sameinast undir forystu Spörtu og Aþenu. Borgríkin sendu nefnd til Gelóns á Sikiley til að biðja hann um liðstyrk til föðurlandsins.

Gríski sagnaritarinn Heródótos greinir frá því að Gelón hafi svarað og sagst geta boðið 200 herskip, 20.000 hepólíta (brynvarða fótgönguliða), 2.000 riddara, 2.000 bogaskyttur og 2.000 léttvopnaða fótgönguliða. Auk þess kvaðst hann reiðubúinn að sjá gríska hernum fyrir vistum meðan stríðið stæði yfir.

Meginlandið hafnaði skilyrtri aðstoð

Eina skilyrði Gelóns fyrir liðstyrknum var að hann vildi hafa yfirstjórn á gjörvöllu herliði Grikkja. Þessu svöruðu Spartverjar hneykslaðir að ekki kæmi annað til greina en að Spartverji myndi leiða gríska landherinn.

Í stað þess að fyrtast við breytti Gelón skilyrðum sínum og kvaðst geta látið sér nægja að fara fyrir gríska flotanum. Það leiddi til samsvarandi vandlætingar frá Aþenubúum sem kváðust sjálfir stýra eigin flota. Sendinefndin þurfti því að halda bónleið til Grikklands og Gelón varð eftir á Sikiley með her sinn, sem kann að hafa vakað fyrir honum allan tímann. Heródótos telur nefnilega að Gelón hefði veitt aðstoð sína ef ekki væri fyrir yfirvofandi árás Föníkumanna á Sikiley.

Gelón sendi þessu næst þrjú skip fullfermd miklum verðmætum til trúnaðarvins í Delfí þar til útkoma árásar Persa á Grikki yrði ljós. Ef Persarnir ynnu sigur átti að nota peningana til að kaupa frið, en ef ekki áttu skipin að sigla aftur til Sikileyjar.

Grikkir skyldu knésettir

Samkvæmt öðrum sagnaritara, Díódórosi, höfðu Persar og Föníkumenn gert samkomulag um að leggja til atlögu á sama tíma og ná undir sig með þeim hætti gjörvöllu gríska ríkinu. Árið 480 f.Kr. hélt Hamilkar til Sikileyjar. 200 herskip og fjöldi annarra birgðaskipa sigldu úr höfn en á leiðinni hreppti flotinn óveður og þau skip sem báru stríðshesta og hervagna týndust. Þegar flotinn tók land á norðurströnd Sikileyjar nærri Himera lýsti Hamilkar því yfir að stríðinu væri lokið, enda hafði hann óttast sjóferðina yfir hafið mun meira en hermenn Grikkja.

Hamilkar hvíldi nú menn sína í þrjá daga. Þessu næst hélt hann með herinn landleiðina að Himera meðan flotinn fylgdi eftir meðfram ströndum. Þegar Föníkuherinn náði á áfangastað reistu hermennirnir tvær búðir og víggirtu sig vestan við Himera. Þegar búið var að reisa búðirnar voru allar vistir fermdar af fragtskipunum sem héldu rakleiðis til Karþagó eftir frekari birgðum.

Svo virðist sem Hamilkar hafi ekki aðeins ætlað sér að koma Grikkinum Terillos aftur til valda í Himera. Það var bara fyrsti áfanginn í miklum herleiðangri sem hafði það að markmiði að brjóta á bak aftur völd Grikkja á Sikiley.

Hamilkar hélt nú með vígfimustu menn sína til Himera og borgarbúar sendu liðstyrk til að mæta honum. Hamilkar réði niðurlögum mótspyrnunnar án vandkvæða. Skelfingu lostnir fylgdust íbúar með, og Þerón af Akragas sem var í borginni með her sinn sendi í skyndingu boð til Gelóns í Sýrakúsu um að koma til aðstoðar. Gelón var með viðbúinn her en vildi ekki halda með hann úr Sýrakúsu fyrr en hann fengi vissu um hvar Hamilkar myndi ganga á land. Nú flýtti hann sér að koma Þerón og íbúum Himera til hjálpar. Samkvæmt Díódórosi taldi her hans 50.000 fótgönguliða og 5.000 riddara.

Föníkumenn voru sigraðir með lævísi

Gelón sendi riddara sína af stað til að fanga sem flesta föníska hermenn sem fóru með gripdeildum um nágrennið. Þegar riddaraliðið sneri til baka til Himera voru þúsundir fanga í haldi þeirra. Með snarræði sínu auðmýkti Gelón Föníkumenn og ávann sér þegar í stað hylli borgarbúa í Himera.

Gelón ráðgerði þessu næst að ráðast gegn óvinaflotanum. Það myndi fela í sér að Föníkumenn gætu ekki flúið heim til Karþagó ef þeir töpuðu stríðinu.
Díódóros segir ennfremur að meðan Gelón réði ráðum sínum komu riddarar hans með fönískan sendiboða sem þeir höfðu handsamað. Í fórum hans fannst bréf til Hamilkar frá grísku nýlendunni Selinus á suðurströnd Sikileyjar. Bréfið var staðfesting á að bærinn myndi senda riddaralið til Hamilkars á tilteknum degi. Ástæða þess að Grikkirnir í Selinus kusu að berjast með Föníkumönnum í þessu stríði hefur trúlega verið sú að þeir fóru halloka undan hinum valdamikla einvaldi Þerón í nágrannaborginni Akragas. Ósigur Þeróns myndi rétta verulega hlut bæjarbúa.

