Það marrar í hjarninu undan gatslitnum stígvélum hermannanna þegar herdeild Alexander Pyl’cyns lautinants þrammar þann 18. febrúar 1944 síðasta spölinn í skóginum austan við bæinn Rogachev, þar sem nú er Belarús.
Mennirnir hafa marserað alla nóttina án þess að þekkja verkefni sitt og það gefst einungis 15 tíma hvíld áður en þeir munu halda í bardaga.
„Ykkar bíður óvenjulega örðugt og mikilvægt verkefni“, hljóða skilaboðin frá hershöfðingja um eftirmiðdaginn, þegar hann kynnir leiðangurinn fyrir Pyl’cyn og öðrum liðsforingjum í 8. sjálfstæðu refsisveitinni.
Refsisveitin á að komast á bak við víglínu Þjóðverja og ná á sitt vald fjölmörgum sprengjubyrgjum við Rogachev, þar sem þýskar hersveitir hafa komið upp miklum vörnum.
Foringjarnir í refsisveitinni eru vanir svona lífshættulegum verkefnum. Hermenn þeirra eru jafnan foringjar sem hafa verið lækkaðir í tign af margvíslegum ástæðum.
Litið er á þessa menn sem skammarblett Rauða hersins og líf þeirra hefur ekkert vægi.
Seint um kvöldið, eftir hvíldina, læðast hermenn sveitarinnar í gegnum djúpan snjóinn í átt að Þjóðverjum.
Varfærnislega klippa fremstu hermennirnir gaddavírsgirðingar í sundur. Nokkur hundruð menn komast í gegnum hindranir þegar einn hermaður flækir sig allt í einu í gaddavírum.
Viðvörunarkerfi – sem samanstóð af upphengdum tómum niðursuðudósum – gefur til kynna staðsetningu þeirra og loftið fyllist af gelti vélbyssa.
Rússarnir við gaddavírinn eru samstundis sallaðir niður. En menn Pyl’cyns verða að halda árásinni áfram. Hörfi þeir undan verða þeir skotnir – af Rauða hernum.
Fullir örvæntingar berjast mennirnir áfram og ná – gegn öllum líkum – á sitt vald mörgum sprengjubyrgjum.
Eins og jafnan er raunin er mannfallið mikið. En hvað herforingja rauða hersins varðar hefur leiðangurinn verið afar farsæll.
Það munu skjótt koma aðrir liðsmenn í stað hinna dauðu sem hægt verður síðan að senda í næstu sjálfsmorðsárás.
Þannig er ískaldur veruleikinn á austurvígstöðvunum þar sem bæði Stalín og Hitler kasta þúsundum og aftur þúsundum af eigin löndum inn í refsisveitir, þar sem einungis kraftaverk getur bjargað þeim frá bráðum bana.
Núna – næstum 80 árum síðar – er búið að endurvekja refsisveitir þessara einræðisherra. Í þetta sinn er kominn á sjónarsviðið hinn alræmdi málaliðaher Wagner-hópurinn, þar sem mannslíf eru mögulega enn minna virði.
Að skipun Stalíns voru refsisveitir settar í fremstu víglínu í blóðugustu bardögunum á austurvígstöðvunum.
Hitler sendi fanga í fremstu víglínu
Í síðari heimsstyrjöldinni höfðu nasistar gert tilraunir með notkun refsisveita. Árið 1935 kom herinn þannig á laggirnar „sérstökum deildum“ fyrir óhlýðna hermenn sem þrátt fyrir agabrot þóttu vera hæfir til að gegna herþjónustu.
Venjulegir afbrotamenn og pólitískir fangar voru einnig innlimaðir í þessar refsisveitir – oft með loforði um að dómur þeirra yrði mildaður.
Þegar stríðið braust út voru þannig til níu slíkar „sérstakar herdeildir“ sem var teflt fram sem liðsauka undir stjórn þýska hersins.
En þegar Þýskaland tók að skorta hermenn eftir því sem leið á stríðið, sá Hitler möguleika til þess að senda dæmda hermenn í stórum stíl í fremstu víglínur.
Það var ekkert gagn af föngunum á bak við lás og slá og því þótti betra að gefa þeim tækifæri til að endurheimta æru sína.
„Ströngustu aðgerðir eru nauðsynlegar til að viðhalda aga meðal hermannanna og að halda dáðleysi niðri. Eins þarf að veita hermönnum hersins sem hafa stöku sinnum brotið af sér, möguleika á að sanna gildi sitt“, sagði Foringinn í desember 1940.
