Líffræði
Árið 2008 á norski fræbankinn að vera tilbúinn.
Byggingaframkvæmdir eru þegar komnar á fullt á Svalbarða þar sem ætlunin er að varðveita þrjár milljónir plöntutegunda í formi fræja.
Tilgangurinn er að eiga varaforða af fræjum ef t.d. náttúruhamfarir eða loftslagsbreytingar skyldu útrýma einhverjum tegundum.
Fræbankinn verður byggður inn í fjall á eynni Spitzbergen og staðurinn var valinn af mikilli kostgæfni. Hér er engin teljandi jarðvirkni, eyjaklasinn er afskekktur og samkvæmt spám loftslagsfræðinga er ekki hætta á að eyjan muni sökkva í sæ á næstu öldum.
Síðast en ekki síst bendir ekkert til að hér muni hlýna verulega, en það þýðir að fræin eru hér geymd í góðum kæli frá náttúrunnar hendi. Til frekara öryggis verður þó settur upp frystibúnaður.
En þótt vísindamennirnir geri þannig allt sem í þeirra valdi stendur eru því ákveðin takmörk sett hve lengi fræin geta varðveist óskemmd. Ertur geta t.d. enst í 30 ár en missa svo hæfileikann til að spíra. Ýmsar korntegundir eru aftur á móti taldar þola geymslu í margar aldir.
Fræbankann á Svalbarða á ekki einungis að nota ef plöntutegund deyr út, heldur á hér einnig að varðveita varalager fyrir aðra fræbanka.
Norðmenn fjármagna fræbankann sem kostar um fimm milljónir dollara en Alþjóðlegi plöntufjölbreytnisjóðurinn sér um fræsöfnunina.