Gelón skipaði riddaraliði sínu þennan tiltekna dag að ríða út við dagrenningu að föníska flotanum þar sem Hamilkar væri önnum kafinn við undirbúning á mikilli fórnarathöfn til handa sjávarguðinum Póseidon. Dulbúnir sem riddaraliðið frá Selinus var þeim hleypt inn í búðirnar. Á sama tíma var Gelón reiðubúinn með her sinn utan borgarmúranna. Njósnarar sem sendir voru út á umliggjandi hæðir áttu að veita Gelón boð þegar riddararnir voru komnir inn í búðirnar.

Allt gekk eftir eins og Gelón hafði fyrirhugað. Þegar riddararnir komu að flotabúðunum var þeim hleypt inn af varðmönnum sem ætluðu þetta vera liðsaukann frá Selinus. Riddararnir héldu strax þangað sem Hamilkar var að færa fórnir sínar og hjuggu hann niður. Þessu næst riðu þeir til skipanna og kveiktu í þeim. Um leið og njósnararnir sendu Gelón boð um að riddararnir hefðu komist inn réðist hann til atlögu. Fönísku hershöfðingjarnir snerust til varnar og úrslitaorrustan hófst. Loftið endurómaði af herlúðrum beggja herja. Hart var barist og tvísýnt um úrslit þar til menn gátu greint svartan reykinn frá brennandi skipum Föníkumanna og víg Hamilkars kvisaðist út. Þetta hleypti eldmóð í brjóst Grikkja meðan flótti brast í lið Föníkumanna. Orrustan við Himera árið 480 endaði þannig með gjörsigri Grikkja á Föníkumönnum.

Frásögn Heródotosar af vígi Hamilkars er nokkuð á annan veg. Hann segir að ógjörningur hafi reynst að finna lík Hamilkars eftir orrustuna. Hann vísar í frásögn fönísks sagnaritara sem segir Hamilkar hafa haldið fórnum til guðanna áfram í von um að stríðsgæfan yrði honum hliðholl. En þegar honum var ljóst að Grikkir höfðu náð undirtökunum kastaði hann sér í örvæntingu á bál.

Karþagó slapp við hefndaraðgerðir

Gelón hafði fyrirskipað að engir fangar skildu teknir og þegar herskipin voru nú brunnin voru flóttaleiðir Föníkumanna harla fáar. Díódóros ritar hins vegar að þúsundir hafi verið hnepptir í þrælahald og ber sögum ekki saman í þessum efnum. Ríflega 20 af fönísku skipunum voru enn sjófær. Í þessi skip streymdu flóttamenn og settu stefnuna til Karþagó. En þessi litli floti lenti aftur í illviðri á hafi úti og fórust öll skipin. Það voru því einungis nokkrir Föníkumenn sem höfðu komist yfir árabáta sem sneru aftur til Afríku og fluttu með sér þær hörmungarfregnir að gjörvöllum föníska hernum hefði verið tortímt.

Föníkumenn fylltust skelfingu enda óttuðust þeir að Gelón myndi láta kné fylgja kviði með því að hernema Karþagó. Þeir sendu því strax boð til Sýrakúsu til að biðja sér griða. Og Gelón sem vildi öðrum fremur teljast réttlátur herskari tók vel á móti þeim og veitti þeim mildilega friðarsamninga.

Sigrinum var fagnað með tveimur hofum

Þar sem þetta átti sér stað á sama tíma og Persar réðust á Grikkland og sigurinn endurómaði í gjörvöllum hinum gríska heimi töldu sagnaritarar til forna að orrustan við Himera hafi átt sér stað á sama tíma og hinn frækni sigur Grikkja á Persum. Heródódus segir þannig að orrustan við Himera hafi farið fram þegar Grikkir sigruðu persnenska flotann við Salamis.

Díódórus staðhæfir hins vegar að orrustan við Himera hafi verið háð á sama tíma og orrustan við Þermopylæ (Laugaskörð) þar sem fámenn spartversk herdeild varðist hetjulega í þröngu fjallaskarði og hindraði framrás hins öfluga persneska hers, allt þar til svikari greindi Persum frá annarri leynilegri leið. En hvaða daga þetta var er ekki vitað, einungis ártalið.

Til þess að minnast sigursins við Himera létu Þerón og Gelón reisa tvö systurhof, annað í Himera og hitt í Sýrakúsu. Þetta voru klassísk grísk hof þar sem súlnagöng umkringdu sjálf hofin.

Hofið í Himera hlaut síðar sömu örlög og aðrir hlutar borgarinnar, og er nú rústir einar. Aþenuhofinu í Sýrakúsu var á 7. öld e.Kr. breytt í kirkju sem var helguð Maríu mey. Því má enn þann dag í dag sjá drjúgan hluta hofsins í kirkjubyggingunni sem síðasta minnisvarða um hinn frækna sigur Grikkja fyrir 2.500 árum.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Jól

Hver er uppruni jólanna?

Alheimurinn

Fjórar óskiljanlegar FFH-kenningar

Alheimurinn

Úr hverju er alheimur?

Heilsa

Sérstakar svefnvenjur geta aukið hættuna á hjartasjúkdómum um 26 prósent

Náttúran

Bessadýr: Harðgerðustu lífverur Jarðar

Maðurinn

Þess vegna er óreiða góð fyrir sköpunargáfu þína

Lifandi Saga

Gallerí: Baráttan við náttúruöflin

Lifandi Saga

Miðaldir voru tími svikahrappanna: Sérfróðir í svikum og prettum 

Lifandi Saga

Hversu margir bjuggu í Ameríku þegar Kólumbus bar að garði?

Lifandi Saga

Öll von slokknaði í fangelsum 19. aldarinnar

Maðurinn

Streita veldur ofþyngd

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.