Í herleiðangrinum til Rússlands tók Napóleon margar refsisveitir með sér.
Hitler innblásinn af Napóleon
Franski keisarinn Napóleón var frumkvöðull þegar kom að því að senda refsifanga í stríð. Hundrað árum síðar fór Hitler að dæmi franska keisarans.
Napóleon Bonaparte dáði stríðsrekstur og var jafnframt harla tilfinningalaus hvað mannslíf varðaði. En þessi afstaða var kannski ekki merkileg því hann var fyrsti herforinginn sem kaus að nýta refsisveitir í stríði.
Þegar hann tók að skorta herafla í Napóleónstríðunum (1803 – 1815) kom hann á laggirnar með keisaralegri tilskipun árið 1808 Régiment pénal de l’Île de Ré – hersveit sem samanstóð af afbrotamönnum og þeim sem neituðu að gegna herþjónustu.
Með því að tefla saman afbrotamönnum og þeim óstýrilátu í sérstakar hersveitir sem voru sendar í fremstu víglínu, leitaðist Napóleon við að sýna að afbrot og mótþrói gerði engum manni kleift að losna undan herþjónustu.
Tilvist slíkra refsisveita tryggði að nú var hægt að fá fleiri hermenn – og jafnframt var auðveldara að halda uppi aga í franska hernum.
Régiment pénal de l’Île de Ré samanstóð af fjórum fótgönguliðafylkjum og þremur fallbyssusveitum sem árið 1812 fengu þann heiður að vera fyrstir sendir til Rússlands ásamt Grande Armée Frakklands. Sú för endaði með því að Napóleón og menn hans máttu þola eitt versta tap sögunnar.
Hitler hermdi í fyrstu eftir refsisveitum og síðan með niðurlægjandi tapi á austurvígstöðvum, rétt eins og Napóleon.
Að sanna gildi sitt fólst í að sinna herþjónustu í refsisveit. Eftir góða frammistöðu þar gátu fangarnir átt von á því að dómur þeirra yrði endurskoðaður og jafnvel mildaður.
Verkefnin í slíkum sveitum fólust einkum í því að flytja birgðir í fremstu víglínu en breyttust umtalsvert þegar herleiðangur Hitlers inn í Sovétríkin tók að hökta.
„Minnkandi slagkraftur í fótgönguliðinu! Hersafnaðurinn þarf fleiri menn“, tilkynnti feltmarskálkur Fedor von Bock Morbor, yfirmaður Heeresgruppe Mitte, í desember 1941 þegar mannfall Þjóðverja á austurvígstöðvunum var talið í hundruðum þúsunda.
Ein lausn Hitlers fólst í að láta refsisveitirnar berjast á vígvellinum „í hættulegustu aðstæðunum“. Hitler lýsti samtímis yfir að dóma fyrir lögbrot hermanna „bæri að afplána svo skjótt sem kostur var“ þannig að það mætti koma þeim sem skjótast fram í fremstu víglínu.
Frá apríl 1942 voru um 40 af hundraði þeirra þýskra hermanna sem höfðu hlotið fangelsisdóma sendir í refsisveitir og látnir berjast með þeim. Þeir unnu jafnan með venjulegum hermönnum en hættulegustu verkefnunum var þó úthlutað til þeirra.
Brátt fóru að berast sögusagnir um – að því er virtist – óttalausar sérsveitir Þjóðverja til höfuðstöðvanna í Moskvu, þar sem Stalín var í sambærilegri stöðu og skorti sífellt fleiri hermenn.
Hermenn í þýskum refsisveitum voru í fyrstu undir gæslu herlögreglunnar.
Stalín fylgdi fordæmi Hitlers
Allt frá því að þýska stríðsmaskínan réðst inn í Sovétríkin í júní árið 1941 hafði Rauði herinn staðið frammi fyrir margvíslegum erfiðleikum. Heiftarlegir bardagar urðu til þess að hermenn flúðu í þúsunda tali frá vígvellinum.
Vandi þessi ágerðist svo mikið að Stalín fyrirskipaði í september 1941 leynilögreglunni NKVD að koma upp sérstökum sveitum til að aftra liðhlaupi en þær höfðu gefist vel í rússneska borgarastríðinu.
Helsta verkefni slíkra sérsveita var að sjá til þess að engir hermenn eða liðsforingjar, geti dregið sig úr bardögum án leyfis. Jafnframt hafði NKVD fengið ófrávíkjanlega fyrirskipun um að skjóta sérhvern flýjandi hermann, væri hann uppvís að slíkum heigulskap.
