Í Kongófljóti eru ýmsar tegundir af ætt ranafiska og eiga fyrir bragðið á hættu að para sig þvert á tegundir.
En á þessum vanda hafa fiskarnir fundið sér lausn. Til að hrygnan geti valið sér maka af réttri tegund myndar hængurinn vægt rafstuð í sporðinum. Hver tegund hefur sitt eigið afbrigði sem laðar að hrygnur af sömu tegund.
Breski atferlislíffræðingurinn Philline Feulner við Sheffield-háskóla uppgötvaði þetta þegar hún setti hrognafullar hrygnur og hænga af ýmsum tegundum saman í vatnsker.
Síðar endurtók hún tilraunina en í stað hænganna notaði hún nú rafsvið sem hvert um sig samsvaraði ákveðinni tegund. Hrygnurnar syntu þá rakleitt að því rafsviði sem samsvaraði réttri tegund.
Það hefur líka komið í ljós að ranafiskarnir nýta einnig rafmagnshæfileikana til að finna sér fæðu í þessu grugguga fljóti.