Í einni stöðufærslu frá október 1941 gat leyniþjónustuforinginn Bería greint frá því að slíkar deildir hefðu hindrað meira en 600.000 hermenn frá því að flýja úr bardaga eða gerast einfaldlega liðhlaupar frá Rauða hernum. Meira en 25.000 hermenn voru handteknir og af þeim voru 10.200 dæmdir til dauða.
„Sá tími er upprunninn þar sem undanhaldið hættir. Ekki eitt skref afturábak!“
Stalín í tilskipun númer 227.
En slíkur flótti hélt áfram þrátt fyrir þessi grimmilegu skipanir Stalíns þegar Þjóðverjar sumarið 1942 hófu stórsókn í austurátt og sóttu í átt að olíulindunum í Kákasusfjöllum.
Á skrifstofu sinni í Kreml var Jósef Stalín fjúkandi reiður:
„Í hersveitum okkar er að finna fjölmarga hermenn sem eru huglausar bleyður og beinlínis fjandsamlegir Rússlandi sem kasta frá sér vopnum við fyrsta mótlæti!“
Þann 28. júlí 1942 gaf hann þannig út víðfræga tilskipun sína nr. 227 sem átti í eitt skipti fyrir öll að sýna hermönnum að þeir gátu ekki skotist undan ábyrgð sinni.
„Sá tími er upprunninn þar sem undanhaldið hættir. Ekki eitt skref afturábak!“, hljóðaði skipunin frá Stalín sem krafðist þess að „óróaseggir og svikarar skuli gripnir á staðnum“.
Nú áttu NKVD-liðar að handtaka sérhvern hermann og liðsforingja sem sýndi minnsta „mótvilja til að berjast“. Þeir sem ólu á ótta annarra áttu á hættu að vera skotnir á staðnum.
En samkvæmt Stalín var þó einn kostur mögulegur fyrir svikarana – aðferð sem óvinurinn hafði nýtt sér þegar baráttuþrek þýskra hermanna tók að dala: Refsisveitir.
„Þjóðverjar hafa sent þessa afbrotamenn á hættulegustu staðina í víglínunni og skipa þeim að gjalda fyrir syndir sínar með blóði“, skrifaði Stalín í tilskipun sinni og benti á að þýskar herdeildir væru því miklu baráttuglaðari en áður.
Stalín var því ekki í neinum vafa: Rauði herinn skyldi gera slíkt hið sama.
Missti 600 menn á þremur dögum
Skömmu eftir tilskipun Stalíns nr. 227 voru þeir fyrstu af mörg þúsund sovéskum hermönnum dæmdir til herþjónustu í nýstofnuðum refsisveitum sem nefndust shtrafbat.
Foringjar slíkra sveita voru oft sjálfboðaliðar úr Rauða hernum sem sáu þarna tækifæri til að stíga hratt upp metorðalistann, þar sem einungis mánaðar þjónusta jafngilti sex mánuðum í hernum.
Það voru samt langt frá því allir sem vissu hvað beið þeirra, eins og ungur liðsforingi skrifaði eftir að hafa leitt slíka refsisveit:
„Að lýsa því sem ég lenti í er ekki mögulegt. Mér nægir að segja að nú þegar ég er 23 ára gamall er ég orðinn gráhærður“.
Með hliðsjón að tilskipun nr. 227 áttu þessar sérstöku refsisveitir að samanstanda af 800 mönnum. En ósjaldan bar við að þær urðu mun stærri. NKVD fylgdist gaumgæfilega með venjulegum hermönnum og það þurfti ekki mikið meira en neikvætt umtal um herinn til að hermönnunum var kastað upp á vörubíla og þeir keyrðir til næstu refsisveitar.
Það var því ekki sérlega erfitt að fylla raðirnar. Fyrsta refsisveitin sem var send til vígstöðvanna í Stalíngrad þann 22. ágúst 1942 samanstóð þannig af 929 fyrrum liðsforingjum – allir voru þeir dæmdir fyrir að brjóta tilskipun nr. 227 og lækkaðir í tign.
„Við héldum að þetta myndi verða skárra en í fangabúðum. Á þessum tíma vissum við ekki að þetta var í raun dauðadómur“.
Ivan Gorin sem var settur í refsisveit.
Eftir þriggja sólarhringa stanslausar árásir voru einungis 300 hermenn í sveitinni enn á lífi.
Stríðsljósmyndarinn Dmitri Baltermants komst skjótt að því hve litlar yfirsjónir þurfti til að enda í slíkri sveit. Árið 1942 var hann kapteinn í Rauða hernum og tók myndir af bardögunum um Stalíngrad.
Í einum slíkum tók hann mynd af þýskum stríðsföngum en skrifaði ekki niður réttar upplýsingar í myndatextanum. Honum var strax refsað. Baltermants var sviptur tign sinni og sendur beint í refsisveit.
Það var ekki fyrr en ári síðar sem hann slapp úr þeim hremmingum, eftir að hafa særst alvarlega.
En Stalín dugði ekki að sækja fanga úr hernum. Sovétleiðtoginn sendi einnig þúsundir af sínum pólitísku andtæðingum úr Gúlaginu í fremstu víglínu sem shtrafniki – hermenn í refsisveit.
Frá árinu 1944 tók Stalín, rétt eins og Hitler hafði gert, að bæta afbrotamönnum úr fangelsum inn í refsisveitirnar – meðal þeirra var bóndasonurinn Ivan Gorin sem hafði hlotið dóm fyrir að falsa skömmtunarseðla.
„Við héldum að þetta myndi verða skárra en í fangabúðum. Á þessum tímapunkti höfðum við ekki hugmynd um að þetta var í raun dauðadómur“, sagði Gorin að stríði loknu.
Stríðsljósmyndarinn Dmitri Baltermants sem tók þessa mynd var meðal þúsunda Rússa sem voru þvingaðir í refsisveit. Myndin er frá tíma hans í sveitinni.
Jarðsprengjusvæði rudd
Hvorki Rússar né Þjóðverjar áttu von á góðu þegar þeir voru settir í refsisveitirnar. Þó voru Þjóðverjar öllu heppnari enda voru þeir ekki alltaf settir í fremstu víglínu. Samkvæmt fyrirskipun Hitlers áttu þeir að sinna „erfiðustu vinnu eins nálægt og hægt er þeim hermönnum sem berjast þar“.
Þetta fól í sér að refsisveitirnar voru látnar byggja og gera við varnarvígi þétt við víglínuna meðan kúlum og sprengjum óvinarins rigndi yfir þá.
Samt sem áður var þetta verk ekki eins taugatrekkjandi verkefni og hjá þeim sem voru látnir finna og eyða jarðsprengjum – nokkuð sem rússneskar og þýskar refsisveitir voru einatt látnar gera.
Jarðsprengjusvæði drógu mjög úr sóknargetu herjanna og því var ákaflega heppilegt fyrir hershöfðingjana að geta sent „fordæmda“ hermenn til að hreinsa jarðsprengjusvæði nóttina fyrir árás.
Hjá Rússum var heldur ekki óalgengt að fórna shtrafnikunum með því að senda þá rakleitt gangandi í gegnum jarðsprengjusvæði í byrjun árásar. Með þessum hætti ruddu þeir bókstaflega veginn fyrir venjulegar herdeildir í Rauða hernum.
„Við erum sendir þarna út eins og nautgripir til slátrunar“.
Alexander Pyl’cyn síðar í bók sinni.
Slíkan leiðangur í gegnum jarðsprengjusvæði fékk lautinant Pyl’cyn að reyna sem leiddi 8. sjálfstæðu refsisveitina ásamt 17 öðrum liðsforingjum. Þessi einungis 20 ára gamli hermaður sem að stríði loknu skrifaði bók um reynslu sína, var í einum slíkum leiðangri í Belarús. Honum var árið 1944 skipað að mæta með sveit sína til að fjarlægja jarðsprengjur.
Leiðandi hershöfðinginn, Pavel Batov, vissi harla vel að svæðið var alsett jarðsprengjum og sendi samt refsisveitina rakleiðis inn á það.
Hugmyndin var ekki sú að fangasveitin ætti að gefa sér tíma til að staðsetja jarðsprengjurnar, grafa þær upp og gera óvirkar. Hermennirnir áttu einfaldlega að æða áfram beint í gegnum svæðið þannig að líkamsþyngd þeirra myndi verða til þess að sprengja jarðsprengjurnar.
„Við erum sendir þarna út eins og nautgripir til slátrunar, þrátt fyrir að allir okkar menn hafi áður verið liðsforingjar og þaulreyndir í bardaga“, minntist Pyl’cyn síðar í bók sinni.
Hann kallaði þessar skipanir hershöfðingjans „ábyrgðarlausar og grimmilegar“.
Árásin kostaði sveit Pyl’cyns um 8 af hverjum 10 mönnum sem hann hafði yfir að ráða.
Hugrakkar fangasveitir
Á árunum 1943 og 1944, þegar bardagar geisuðu hvað harðast á austurvígstöðvunum, skipuðu Hitler og Stalín stöðugt fleiri afbrotamönnum inn í refsisveitir.
Heiftarlegir bardagarnir gerðu það að verkum að það var sífellt nóg af slíkum að taka. Undir lok ársins 1944 voru um 25.000 shtrafnikar í Rauða hernum og ári síðar hafði sú tala bólgnað upp í næstum 178.000 manns.
Hjá Þjóðverjum máttu hermenn með stutta dóma fyrir litlar yfirsjónir – þar sem áður hafði verið krafist refsingar sem nam mest sex mánaða fangelsi – sæta því að bætast í hóp slíkra refsisveita.
Skortur á vopnum og skotfærum hjá Þjóðverjum þýddi að slíkar sveitir fengu oftar en ekki úr sér gengna gamla riffla. Það sama gerðist hjá andstæðingum þeirra.
„Sumir shtrafnikar fengu aflóga riffla, meðan aðrir máttu láta sér nægja byssustingi“.
Alexander Pyl´cyn varðandi þær refsisveitir sem fyrst og fremst samanstóðu af föngum úr Gúlaginu.
Rússneskar refsisveitir fengu einatt aðeins lélega riffla eða venjuleg veiðivopn í hendurnar – eða jafnvel eitthvað þaðan af verra.
„Ef það var stutt í næsta leiðangur og ekki tími til að útvega vopn fengu sumir shtrafnikar aflóga riffla, meðan aðrir máttu láta sér nægja byssustingi“, minntist Pyl´cyn varðandi þær refsisveitir sem fyrst og fremst samanstóðu af föngum úr Gúlaginu – sveitir sem oft á tíðum þurftu að láta sér duga einn tíunda hluta af venjulegum matarskömmtum innan hersins.
Liðsforingja-shtrafbats eins og Pyl´cyn fengu aðeins betri vopn eins og var tilvikið þegar 8. sjálfstæða refsisveitin réðst á þýsk skotbirgi við Rogachev í febrúar 1944.
En annars voru þeir vanir útslitnum stígvélum og stagbættum einkennisbúningum sem þeir urðu sjálfir að lappa upp á með klæðnaði frá föllnum félögum.
Þrátt fyrir takmarkaðan búnað börðust refsisveitirnar af miklu hugrekki. Fyrir liðsforingjana snerist það um að sýna dug sinn í bardögum svo að þeir gætu endurunnið stöðu sína í hernum og gert sér vonir um að sleppa úr fangasveitunum.
Fyrir aðra, t.d. fangana úr fangelsum og Gúlaginu, var baráttuviljinn ekki jafn mikill. Þeir voru knúnir áfram af herlögreglu, vopnaðri vélbyssum og ef refsifangarnir hikuðu eitthvað í lífshættulegum árásum voru þeir einfaldlega skotnir þar sem þeir stóðu.
„Shtrafnikar flýja ekki. Það á miklu fremur við um venjulega hermenn heldur en okkur“.
Bóndasonurinn Ivan Gorin um félaga sína.
Engu að síður taldi bóndasonurinn Ivan Goring að margir félagar hans hafi barist af heilum hug.
„Ég held að þeir sem koma úr fangelsinu hafi tengst föðurlandi sínu sterkari böndum og elskað það meira en foringjarnir ofar í kerfinu“, skrifaði hann að stríði loknu meðan annar refsifangi áréttaði að mennirnir úr fangabúðunum hafi látið lífið með mikilli sæmd.
„Shtrafnikar flýja ekki. Það á miklu fremur við um venjulega hermenn heldur en okkur“, sagði hann.
Þýskir morðhundar
Hjá Þjóðverjum gegndu glæpamenn einnig mikilvægu hlutverki í refsisveitunum. Sú alræmdasta var Dirlewanger-hersveitin sem var nefnd eftir sadistaforingja þeirra, Oskar Dirlewanger.
Snemma í stríðinu hafði sveitin byrjað sem fylki með 300 mönnum sem samanstóð aðallega af dæmdum leyniskyttum og hæfileikar þeirra voru nýttir til hins ýtrasta á austurvígstöðvunum.
En í upphafi ársins 1944 hafði refsisveit þessi vaxið í heilt fylki og Dirlewanger fékk leyfi frá SS-leiðtoganum Heinrich Himmler til að velja sjálfur 800 menn meðal „margdæmdra glæpamanna“. Þar var að finna nauðgara, barnaníðinga, morðingja og andlega veika menn sem létu til sín taka innan sveitarinnar.
Oskar Dirlewanger var sakfelldur fyrir fjölmörg kynferðisbrot gegn börnum áður en hann varð leiðtogi hersveitar sérlega hrottalegra refsifanga. Hann var sagður hafa verið barinn til bana af pólskum hermönnum í júní árið 1945.
Þessir hermenn Dirlewangers voru algjörlega hömlulausir, hvort heldur þeir voru að pína gyðinga eða berjast við skæruliða að baki víglínunni. Í gyðingagettóinu í pólsku borginni Lublin þvinguðu böðlar sveitarinnar að sögn margar konur til að kasta klæðum áður en þeim var gefið eitur.
„Dirlewanger og félagar hans horfðu á og reyktu vindla á meðan konurnar dóu“, skrifaði einn lögmaður sem að stríði loknu rannsakaði afbrot sveitarinnar.
Leitin að skæruliðum á austurvígstöðvunum fór fram með svipuðum aðferðum, t.d. þegar Dirlewanger hvatti refsifangana til að brenna almenna borgara inni í hlöðum, ef minnsti grunur vaknaði um að þeir hefðu hjálpað skæruliðum.
Þegar fylkið fékk 1944 það verkefni að bæla niður uppreisn í Varsjá, fyrirskipaði Dirlewanger eitt sinn að láta drepa 500 börn í leikskóla – með byssuskeftunum, til þess að spara kúlurnar.
„Hann lyfti barninu hátt í loft upp og henti því síðan inn í eldinn“.
Mathias Schenk, liðsmaður hersveitarinnar.
Dirlewanger lét ekki sitt eftir liggja og reif eitt barn frá konu sem stóð þar í hópnum á götunni.
„Hann lyfti barninu hátt í loft upp og henti því síðan inn í eldinn“, greindi hermaðurinn Mathias Schenk síðar frá en hann var liðsmaður sveitarinnar.
Rússneskar refsisveitir voru einnig miskunnarlausar en þar sem þær voru jafnan að störfum á vígvellinum bitnaði þetta miskunnarleysi þeirra samkvæmt Pyl´cyn einungis á óvininum.
„Shtrafnikar tóku enga fanga, ekki einu sinni þegar einhverjir þýskir hermenn reyndu að gefast upp og hrópuðu: Hitler Kaput!“, sagði hann síðar.
„Ef við sýndum einhverja mildi og tókum þá til fanga, hvað áttum við þá að gera við þá, þar sem við vorum staddir í þessum ótrúlegu aðstæðum að baki víglínu óvinarins?“, sagði Pyl´cyn.
Stríðfangar enduðu í sveitunum
Oftast voru það samt hermenn í refsisveitunum sem misstu lífið. Hinir sovésku shtrafnikar vissu sem var að hver einasti leiðangur myndi líklega kosta þá lífið.
„Þeir hentu okkur inn á hættulegustu svæðin, sendu okkur nánast inn í vísan dauðann. Við fórum fremstir og án þess að stórskotalið væri að verja okkur“, sagði Pyl´cyn sem var einn af einungis sex mönnum sem lifði af í sveit sinni en hún taldi 198 manns.
Með sama hætti fékk hermaðurinn Ivan Gorin og hópur 330 annarra shtrafnika skipun um að storma fram yfir opið engi og ráðast á vígi Þjóðverja. Fáeinum tímum síðar voru allir fyrir utan Ivan Goring dauðir.
Þjóðverjar skutu niður þúsundir af sovéskum sprengjuflugvélum á austurvígstöðvunum – margar þeirra með refsifanga innanborðs.
Sovétfangar voru læstir inni í sprengjuflugvélum
Sovéskum refsiföngum var einnig refsað í lofthernaði. Niðurspenntur í sætin í sprengjuflugvélum voru þeir sendir í lágflug yfir svæði óvinanna.
Tíu ferðir, svo ert þú frjáls maður. Þannig hljóðaði tilboð sovéska flughersins til refsifanga sem fengu þann heiður að vera vélbyssuskyttur í allra hættulegustu leiðöngrunum – t.d. í sprengjuárásum yfir Volgu í hinum hatramma slag um Stalíngrad.
Vandinn var bara sá að fangarnir voru festir niður í sæti sín án þess að hafa fallhlífar. Líkurnar á því að deyja voru því miklar þar sem þýskar orustuflugvélar reyndu fyrst að skjóta skytturnar aftast í vélunum.
Tækist einhverjum þó að klára níu ferðir voru þeir ekki ósjaldan fluttir yfir í aðrar refsisveitir fyrir tíunda leiðangurinn.
„Taugar þínar þola ekki meira. Læknirinn leyfir ekki fleiri flugferðir“, var einatt viðkvæðið. Fangelsaðir flugmenn voru einnig sendir út í banvæna sprengjuleiðangra í lítilli hæð sem litlar líkur voru á að þeir myndu lifa af.
„Til þess að losna undan afplánuninni varð maður að særast í bardögum. En þegar herflugmaður fer í leiðangur er fyrsta sárið sem hann fær yfirleitt það síðasta“, sagði flugmaðurinn Afinogenov.
Svona brjálæðislegar árásir voru nánast hversdagslegar í röðum Rússa árið 1944, þar sem Þjóðverjar bjuggu einatt um sig á bak við fljót og opin svæði áður, þegar þeir þurftu að hörfa aftur í vesturátt.
Án þess að blikka auga fórnaði Stalín sínum refsiföngum fyrir hraða sókn. Árið 1944 var að meðaltali tilkynnt um meira en 14.000 dána shtrafnika í hverjum einasta mánuði. Þannig var mannfall innan refsisveitanna allt að þrisvar til sex sinnum meira en gerðist meðal annarra sveita hersins.
Hins vegar barst alltaf meiri liðsauki í stað hinna látnu. Stalín hafði þegar árið 1941 bannað sovéskum hermönnum að gefast upp fyrir óvininum. Þeir sem það gerðu voru sjálfkrafa stimplaðir sem landráðamenn.
Á meðan Rauði herinn sótti lengra í vesturátt voru sífellt fleiri fangabúðir með sovéskum stríðsföngum frelsaðar. En í staðinn fyrir frelsi voru þeir dæmdir fyrir landráð. Margir þeirra, einkum frelsaðir liðsforingjar, voru því sendir beinustu leið í refsisveitir.
Fjölmargir kirkjugarðar helgaðir Wagner-málaliðum sem voru drepnir í Úkraínu, hafa dúkkað upp víðsvegar í Rússlandi.
Málaliðar Pútíns endurtaka söguna
Í stríði Rússlands í Úkraínu hefur hinn alræmdi Wagner-hópur tekið við þúsundum fanga úr fangelsum Rússa. Rétt eins og í síðari heimsstyrjöldinni eru þeir settir í fremstu víglínu og liðhlaupa er refsað með dauða.
Ríflega 80 árum eftir að Stalín kom á laggirnar sínum shtrafbats berjast rússneskir refsifangar aftur á vígstöðvum. Þetta eru málaliðar í Wagner-hópnum sem opinberlega hefur skráð glæpamenn frá rússneskum fangelsum til að berjast í Úkraínu.
Á pappírnum er Wagner-hópurinn sjálfstæður her en samkvæmt sérfræðingum tengist hann varnarmálaráðuneyti Rússlands nánum böndum.
Í janúar 2023 áætluðu rússnesku fangasamtökin „Rússland á bak við lás og slá“ að allt að 50.000 fangar hefðu verið kallaðir inn í Wagner-hópinn. Samkvæmt upplýsingum samtakanna voru um 10.000 á þessum tíma enn að störfum. Langflestir höfðu að öllum líkindum verið drepnir í bardaga.
„Fangarnir voru notaðir sem fallbyssufóður. Eins og einhver kjötstykki. Ég fékk það hlutskipti að vera yfirmaður fangasveitar. Í minni sveit voru einungis þrír af 30 sem lifðu af. Svo fengum við fleiri fanga og margir þeirra dóu einnig“, sagði Wagner-liðhlaupinn Andrei Medvedev við dagblaðið The Guardian í janúar 2023.
Ef fangarnir lifa af sex mánaða þjónustu eru þeir náðaðir. En reyni þeir að flýja eru þeir teknir af lífi fyrir framan aðra fanga til að vara þá við slíkum uppátækjum, að sögn sjónarvotta.
Shtrafnikar fremstir í flokki
Eftir árangurinn við Rogachev í febrúar 1944 fékk Pyl´cyn nýjan mannafla af dæmdum liðsforingjum þannig að refsisveit hans gat haldið áfram sjálfsmorðsverkefnunum.
Við fljótið Drutz varð sveitin eina nóttina neydd til að gera árás yfir ísilagt fljótið.
Í myrkrinu féllu margir shtrafnikar í vatnið og frusu í hel. Þeim sem lifðu af var launað með þeim heiðri að ráðast djúpt bak við þýskar víglínur meðan Katjusjaeldflaugum Rússa rigndi niður yfir þá.
Þegar Rauði herinn hóf sumargagnárásina Operation Bagraton árið 1944 gegndu refsisveitirnar enn á ný stóru hlutverki.
Þrátt fyrir að hershöfðingjar Stalíns hafi nú ráðið yfir þúsundum af skriðdrekum og haft yfirburði í lofti voru shtrafnikar enn og aftur neyddir til að fara fremstir í flokki.
„Fáeinir manna minna lifðu þetta af. Einungis um tuttugu.“
Pyl’cyn um hrakfarir sínar við Oderfljótið.
Menn Pyl´cyns fengu m.a. það verkefni að ná á sitt vald brú nærri landamærunum við Pólland en um leið og þeirri aðgerð var lokið ruddust ótal rússneskir skriðdrekar yfir brúna, mönnunum til mikillar furðu.
„Mannfall okkar var gríðarlegt. Ég skildi hreinlega ekki hvers vegna skriðdrekarnir gátu ekki náð þessari brú, í staðinn að láta okkur gera það“, sagði liðsforinginn.
Ennþá blóðugra var síðasta áhlaup Pyl´cyns og manna hans. Í apríl 1945 var þeim skipað að ná fótfestu á vesturbakka Oder-fljóts í litlum árabátum undir stöðugu sprengjuregni Þjóðverja.
„Vatnið virtist vera sjóðandi vegna sprengju- og kúlnaregnsins“, minntist Pyl´cyn síðar en hann sá flesta bátana springa í tætlur á fljótinu.
„Við náðum nokkrum metrum af óvininum en það komust bara örfáir bátar yfir á bakkann. Fáeinir manna minna lifðu þetta af. Einungis um 20“.
Fáir snéru lifandi heim
Alexander Pyl´cyn og hersveit hans réðst á vesturbakka Oder-fljóts þegar Rauði herinn hóf stórsókn sína í átt til Berlínar og Hitlers. Þegar stríðinu lauk tveimur mánuðum síðar gátu rússneskir refsifangar loksins varpað öndinni léttar.
Þótt ótrúlegt megi virðast lifði Pyl´cyn af allar þessar hremmingar í tvö ár sem liðsforingi refsisveitar og þrátt fyrir að hann hafi séð nokkra menn sína hljóta náðun fyrir „frækilega frammistöðu“, þá heyrði slíkt til undantekninga. Flestir þeirra létu lífið.
Svo hörmulega vildi til í nokkrum tilvikum að til stóð að náða heila refsisveit fyrir hetjudáðir hennar en áður en samþykki fékkst í skrifræðinu á æðri stöðum, var búið að gjöreyða allri sveitinni í enn einum bardaganum.
Bæði Þjóðverjar og Rússar tóku liðhlaupa af lífi. Hér skera hermenn Bandamanna niður þýskan liðhlaupa.
Það var ekki fyrr en Stalín fagnaði „sigrinum mikla“ sem refsifangar voru loksins náðaðir.
Ekki er vitað með vissu hve margir hermenn börðust sem refsifangar í stríðinu. Í Rússlandi voru 427.910 dæmdir sem shtrafbats frá september 1942 til maí 1945 – raunverulegar tölur eru trúlega mun hærri, enda var slík sovésk tölfræði ákaflega óáreiðanleg.
Sovésk yfirvöld voru þekkt fyrir að hagræða slíkum tölum eftir hentugleikum. Hvað refsisveitirnar varðar voru fangarnir líklega mun fleiri.
Í Þýskalandi glötuðust fjölmörg skjöl í stríðinu en sagnfræðingar áætla að minnst 50.000 fangar hafi verið innlimaðir í herinn.
Sagnfræðingar telja jafnframt að um helmingur þeirra hafi látið lífið í heimsstyrjöldinni en mannfallið var miklu meira hjá shtrafnikunum. Á árinu 1944 einu saman töldu sovésk yfirvöld opinberlega 170.292 fallna menn.
Einungis brot af sovéskum refsiföngum er talið hafa lifað af stríðið. Eins og einn hermaður sagði: „Þetta stríð snérist um útrýmingu okkar“.
Alexander Pyl´cyn lést árið 2018 og var þá 94 ára gamall. Hann þurfti því ekki að reyna hvernig rússneski málaliðaherinn Wagner er nú að endurtaka miskunnarleysið og stríðsglæpina sem allir ætluðu að hefðu kennt mannkyni sína lexíu í síðari heimsstyrjöldinni.
Lesið meira um refsisveitir
Zapotoczny: Strafbattalion: Hitler’s Penal Battalions, Fonthill Media, 2018
Alexander Pyl’cyn: Penalty Strike, Stackpole Books,
2009